Segist ónæmur og tilbúinn í lokasprettinn

AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur lýst því yfir að hann sé nú ónæmur fyrir kórónuveirunni og sé tilbúinn í lokasprett kapphlaupsins um Hvíta húsið.

Á laugardaginn ályktuðu læknar Trumps að forsetinn væri ekki lengur smithætta og leyfðu honum því að halda kosningabaráttu sinni áfram. Ekki hefur verið staðfest hvort forsetinn sé veirulaus, eða hvort hann sé í raun og veru ónæmur.

Í viðtali við fréttastofu Fox sagði Trump að hann væri ónæmur, „kannski í stuttan tíma og kannski í langan tíma, það gæti verið heil ævi, hver veit“.

Þá sagði hann að nú væru Bandaríkjamenn með forseta sem þyrfti ekki að „fela sig ofan í kjallara eins og andstæðingur hans,“ en forseti Demókrataflokksins, Joe Biden, hefur farið afar varlega þegar kemur að sóttvörnum í kosningabaráttunni.

Heldur viðburði í þremur ríkjum á næstu dögum

Forsetinn sagðist einnig vera ónæmur á Twitter, en samfélagsmiðillinn faldi færslu Trumps þar sem hún þótti innihalda villandi upplýsingar.

Meðan á meðferð Trumps við kórónuveirunni stóð var forsetanum gefið lyfið Regeneron, mótefnablöndu sem er enn á tilraunastigi í Bandaríkjunum. Framkvæmdastjóri Regeneron sagði í viðtali á CBS að þeir sem taka lyfið gætu mögulega þróað með sér ónæmi, en það hefði ekki enn verið sannað í prófunum.

Forsetakosningar í Bandaríkjunum fara fram þann 3. nóvember, en Biden hefur forystu í skoðanakönnunum. Trump hefur ólmur viljað hefja kosningabaráttu sína að nýju; á næstu dögum mun hann halda til Flórída, Pennsylvaníu og Iowa til að reyna að auka stuðning sinn í ríkjunum.

Biden segir hegðun forsetans ábyrgðarlausa.
Biden segir hegðun forsetans ábyrgðarlausa. AFP

Kosningateymi Trumps hefur skipulagt fjölda viðburða fyrir stuðningsmenn forsetans í ríkjunum, en þar að auki hélt hann viðburð fyrir hundruð manns fyrir utan Hvíta húsið í gær. Joe Biden hefur gagnrýnt Trump harðlega fyrir að halda slíka viðburði í miðjum faraldri. Hann segir hegðun forsetans ábyrgðarlausa.

Kappræðum sem átti að fara fram milli frambjóðendanna 15. október var aflýst á dögunum, en vegna veikinda Trumps áttu kappræðurnar að vera rafrænar.

Í viðtalinu við Fox ýjaði forsetinn einnig að því að mótframbjóðandi hans gæti verið veikur. Þá sagðist hann hafa séð hann hósta, en að fjölmiðlar hefðu ekki sýnt því nægilega athygli.

Orð Faucis tekin úr samhengi

Sóttvarnasérfræðingur ríkisstjórnarinnar, Anthony Fauchi, hefur sagt að kosningaauglýsing Trumps hafi tekið orð hans úr samhengi til að láta það líta út fyrir að hann hefði veitt sóttvarnaaðgerðum Trumps blessun sína og lýst yfir stuðningi við hann.

„Á mínum fimm áratugum í þjónustu við almennings hef ég aldrei lýst yfir stuðningi við frambjóðanda,“ segir í tilkynningu frá Fauci.

Anthony Fauci, sóttvarnasérfræðingur ríkisstjórnarinnar.
Anthony Fauci, sóttvarnasérfræðingur ríkisstjórnarinnar. AFP

Í sjónvarpsauglýsingunni segir að forsetanum sé að batna eftir kórónuveirusmit, og að Bandaríkin séu að gera slíkt hið sama. Þarnæst er sýnt stutt myndskeið af Fauci þar sem látið er líta út fyrir að hann sé að hrósa því hvernig forsetinn hefur tekið á faraldrinum þar í landi.

„Ég get ekki ímyndað mér að neinn gæti gert meira,“ er haft eftir lækninum, og látið er líta út eins og hann eigi við Trump með orðum sínum.

Myndskeiðið er úr viðtali við Fox síðan í mars þar sem Fauci segir: „Ég hef eytt öllum mínum tíma í þetta. Ég er í Hvíta húsinu á hverjum degi með sóttvarnateyminu. Á hverjum einasta degi. Ég get ekki ímyndað mér að neinn gæti gert meira.“

Fauci sagði í tilkynningu sinni að orð hans hefðu verið notuð án hans vitneskju og að þau hefðu verið tekin úr samhengi. Hann hefði ekki verið tala um forsetann, heldur hefði hann verið að tala um embættismenn sem vinna að almannaheilsu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert