Stóraukið ofbeldi gegn konum í faraldrinum

Frá miðstöð í Aþenu í Grikklandi sem konur sem verða …
Frá miðstöð í Aþenu í Grikklandi sem konur sem verða fyrir ofbeldi geta leitað til. AFP

Kórónuveirufaraldurinn hefur orðið til þess að ofbeldi gegn konum hefur aukist úti um allan heim. Nauðgunum hefur fjölgað í Nígeríu og Suður-Afríku, fleiri konur hafa horfið í Perú, konur eru drepnar í auknum mæli í Brasilíu og Mexíkó og ofbeldið hefur aukist víða um Evrópu.

Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum sem voru birtar seint í september leiddi útgöngubann til þess að kvartanir eða símhringingar vegna heimilisofbeldis jukust um 25% í Argentínu, 30% á Kýpur og í Frakklandi og 33% í Singapúr.

Í næstum öllum löndunum leiddu aðgerðir til að draga úr útbreiðslu kórónuveirunnar til þess að konur og börn voru föst heima hjá sér. „Húsið er hættulegasti staðurinn fyrir konur,“ sögðu samtök í Marokkó í apríl er þau settu þrýsting á stjórnvöld og óskuðu efir „neyðaraðgerðum“.

Sparkaði henni út af heimilinu

Á Indlandi, leið Helenu (sem er ekki hennar rétta nafn) 33 ára kokki sem býr í Mumbai, eins og hún væri föst á heimilinu sínu með eiginmanni sem var ekki í vinnu, sem notaði eiturlyf og var ofbeldisfullur.

Þegar hún lýsti því sem hún hafði gengið í gegnum fór hún hvað eftir annað að gráta. Eftir að hann hafði keypt eiturlyf „eyddi hann afganginum af deginum annað hvort upptekinn í símanum sínum að spila PubG eða að lemja mig og misnota mig,“ sagði hún í símaviðtali við AFP.

Frá miðstöðinni í Grikklandi fyrir konur sem hafa orðið fyrir …
Frá miðstöðinni í Grikklandi fyrir konur sem hafa orðið fyrir ofbeldi. AFP

Hinn 5. ágúst lamdi eiginmaðurinn hana verr en nokkru sinni fyrr, fyrir framan sjö ára son þeirra, og henti henni út úr húsinu um miðja nótt. „Ég gat ekki farið neitt,“ sagði hún. „Ég gat varla hreyft mig. Hann lamdi mig illa og líkaminn minn var bólginn.“

Í stað þess að fara til lögreglunnar komst Helena á heimili vinar síns og síðan til foreldra sinna. Hún er núna að berjast um forræðið yfir syni sínum „en dómskerfið starfar ekki að fullu vegna Covid.“ Hún hefur ekki séð son sinn í fjóra mánuði en hann nær þó að laumast til að hringja í hana einstaka sinnum.

Fá lönd hafa gripið til aðgerða

Að sögn Sameinuðu þjóðanna hefur aðeins eitt land af hverjum átta um víða veröld gripið til aðgerða til að draga úr áhrifum faraldursins á konur og börn.

Á Spáni geta fórnarlömb beðið í leyni um aðstoð í apótekum með því að nota kóðann „mask-19, og sum frönsk félagasamtök hafa komið á fót samskiptaleiðum í stórmörkuðum.

Dagur gegn ofbeldi í garð kvenna

Alþjóðlegur dagur gegn ofbeldi í garð kvenna er á miðvikudaginn en óvíst er hvort hægt verður að vekja athygli á honum með hefðbundnum hætti vegna kórónuveirunnar.

Nýlega hafa þó mótmælagöngur verið haldnar á Kosta-Ríka, í Gvatemala, Líberíu, Namibíu og Rúmeníu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert