Geta veitt Finnum fyrirvaralausan herstuðning

Fánar Norðurlanda blakta utan við Riksdagen, sænska þingið.
Fánar Norðurlanda blakta utan við Riksdagen, sænska þingið. Magnus Fröderberg/Norden.org

Frumvarp sem gefur sænsku ríkisstjórninni heimild til að veita Finnum hernaðaraðstoð án aðkomu sænska þingsins, verði Finnar fyrir hernaðarárás, var samþykkt á sænska þinginu í gær. Tilsvarandi frumvarp um hernaðarstuðning til Svía verður lagt fram á finnska þinginu. Fréttaveitan TT greinir frá.

„Þetta er öryggispólitískt merki til heimsbyggðarinnar,“ sagði Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, er hann mælti fyrir frumvarpinu á fyrsta degi nýs þingvetrar í Svíþjóð. Hingað til hefur þurft stuðning þingsins til að samþykkja hernaðaraðstoð til Finna en slíkt getur tekið allt að viku í meðferð þingsins. „Ríkisstjórnin getur nú tekið ákvörðun umsvifalaust,“ segir Hulqvist. 

Lögin ná þó aðeins til aðstoðar við að verja landið í upphafi vopnaðra átaka. Standi þegar yfir stríð í Finnlandi þarf samþykki þingsins til að Svíar taki þátt í stríðinu.

Frumvarpið naut breiðs stuðnings á þinginu, bæði ríkisstjórnar jafnaðarmanna og græningja, sem og borgaralegu flokkanna í stjórnarandstöðu. „Þetta er eðlileg framþróun á sænskri þjóðaröryggisstefnu þar sem við fjarlægjumst stefnuna um hlutleysi og snúum okkur þess í stað að samvinnu,“ segir Pål Jonsson, þingmaður hægriflokksins Moderaterna, sem situr í varnarmálanefnd sænska þingsins. 

Moderaterna og hinir borgaralegu flokkarnir þrír hefðu þó viljað að lögin gengju lengra og næðu til allra Evrópusambands- og Atlantshafsbandalagsríkja. Svíar hafa alla tíð staðið utan Atlantshafsbandalagsins en á síðustu árum hefur landið átt í æ nánara samstarfi við ríki ESB og NATO á sviði öryggis- og varnarmála. Er það raunar á stefnuskrá hægriflokksins Moderaterna að ganga í bandalagið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert