Trump sýndi engin merki um uppgjöf á fjöldafundi

Donald Trump á fundinum í gær.
Donald Trump á fundinum í gær. AFP

Miðað við ræðu sem hann hélt í ríkinu Georgíu í gærkvöldi ætlar Donald Trump Bandaríkjaforseti að halda áfram tilhæfulausum ásökunum sínum um að svindlað hafi verið í forsetakosningunum í síðasta mánuði. Hann sagði viðstöddum á sínum fyrsta fjöldafundi eftir kosningarnar að hann ætli sér að vinna.

AFP-fréttastofan greinir frá þessu. 

Áður hafði hann þrýst á ríkisstjóra Georgíu, í röð tísta á Twitter, að ógilda kosningasigur Joe Biden, verðandi Bandaríkjaforseta, í ríkinu.  

Trump og forsetafrúin Melania á fundinum í Georgíu.
Trump og forsetafrúin Melania á fundinum í Georgíu. AFP

Í ræðunni sagði Trump að brögð hafi verið í tafli í kosningunum. Þrátt fyrir að tilfellum kórónuveirunnar hafi fjölgað í Bandaríkjunum voru fáir áhorfendur með grímu og margir hunsuðu reglur um að halda öruggri fjarlægð af sóttvarnaástæðum.

Ræða forsetans stóð yfir í næstum tvo klukkutíma. Trump, sem er 74 ára, sagðist ekki ætla að viðurkenna ósigur. „Við ætlum að vinna þessar kosningar,“ sagði hann, sem er í takt við það sem hann sagði fyrir kosningarnar. „Það var svindlað. Það voru brögð í tafli.“

AFP

Ræðan bar enn eitt merkið um hvernig Trump hefur farið á svig við lýðræðisleg gildi, sett fram samsæriskenningar og rangar staðhæfingar sem er án hliðstæðu í sögu Bandaríkjanna.

Afstaða hans í Georgíu vakti spurningar um hvernig hann muni bregðast við þegar Biden mun sverja embættiseið sinn 20. janúar. „Lykilríkin sem við erum öll að berjast um núna, ég vann þau öll örugglega,“ sagði hann ranglega.

Hundruð manna mættu á fundinn, fæstir með grímur, og fáir …
Hundruð manna mættu á fundinn, fæstir með grímur, og fáir virtu tveggja metra regluna. AFP

„Og ég verð að segja, ef ég myndi tapa þá væri ég mjög auðmjúkur tapari. Ef ég tapaði myndi ég segja, ég tapaði, og ég myndi fara til Flórída og taka því rólega og ganga um og segja að ég hafi unnið gott starf. En það er ekki hægt að viðurkenna það þegar þau stela, svindla og ræna,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert