„Mjög sterkar vísbendingar“ um uppruna veirunnar

Pompeo vildi ekki segja til um það hvort hann teldi …
Pompeo vildi ekki segja til um það hvort hann teldi að veirunni hefði viljandi verið lekið út af rannsóknarstofunni. AFP

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir „mjög sterkar vísbendingar“ hafa komið fram um að kórónuveiran eigi uppruna sinn að rekja til rannsóknarstofu í Wuhan í Kína. AFP-fréttastofan greinir frá.

„Það eru mjög sterjar vísbendingar um að þar hafi þetta allt byrjað,“ sagði hann í þættinum This Week á ABC. Hann gagnrýndi einnig það hvernig Kínverjar hefðu tekist á við faraldurinn. Aðspurður vildi hann þó ekki segja til um það hvort veirunni hefði verið lekið viljandi út af rannsóknarstofunni eða það hefði verið fyrir slysni.

Í síðustu viku hótaði Don­ald Trump, for­seti Banda­ríkj­anna, yf­ir­völd­um í Pek­ing í Kína aukn­um toll­um og sagðist hafa sann­an­ir fyr­ir því að hægt væri að tengja kór­ónu­veiruna við rann­sókn­ar­stofuna sem um ræðir. 

Spurður hvort hann hefði séð eitt­hvað sem benti sterk­lega til þess að rekja mætti upp­haf far­ald­urs­ins til veiru­fræðistofn­un­ar Wu­h­an, svaraði hann: „Já, það hef ég.“

Þegar blaðamenn þrýstu á hann að veita frek­ari upp­lýs­ing­ar um hvað það væri sem gerði hann svo viss­an í sinni sök, sagði hann: „Ég get ekki sagt ykk­ur það.“ 

Trump sagði að banda­rísk­ar stofn­an­ir væru að rann­saka hvernig veir­an kom fyrst upp og hvað Kín­verj­ar hafi gert til að koma í veg fyr­ir að hún breidd­ist út um heim­inn. „Við mun­um fá mjög ná­kvæma grein­ingu á því hvað gerðist,“ sagði for­set­inn og bætti við að hann fengi skýrsl­una í hend­urn­ar von bráðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert