„Þau hafa misst tökin á faraldrinum“

Grímuklædd kona og grímuklætt götulistaverk.
Grímuklædd kona og grímuklætt götulistaverk. AFP

2.988 ný smit kórónuveiru greindust í Bretlandi síðasta sólarhring. Um er að ræða mestu fjölgun daglegra smita þarlendis síðan 22. maí og segir breskur prófessor að stjórnvöld séu búin að missa tökin á faraldrinum. 

Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, segist áhyggjufullur yfir ástandinu en smitum hefur helst fjölgað á meðal ungs fólks. Þrátt fyrir mikla fjölgun daglegra smita  á laugardag voru smitin 1.175 talsins  telur Hancock að það hafi verið rétt ákvörðun hjá ríkisstjórninni að opna skóla að nýju vegna þess að lokun þeirra hafi mikil áhrif á börn. 

Faraldur á meðal efnaminni hópa

Háskólar í Bretlandi undirbúa nú opnun og Bretar eru farnir að snúa aftur til vinnu í auknum mæli. Verkamannaflokkurinn hefur krafist þess að Hancock komi fyrir þingið og útskýri hvers vegna sumt fólk sé enn beðið að keyra hundruð kílómetra til þess að fá að fara í veirupróf.

„Þau hafa misst tökin á faraldrinum,“ sagði Gabriel Scally, prófessor og fyrrverandi framkvæmdastjóri innan breska heilbrigðiskerfisins (NHS), í samtali við Guardian. „Þetta eru ekki lengur lítil hópsmit sem þau geta stjórnað. Veiran er orðin að faraldri í fátækum hópum í Bretlandi. Það vekur sérstaklega miklar áhyggjur þar sem það er verið að opna skóla.“

Alls er 41.551 fallinn frá vegna veirunnar í Bretlandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert