Nýsjálendingar lögleiða dánaraðstoð

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, greiddi atkvæði með tillögunni. Slíkt hið …
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, greiddi atkvæði með tillögunni. Slíkt hið sama gerði leiðtogi Þjóðarflokksins, stærsta stjórnarandstöðuflokksins. AFP

Kjósendur á Nýja-Sjálandi samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu að lögleiða dánaraðstoð. Þjóðaratkvæðagreiðslan var haldin samhliða þingkosningum í landinu fyrir tveimur vikum, en fyrstu tölur voru ekki birtar fyrr en í dag, föstudag. Þegar mikill meirihluti atkvæða hefur verið talinn hafa 65,2% kjósenda, nærri tveir af hverjum þremur, greitt atkvæði með tillögunni.

Lög um dánaraðstoð voru samþykkt á nýsjálenska þinginu með þeim fyrirvara að þau yrðu samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Með lögunum mun fólk, sem glímir við alvarleg veikindi og talið er eiga innan við sex mánuði ólifaða, leyft að binda enda á líf sitt með hjálp lækna. Tveir læknar þurfa að samþykkja bónina.

Lögin munu taka gildi í nóvember á næsta ári og bætist Nýja-Sjáland þá í hóp ríkja á borð við Holland og Kanada sem þegar leyfa dánaraðstoð í einhverju formi. Nýja-Sjáland er fyrsta ríkið til að samþykkja dánaraðstoð í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Samhliða þingkosningunum var einnig kosið um lögleiðingu kannabiss. Samkvæmt nýjustu tölum kusu 53,1% gegn tillögunni en 46,1% með. Enn á þó eftir að telja nokkurn fjölda atkvæða og gæti niðurstaðan því breyst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert