Verri árangur í New York en í Wuhan og á Ítalíu

Fólk á ferli í New York, en þar er uppi …
Fólk á ferli í New York, en þar er uppi samkomubann og þarf fólk að passa upp á fjarlægð sín á milli, líkt og á Íslandi. Smit í Bandaríkjunum eru nú fleiri en í nokkru öðru landi. AFP

Haldi vöxtur kórónuveirusmita áfram í New York-borg í Bandaríkjunum verða áhrif faraldursins þar mun verri en í kínversku borginni Wuhan eða í Langbarðalandi á Ítalíu. Aðgerðir í borginni til að koma í veg fyrir samgang milli fólks gætu breytt talsverðu, en hingað til hefur gengið verr en í Wuhan og Langbarðalandi að „fletja út kúrfuna“ á þessum punkti í faraldrinum. Þetta kemur fram í greiningu New York Times á ástandinu þar í borg. Segir þar jafnframt að fleiri bandarískar stórborgir séu á svipaðri leið og New York, meðal annars Detroit.

Samkvæmt tölum frá Bandaríkjunum komu upp samtals 15 þúsund ný smit í landinu í gær. Eru það aðeins færri smit en á fimmtudaginn þegar 16 þúsund smit komu upp. Heildarfjöldi smita er nú kominn yfir 100 þúsund og eru Bandaríkin fyrsta landið þar sem það gerist.

Samtals 44 þúsund smit hafa komið upp í New York. …
Samtals 44 þúsund smit hafa komið upp í New York. Þar af eru 6 þúsund á sjúkrahúsi og 1.600 á gjörgæslu. 519 hafa látist af völdum veirunnar þar. AFP

Í New York er ástandið hvað verst, en þar hafa samtals 44 þúsund staðfest smit komið upp og eru sex þúsund manns á spítala, þar af 1.600 á gjörgæslu. Þá hafa 519 látist í New York vegna veirunnar.

Samkvæmt New York Times eru tilfellin í New York á hverja 1.000 íbúa nú flest þar í landi með  2,15 smitaða íbúa á hverja þúsund, en til samanburðar var fjöldinn 4,59 í Wuhan og 3,48 í Langbarðalandi. Tekið skal fram að tölur blaðsins miðast við fjölda smita á fimmtudaginn og hefur þeim síðan fjölgað. Fjöldi þeirra sem hafa dáið vegna veirunnar í New York er 0,03 á hverja þúsund íbúa. Nokkrar borgir eru með hærra hlutfall, en þær eru þó allar mun fámennari en New York, meðal annars New Orleans með 1,3 milljónir íbúa og 0,05 látna á hverja þúsund.

Umferð um götur New York borgar er nú lítil sem …
Umferð um götur New York borgar er nú lítil sem engin og hefur mörgum breiðstrætum verið lokað. AFP

Á einu grafi sem New York Times birtir má sjá hvernig hlutfallsfjölgun smita í New York er samanborið við önnur þéttbýlissvæði í Bandaríkjunum, sem og Wuhan og Langbarðaland. Miðað við þá mynd segir blaðið að myndin sé ekki ýkja björt í New York og hlutfall nýrra smita mun hærra í borginni en annars staðar. Reyndar er staðan langverst að þessu leyti í New York þótt miðað sé við Langbarðaland og Wuhan. Bendir blaðið á að í Detroit og New Orleans hafi smitum fjölgað gríðarlega án þess að gripið hafi verið til nægra ráðstafana, en í Seattle og San Francisco hafi á móti tekist að bregðast betur við og „fletja út kúrfuna“.

Grein New York Times.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert