Segir kosningarnar þær merkilegustu í sögunni

Friðjón segir komandi forsetakosningar í Bandaríkjunum þær merkilegustu í sögunni.
Friðjón segir komandi forsetakosningar í Bandaríkjunum þær merkilegustu í sögunni. Ljósmynd/Samsett

Það stefnir í stórsigur Joes Bidens í bandarísku forsetakosningunum hinn 3. nóvember næstkomandi að mati Friðjóns R. Friðjónssonar almannatengils og áhugamanns um bandarísk stjórnmál. Hann segir kosningarnar í ár þær merkilegustu sem sögur fari af.

Að Trump Bandaríkjaforseti skyldi fá kórónuveiruna segir Friðjón að hafi verið það versta sem gat mögulega komið fyrir hann. Það hafi sett kórónuveiruna á dagskrá og það sé ekki gott fyrir forsetann, enda séu ríflega 200 þúsund Bandaríkjamenn látnir af völdum veirunnar og hefur forsetinn verið harðlega gagnrýndur fyrir viðbragð sitt við faraldrinum.

Trump og Biden við fyrstu kappræðurnar þeirra á milli aðfaranótt …
Trump og Biden við fyrstu kappræðurnar þeirra á milli aðfaranótt miðvikudagsins síðasta. AFP

„Þetta eru stærstu kosningar sem sögur fara af. Það þyrfti að leita aftur til nítjándu aldar þegar John Quincy Adams og Andrew Jackson áttust við árið 1824 til þess að finna álíka merkilegar kosningar,“ segir Friðjón í samtali við mbl.is.

Hvernig meturðu atburðarásina núna, hvað heldurðu að gerist næst?

„Það er bara algjörlega ómögulegt að segja til um það,“ segir Friðjón og hlær. Hann segir að margt merkilegt hafi gerst sem talið var að myndi breyta gangi kosningabaráttunnar en að það sé nú toppað eftir að Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti að hann og kona hans Melania væru smituð.

„Það hafa margir atburðir í aðdraganda þessara kosninga átt að gjörsamlega snúa kosningabaráttunni á annan endann. Síðan gerist bara eitthvað annað enn merkilegra daginn eftir en sú staðreynd að Trump sé smitaður mun vissulega, jú, snúa þessu öllu saman alveg á annan endann.“

Versta sem gat komið fyrir

Friðjón segir að það að Trump hafi smitast af kórónuveirunni sé það versta sem gat komið fyrir hann.

„Þetta setur COVID á dagskrá. Og það er ekki gott fyrir Trump. Núna verður COVID einna helst á milli tannanna á fólki; líðan hans, líðan annarra smitaðra, hvað gerist ef hann veikist alvarlega o.s.frv., en ekki síst viðbragð hans við faraldrinum öllum – sem hefur auðvitað ekki verið nógu gott, eins og við vitum.“

Ríflega 200 þúsund manns hafa látist í Bandaríkjunum af völdum kórónuveirunnar síðan heimsfaraldurinn hófst. Trump hefur verið harðlega gangrýndur fyrir viðbrögð sín og jafnvel sakaður um að hafa leynt veirunni fyrir þjóð sinni.

„Svo er athyglisvert að sjá að það eru tveir öldungadeildarþingmenn smitaðir líka, þeir Thom Tillis og Mike Lee. Þeir eru báðir repúblikanar sem sitja í dómaranefnd bandarísku öldungadeildarinnar og það setur útnefningarferli nýs dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna í algert uppnám. Sérstaklega ef Trump sjálfur verður of veikur til þess að keyra það ferli áfram,“ segir Friðjón.

Tölurnar tala sínu máli

Friðjón segir stefna í stórsigur Bidens í kosningunum vestra. Trump sé að missa kjarnafylgi sitt sem leiddi hann til sigurs árið 2016 og ríki sem áður voru á bandi repúblikana séu að snúast á sveif með demókrötum.

„Ég held að ég hafi séð því spáð að sigurlíkur Bidens væru núna um 80% eða eitthvað álíka. Og í mögum ríkjum þar sem Trump vann áður mælist Trump 6% til 8% neðar en Biden, sem er langt fyrir neðan öll skynsamleg vikmörk. Ég sé því ekki hvernig hann ætti að geta unnið þetta og ég held að sú staðreynd að hann er smitaður af COVID muni hvorki hjálpa honum, né vinna gegn honum raunar.

Svo er hann að missa þá kjósendur sem kusu hann seinast. Hvítar konur og hvítir menntaðir karlmenn, sem kusu hann árið 2016, eru nú líklegri til að kjósa Biden. Svo fjölgar kjósendum í minnihlutahópum sem kjósa yfirleitt demókrata þannig að það virðist svona flest vinna gegn honum.“

Trump, Pence og svo Pelosi

Friðjón segir að ef komi til þess að Trump veikist alvarlega eða jafnvel falli frá verði Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, starfandi forseti. Öðru máli gegnir um kosningarnar þar sem flókið mál yrði að gera Pence að frambjóðanda repúblikana, færi allt á versta veg fyrir Trump.

„Það sem er í raun áhugaverðast við þessa goggunarröð er það, að ef Trump veikist alvarlega og Pence jafnvel líka, þá er Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, næst í röðinni. Hún yrði þar með svarin inn sem forseti, þó ekki átakalaust geri ég ráð fyrir,“ segir Friðjón.

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.
Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. AFP

Friðjón segir að kosningabarátta Trumps sé í algjöru uppnámi. Hann muni ekki geta haldið sína venjubundnu kosningafundi og mun líklega þurfa nokkra daga ef ekki vikur til þess að jafna sig af kórónuveirunni.

Þess má geta að þegar Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, greindist með kórónuveiruna í lok mars að þá var hann frá starfi í eina þrjátíu daga. Fari svo að Trump verði jafnveikur og Boris og þurfi að leggjast inn á gjörgæslu mun hann mögulega missa af kosningunum öllum, en þær fara fram eftir réttan mánuð.

Stærstu og merkilegustu kosningar frá upphafi

Friðjón fer ekki í grafgötur með þá skoðun sína að kosningarnar séu þær merkilegustu frá upphafi.

Nú höfum við séð margt gerast í bandarískri pólitík, Watergate-skandalinn, morðið á Kennedy, eru þessar kosningar í ár af þeirri stærðargráðu? Eru þessar kosningar þær stærstu í sögu Bandaríkjanna?

„Ekki spurning.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert