Fullviss um að Pútín sé sökudólgur

Navalny telur Pútín standa að baki árásinni.
Navalny telur Pútín standa að baki árásinni. AFP

Alexei Navalní, helsti gagnrýnandi stjórnvalda í Rússlandi, er þess fullviss að Vladimir Pútín, forseti Rússlands, hafi staðið á bak við eitrun sem hann varð fyrir um borð í flugvél á leið frá Síberíu til Moskvu 20. ágúst síðastliðinn.

„Ég geri ráð fyrir því að Pútín standi að baki árásinni. Ég hef enga aðra útskýringu,“ segir Navalní í samtali við Der Spiegl.

Hann segist hafa verið þess fullviss að þetta væri hans síðasta þegar hann fann fyrir einkennum eitursins. „Í fyrstu fann ég kuldahroll en engan sársauka,“ segir Navalní. „Þú finnur ekki fyrir neinu, hvorki ofsahræðslu né uppnámi. Í fyrstu gerirðu þér grein fyrir því að eitthvað er að, en svo hugsarðu með sjálfum þér að þú sért að fara að deyja,“ segir Navalní.

Hyggst ekki yfirgefa stjórnmálin 

Það sem varð honum til lífs var neyðarlending í borginni Omsk þar sem honum var komið á bráðamóttöku í snatri. Í framhaldinu var flogið með hann til Berlínar þar sem honum var haldið sofandi nokkra hríð. Rannsókn sem gerð var í Berlín þykir staðfesta að eitrað hafi verið fyrir Navalní með eitri sem svipar til novichok – eiturs sem búið var til af rússneskum vísindamönnum á dögum kalda stríðsins. Einungis lítið magn þarf til þess að valda bana.

Kemur fram að hann hafi um langa hríð glímt við ofskynjanir og svefnleysi eftir árásina. Líkamlega braggast hann þó ágætlega.

Navalní telur næsta víst að ástæðu árásarinnar megi rekja til þess að kosið er til þings í Rússlandi á næsta ári. Er hann sagður helsta ógnin við völd núverandi stjórnar. Segir hann í samtali við BBC að hann ætli sér ekki að yfirgefa stjórnmálin.

BBC segir frá

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert