Þurfa að greiða Flórídaríki til að mega kjósa

Fólk á gangi við sólsetur á Miami-strönd í sumar. Kjósendur …
Fólk á gangi við sólsetur á Miami-strönd í sumar. Kjósendur samþykktu að breyta stjórnarskrá Flórída árið 2018. AFP

Áfrýjunardómstóll á alríkisstigi í Bandaríkjunum úrskurðaði í gær að fyrrverandi fangar í Flórída geti ekki tekið þátt í kosningum nema þeir hafi borgað allar sektir sem þeir kunna að skulda Flórídaríki, en búist er við að ríkið muni leika lykilhlutverk í komandi forsetakosningum.

Talið er að úrskurðurinn geti haft áhrif á hundruð þúsunda mögulegra kjósenda í Flórída, þar sem kannanir hafa sýnt frambjóðendurna Trump og Biden hnífjafna.

Nærri nauðsynlegt er talið fyrir forsetann núverandi að vinna sigur í ríkinu og fá þar með 29 kjörmenn þess, ætli hann sér að halda áfram í embætti.

Samþykktu breytingu 2018

Árið 2018 samþykktu kjósendur í Flórída breytingu á stjórnarskrá ríkisins, sem leyfir föngum að fá aftur kosningarétt um leið og þeir ljúka afplánun.

Ríkisþingið, þar sem repúblikanar ráða ríkjum, brást við með því að keyra í gegn lög sem kveða á um að allar sektir, kostnaður og annað sem fyrrverandi fangar geta skuldað ríkinu þurfi að vera greitt til að þeir fái þessi réttindi á ný.

Dómstóll á neðra dómstigi skar svo úr um að þau lög brytu gegn stjórnarskrá. Nú hefur æðri dómstóll snúið þeirri niðurstöðu við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert