Eldar loga og ráðist á lögreglu

Fjórir lögreglumenn hafa verið fluttir á sjúkrahús í St. Louis eftir að hafa orðið fyrir skothríð en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í borginni eru þeir allir með meðvitund. Enginn þeirra er í lífshættu. Allt er á suðupunkti í fjölmörgum borgum Bandaríkjanna og hefur bróðir George Floyd, Terrence, biðlað til mótmælenda um að hætta ofbeldi og mótmæla friðsamlega.

AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, ávarpaði bandarísku þjóðina í Rósagarði Hvíta hússins í gærkvöldi og greindi frá því að hann ætlaði að virkja bæði herlið og borgara í landinu til þess að koma böndum á óeirðirnar sem fylgt hafa mótmælunum í kjölfar dauða George Floyds. 

 

AFP

Eftir að Trump flutti ávarpið í Rósagarðinum hélt hann yfir götuna í St. John’s kirkjuna sem hefur verið kirkja forseta frá árinu 1816. Kveikt var í kjallara hennar í óeirðunum á sunnudagskvöld.Trump lét mynda sig með Biblíuna á lofti fyrir utan kirkjuna og síðan bættist dómsmálaráðherrann William Barr við og aðrir embættismenn, þar á meðal blaðafulltrúi Hvíta hússins, Kayleigh McEnany.

AFP

„Landið okkar er frábært,“ lýsti Trump yfir þar sem hann stóð fyrir framan kirkjuna með Biblíuna á lofti en myndatakan hefur hlotið misjöfn viðbrögð meðal Bandaríkjamanna.

Joe Biden, sem útlit er fyrir að verði forsetaefni demókrata, skrifaði á Twitter að Trump beitti bandaríska hernum á bandarísku þjóðina. „Hann beitir táragasi á friðsamlega mótmælendur og skýtur gúmmíkúlum. Fyrir mynd, fyrir börnin okkar, fyrir sál lands okkar verðum við að sigra hann,“ skrifar Biden en til átaka kom þegar lögregla og her ruddi leiðina fyrir forsetann fyrir myndatökuna við kirkjuna eftir ávarpið í Rósagarðinum. 

AFP

Biskup biskupakirkjunnar í Washington, Mariann Budde, segist vera mjög ósátt við kirkjuheimsókn forsetans enda hafi hann ekki haft neina heimild fyrir henni á sama tíma og þúsundir hafa tekið þátt í mótmælum gegn lögregluofbeldi og kynþáttahatri undanfarna daga.

Ekki hefur komið til jafn víðtækra óeirða í Bandaríkjunum síðan árið 1968 í kjölfar morðsins á Martin Luther King Jr.

AFP

Stór hluti mótmælanna hafa verið friðsamleg og líkt og sjá má á myndum þar sem lögreglumenn faðma grátandi mótmælendur og taka þátt í mótmælum. Útgöngubann var í gildi í meira en 40 borgum í nótt.

Þjóðvarðliðið var kallað út í Los Angeles og stóð það vörð á ýmsum stöðum þar á meðal í Dolby-leikhúsinu. Mótmælin eru að mestu friðsamleg í borginni en eitthvað hefur verið um gripdeildir.  

AFP

Í Buffalo í New York-ríki var ekið á tvo lögreglumenn þegar mótmæli fóru úr böndunum þar í gærkvöldi. Samkvæmt upplýsingum frá alríkislögreglunni í New York eru lögreglumennirnir báðir alvarlega slasaðir en ekki í lífshættu. 

AFP

Borgarstjórinn í New York, Bill de Blasio, sagði eftir heimsókn í Bronx-hverfið í gærkvöldi að þar væri staðan alvarleg á tveimur stöðum en til átaka kom á milli lögreglu og mótmælenda. Útgöngubann ríkir í borginni aðra nóttina í röð en skemmdarvargar hafa ekki látið það aftra því að rupla og ræna verslanir við Fifth Aveneue og víðar í borginni. New York er ein margra borga Bandaríkjanna sem hefur sett á útgöngubann vegna óeirðanna en í um helmingi ríkja Bandaríkjanna hefur komið til átaka undanfarna sólarhringa. 

AFP

Derek Chauvin, lögreglumaðurinn sem drap Floyd fyrir rúmri viku, verður leiddur fyrir dómara í næstu viku þar sem hann verður ákærður fyrir morð. Dauði Geor­ge Floyds, 46 ára svarts karl­manns sem lést í haldi lög­reglu fyrir rúmri viku, hef­ur verið form­lega úr­sk­urðaður mann­dráp. 

Staðarblöð í Minneapolis-St. Paul greindu frá því um helgina að kvartað hefði verið sautján sinnum áður undan framferði Chauvins sem lögreglumanns, en einungis tvær þeirra kvartana leitt til áminningar. Eiginkona Chauvins hefur sótt um skilnað vegna málsins og sendi hún samúðarkveðjur sínar til fjölskyldu Floyd í sérstakri yfirlýsingu.

Chauvin er nú í varðhaldi, en ákveðið var að færa hann úr fangelsi borgarinnar þar sem óttast var um öryggi hans. Þrír félagar hans, sem stóðu hjá meðan Floyd lést, hafa verið reknir úr lögreglunni.

Að sögn lögreglu Seattle hafa mótmæli þar breyst í óeirðir eftir að líða tók á nóttina þar sem grjóti, flöskum og flugeldum er kastað í lögreglu. Á samfélagsmiðlum tala íbúar um að skothvellir heyrist og að táragasi sé beitt óspart. Aftur á móti er rólegra yfir í borginni Portland þar sem lögreglan segir að þeir sem hafi brotið gegn útgöngubanni mótmæli á friðsamlegan hátt. 

AFP

Útgöngubann er í gildi í New York til morguns en gripdeildir settu mark sitt á mótmælin í borginni í nótt. Meðal þeirra verslana sem urðu fyrir barðinu á gripdeildum var verslun Michael Kors á Fifth Avenue sem og Nike, Lego og raftækjaverslanir. Útgöngubannið gildir til klukkan 5 að staðartíma, klukkan 9 að íslenskum tíma. 

AFP

Fréttamenn AFP-fréttastofunnar segja að hópar ungmenna hafi farið á milli verslana, rænt og ruplað. Myndskeið fjölmiðla sýna ungt fólk hlaupa inn í verslanir eins og Best Buy-raftækjaverslunina og hreinsa þar út áður en lögregla kom á vettvang. Svipaða sögu er að segja af öðrum hverfum á Manhattan. 

Á vef New York Times kemur fram að meðal verslana sem brotist var inn í er stórverslunin Macy's. Að sögn lögreglu hafa hundruð verið handtekin vegna þessa og de Blasio segir ástandið ólíðandi. Vegna stöðunnar var ákveðið að flýta útgöngubanninu og hófst það klukkan 20 í stað 23 í gærkvöld en fjögurra tíma munur er á milli New York og Íslands á þessum árstíma. 

Umfjöllun CNN

Frétt New York Times

Frétt Washinton Post

Frétt BBC

Frétt Guardian

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert