Einungis 7,3% Stokkhólms myndað mótefni

Anders Tegnell hefur nálgast heimsfaraldurinn öðruvísi en kollegar hans á …
Anders Tegnell hefur nálgast heimsfaraldurinn öðruvísi en kollegar hans á Norðurlöndum. Tæplega 4.000 hafa týnt lífi vegna COVID-19 í Svíþjóð og 32.172 smitast. AFP

Einungis 7,3% íbúa Stokkhólms höfðu þróað mótefni við COVID-19 í lok apríl. Þetta leiðir rannsókn lýðheilsustofnunar Svíþjóðar í ljós. Stærðfræðiprófessor telur möguleika á að fleiri hafi smitast en hafi þróað mótefni.

Þetta lága hlutfall vekur áhyggjur um að nálgun Svía, sem hafa sett talsvert minni hömlur á daglegt líf landsmanna en önnur Evrópulönd vegna útbreiðslu kórónuveiru, sé ekki að byggja upp víðtækt ónæmi eins og vonir heilbrigðisyfirvalda þar í landi stóðu til. 

Niðurstöður rannsóknarinnar benda einnig til þess að dánartíðni fyrir hvern íbúa hafi verið mest í Svíþjóð af öllum Evrópulöndum frá 12. til 19. maí. 

Heilbrigðismaður á sjúkrahúsi í Svíþjóð klæðir sig í hlífðarfatnað á …
Heilbrigðismaður á sjúkrahúsi í Svíþjóð klæðir sig í hlífðarfatnað á gjörgæslu. AFP

Telur að nú hafi 20% smitast

Viðbrögð Anders Tegnell sóttvarnalæknis við niðurstöðum rannsóknarinnar voru á þá leið að mótefnamyndunin væri „aðeins lægri en við hefðum búist við“, en hann bætti því við að rannsóknin endurspeglaði ástandið fyrir þremur vikum og því teldi hann að nú hefðu rúmlega 20% íbúa Stokkhólms smitast af veirunni. 

Aftur á móti hafði lýðheilsustofnun Svíþjóðar áður sagt að búist væri við því að 25% íbúa Stokkhólms hefðu smitast fyrir fyrsta maí og Tom Britton stærðfræðiprófessor, sem hjálpaði til við að smíða spálíkan stofnunarinnar, sagði að niðurstöður rannsóknarinnar væru óvæntar.

„Þetta þýðir annaðhvort að útreikningar mínir og stofnunarinnar eru kolrangir, sem er alveg mögulegt, en ef það er tilfellið þá kemur mjög á óvart að þeir séu svo rangir, eða að fleiri hafi smitast en hafi þróað mótefni,“ sagði Britton í samtali við sænska dagblaðið Dagens Nyheter

„Þvoið hendurnar“ stendur hér á veggspjaldi af Tegnell.
„Þvoið hendurnar“ stendur hér á veggspjaldi af Tegnell. AFP

Hjarðónæmi „hættuleg og óraunhæf“ nálgun

Björn Olsen, prófessor í smitsjúkdómalækningum við Háskólann í Uppsölum, sagði hjarðónæmi „hættulega og óraunhæfa“ nálgun. 

„Ég held að hjarðónæmi sé langt frá okkur, ef við náum því þá nokkurn tíma,“ sagði hann eftir að niðurstöður rannsóknarinnar voru kunngjörðar. 

Tegnell hefur neitað því að hjarðónæmi sé markmið í sjálfu sér og segir að stefna Svíþjóðar miði fremur að því að hægja á útbreiðslu veirunnar svo heilbrigðiskerfi þjóðarinnar geti tekist á við hana. 

Spáðu því að þriðjungur hefði fengið veiruna

Tegnell hefur þó einnig sagt að lönd sem beittu ströngum hömlum geti verið næmari fyrir annarri bylgju sýkinga vegna þess að minni hluti íbúa þeirra hefði myndað mótefni. 

Í apríl spáðu heilbrigðisyfirvöld því að þriðjungur íbúa Stokkhólms hefði þróað mótefni við kórónuveirunni í byrjun maí og sögðu að hjarðónæmi upp á 40-60% gæti verið komið á í borginni um miðjan júní. Sú spá virðist ekki ganga upp.

Frétt Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert