Fann milljón dala fjársjóðskistu á fjöllum

Klettafjöll (e. Rocky Mountains) er fellingafjallgarður í vestanverðri N-Ameríku, um …
Klettafjöll (e. Rocky Mountains) er fellingafjallgarður í vestanverðri N-Ameríku, um 4.800 km langur og liggur frá Nýju-Mexíkó í SV-Bandaríkjunum til Yukon í NV-Kanada. Hæsti tindur: Mount Elbert (4.399 m); fjöllin eru auðug að jarðefnum og víða skógi vaxin. Í Klettafjöllum eru margir þjóðgarðar sem draga að sér fjölda ferðamanna. Ljósmynd/Wikipedia

Óþekktur einstaklingur fann nýverið fjársjóðskistu við Klettafjöll í vestanverðum Bandaríkjunum sem er metin á meira en milljón Bandaríkjadala, andvirði um 130 milljóna króna íslenskra. Kistan var full af gulli og gersemum frá ólíkum tímum, sumum jafnvel frá því áður en hvíti maðurinn réðst inn í Ameríku á fimmtándu öld.

Kistan hefur þó aðeins leynst á staðnum í rúman áratug, að því er segir á BBC: Henni var komið þar fyrir af auðmanninum Forrest Fenn. Hann faldi kistuna til þess að halla sér síðan aftur og fylgjast með fólki leita hennar logandi ljósi árum saman.

Hvað drífur auðmann til þess að taka upp á öðru eins, er von að menn spyrji sig. Svarið er ekki margbrotnara en að fyrir Fenn vakti einfaldlega að fá fólk til þess að standa upp af sófanum og skella sér út í náttúruna. Síður heilnæmur fylgifiskur þess markmiðs Fenn hefur þó verið sá að á síðasta áratug hafa fjórir látist við að leita að fjársjóðnum.

Sá sem loks hafði upp á kistunni kveðst hafa gert það á grundvelli kvæðis sem Fenn birti í ævisögu sinni, sem fól í sér vísbendingu í rétta átt. Í viðtali við bæjarblaðið Santa Fe New Mexican gefur Fenn ekki upp hver hinn fundvísi er og lætur duga að segja að hann sé að austan (e. from back East). 

Fenn segist síðan í senn ánægður og sorgmæddur: Hann fagnar því að einhver hafi fundið kistuna, en hann er leiður að komið sé að leikslokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert