ESB missti af bóluefnislestinni

Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands, var bjartsýnn um að bólusetning myndi …
Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands, var bjartsýnn um að bólusetning myndi ganga vel í Þýskalandi, en nú gæti hún dregist. AFP

Vegna seinagangs og rangra ákvarðana mun bólusetning ganga mun hægar fyrir sig í ríkjum Evrópusambandsins en gert var ráð fyrir og faraldurinn ráða lengur ríkjum en ella. Of lítið var keypt af bóluefnum og sló ESB meira að segja hendinni á móti mörg hundruð milljónum skammta frá Biontech og Moderna. Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði tímaritsins Der Spiegel, sem kom út í gær, og segir þar að fyrir vikið muni Þýskaland ekki eiga nóg af bóluefnum til að binda enda á kórónuveirufaraldurinn heldur muni hann dragast fram á næsta vetur.

Greinin hefst á lýsingu á myndum vonar: Hjúkrunarfræðingar fá bólusetningu, bretti með bóluefnum eru flutt til allra landshorna með sérstöku flugi, borgarstjórar tala um upphafið á endinum á heimsfaraldrinum. Forsetinn býr landið undir betri tíma. Þessar myndir komi frá Bandaríkjunum.

Í Þýskalandi megi hins vegar sjá aðrar myndir: Mannauðar verslunargötur, slagbrandar fyrir veitingastöðum og ríkisstjórnin býr þjóð sína undir langa, dimma daga.

Trump lítur betur út en ESB

„Munurinn fer ekki framhjá neinum,“ segir í blaðinu. „Annars vegar er hin meinta vanhæfa ríkisstjórn Trumps sem bara á næstu tveimur, þremur vikum ætlar að sjá 20 milljónum Bandaríkjamanna fyrir bóluefni. Í lok mars á að vera búið að bólusetja rúmlega hundrað milljón Bandaríkjamenn tvisvar. Hins vegar eru hinir meintu vel undirbúnu Evrópubúar, sem áfram bíða eftir bóluefninu, sem var þróað í Þýskalandi. Og vita ekki nákvæmlega hvað þeir fá mikið af bóluefni á næstu mánuðum.“

Í Spiegel er rakið að heilbrigðisráðherra Þýskalands, Jens Spahn, hafi greint frá því að í upphafi muni aðeins 400 þúsund skammtar koma í hlut Þýskalands og í mars á milli 11 og 13 milljónir. Það sé aðeins brot af því, sem Bandaríkjamenn fái. Nú hafi þýsk stjórnvöld áttað sig á því að pólitískt gæti þetta orðið afdrifaríkt og því sé nú verið að reyna að bæta stöðuna. Þetta kallast á við fréttir héðan frá Íslandi um að minna verði af bóluefni en talað hafi verið um í upphafi og það muni taka lengri tíma að bólusetja það marga að hjarðónæmi náist en vaktar höfðu verið vonir um.

Heilbrigðisstarfsmaður í Nevada í Bandaríkjunum fær fyrsta skammtinn af bóluefninu …
Heilbrigðisstarfsmaður í Nevada í Bandaríkjunum fær fyrsta skammtinn af bóluefninu frá Biontech 17. desember. AFP

Nú ætlar lyfjaeftirlit Evrópusambandsins, EMA, að hafa hraðann á eftir allt saman og leyfa bóluefnið viku fyrr en ella þannig að bólusetning um hefjast 27. desember í Evrópu. Verið er að semja við framleiðendur um meiri birgðir. Á fimmtudag ræddi Angela Merkel, kanslari Þýskalands, meira að segja við Özlem Türeci og Ugur Sahin, forkólfa Biontech, og var hluta samtalsins streymt beint. Að mati Spiegel geta skilaboðin ekki verið skýrari: Yfirvaldið hafi tekið bólusetningar í sínar hendur.

Seinir að átta sig

Menn hafi hins vegar verið seinir að átta sig. Mánuðum saman hafi verið fyrirsjáanlegt að önnur lönd myndu ná sér í meira bóluefni og geta hafist fyrr handa við að bólusetja og þannig ráðist af meira krafti gegn heimsfaraldrinum.

Í Berlín og Brussel hafi aftur á móti lítið gerst lengi vel. Oft hafi það verið stutt með sjálfbirgingslegum rökum: Í Evrópu væri einfaldlega betra eftirlit með lyfjum og nákvæmara, nægar birgðir yrðu af bóluefni vegna góðs skipulags. Jens Spahn heilbrigðisráðherra sagði að fyrir sumarið yrði hægt að ljúka bólusetningu 60% þjóðarinnar. Þessi bjartsýni hafi ekki verið í samræmi við raunveruleikann.

Seinagangur evrópska lyfjaeftirlitsins í að leyfa bóluefnin frá Biontech og Pfizer virðist þó ekki vera stóra vandamálið. Að óbreyttu sé útlit fyrir að ekki verði búið að ná tökum á faraldrinum fyrir næsta haust. Evrópusambandið hafi auljóslega keypt of lítið af bóluefnum, of seint og að hluta af röngum framleiðendum. Í þokkabót virðist ESB hafa hafnað mörg hundruð milljónum skammta af bóluefni sem nú vanti.

Næsta haust eins og þetta

Fyrir vikið sé þýskum stjórnvöldum vandi á höndum. Án bólusetningar verði veiran ekki stöðvuð og haustið og veturinn 2021 gætu því orðið með svipuðum hætti og á þessu ári, mikill fjöldi smita, stífar nálgunarreglur og lokanir. Eina ráðið sé að næla í umframbirgðir af bóluefni.

Ráðamenn í Berlín hafi hins vegar skilyrðislaust skuldbundið sig til samstöðu við ESB. Áhrifaríku og öflugu þjóðirnar eigi ekki að fara sínu fram, heldur eigi litlu ríkin á borð, til dæmis Rúmenía og Slóvakía, að sitja við sama borð. Með því að skera sig úr og kaupa meira af bóluefni en allir hinir yrði samstöðunni í Evrópu stefnt í bráða hættu og hún væri veik fyrir.

Der Spiegel bendir á að um leið beri þýskum yfirvöldum hins vegar skylda til að veita eigin borgurum sem mesta vernd. Vísindamenn telji að bólusetja þurfi á milli 60 og 70% íbúa Þýskalands til að stöðva veiruna. Til þess þurfi á milli 100 og 120 milljónir skammta vegna þess að með einni undantekningu þurfi tvo skammta á mann til að bóluefnið virki.

Evrópusambandið hefur tryggt sér 1,3 milljarða skammta frá sex framleiðendum. Miðað við fólksfjölda eigi 18,6% af því að koma í hlut Þjóðverja eða 250 milljónir skammta. Sú tala blekki hins vegar. Nú sé aðeins tryggt bóluefni frá Biontech/Pfizer, sem er þýsk-bandarískt samstarf, og bandaríska líftæknifyrirtækinu Moderna.

Bóluefni Biontech/Pfizer verður leyft 21. desember. Þjóðverjar munu eins og staðan er nú fá um 45 milljónir skammta á fyrstu sex mánuðum næsta árs frá þeim. Bóluefni Moderna verður væntanlega leyft 6. janúar og gætu afhent um 15 milljónir skammta. Það sé of lítið, segir Der Spiegel.

Frekari birgðir ættu að koma frá fjórum öðrum framleiðendum, sem ESB hefur samið við. En alls ekki sé víst hvenær eða hvort af því muni verða og í það minnsta sé ekki við neinu magni sem máli skiptir að búast fyrir sumarið.

Bresk-sænski framleiðandinn AstraZeneca hafi þurft að gera hlé á rannsókn á bóluefni þegar tveir þátttakendur urðu máttlausir í höndum og fótum, en svo kom í ljós að ástæðan var ekki bóluefnið. Þá var gagnrýnt þegar AstraZeneca sló ólíkum niðurstöðum tveggja rannsókna saman.  Þar heldur þróunarvinnan áfram. Bandarísk heilbrigðisyfirvöld hafa gefið til kynna að bóluefni AstraZeneca verði ekki samþykkt fyrir sumarið, ef það verði samþykkt. Virkni þess verður líklega á milli 60 og 70% og vitnar Der Spiegel í orð Anthonys Faucis, sóttvarnalæknis Bandaríkjanna, sem spurði: „Hverjum vill maður gefa svona bóluefni þegar um leið eru til tvö önnur sem eru með 95% virkni?“

Í grein Der Spiegel kemur einnig fram að franski framleiðandinn Zanofi sjái nú ekki fram á að fá leyfi fyrr en í fyrsta lagi í lok árs 2021. ekki er reiknað með Curevac-bóluefninu frá Þýskalandi fyrr en í sumar. Aðeins Johnson&Johnson gæti verið tilbúinn með bóluefni í mars.

Þetta komi sér vitaskuld ekki aðeins illa fyrir ESB. aðrir hafi einnig reitt sig á að Sanofi yrði fyrr á ferðinn, þar á meðal Bandaríkin. Hjá Evrópusambandinu hafi öflun bóluefna hins vegar gengið stirðlega frá upphafi.

Bólusetningarbandalag út af hægagangi ESB

Í vor var myndað bólusetningarbandalag Þýskalands, Frakklands, Ítalíu og Hollands, sem saman gerðu samning um rúmlega 400 milljón skammta bóluefnis við AstraZeneca. Þessi samningur átti samkvæmt Der Spiegel fyrst og fremst að vera þrýstingur á ESB vegna þess að lítið gerðist í Brussel. „Mörg lönd hafa þegar tryggt sér bóluefni, en það hefur ekki enn verið gert í Evrópu,“ sagði Jens Spahn þá.

Í júní lagði framkvæmdastjórn ESB fram evrópska bólusetningarstefnu þar sem kveðið var á um „réttlátan og jafnan aðgang allra í ESB“. Tryggja átti nægar birgðir fyrir aðildarríkin með því að skuldbinda sig til að taka við ákveðnu magni bóluefna af framleiðendum.

Der Spiegel bendir á að heilbrigðisþjónusta sé verkefni aðildarríkjanna í ESB, en útvegun bóluefna með Brussel í bílstjórasætinu hafi átt að vera tákn fyrir samstöðuna innan sambandsins. 

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Út af seinagangi …
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Út af seinagangi gæti kórónuveirufaraldurinn dregist á langinn í löndum ESB. AFP

Í ágúst og október gerði ESB fyrstu samningana. Þeir voru við Sanofi, Johnson&Johnson og AstraZeneca. Der Spiegel segir að þá þegar hafi vakið athygli að engin samningur var gerður við fyrirtækin með bóluefnin, sem gáfu mest fyriheit. Biontech og Moderna höfðu í júlí verið með niðurstöður, sem lofuðu mjög góðu og virtust vera á beinni braut.

Pirringur og reiði bak við tjöldin í Berlín

Segir tímaritið að þetta hafi vakið mikla reiði og pirring bak við tjöldin á stjórnarheimilinu í Berlín. Ekki minnkaði gremjan þegar fyrirtækin greindu frá því í nóvember að virkni bóluefnanna frá þeim væri allt að 95%. Framleiðendurnir höfðu alltaf tekið skýrt fram hvernig bóluefninu yrði dreift. Annars vegar yrði farið eftir íbúafjölda og hins vegar hvenær samningar voru gerðir.

Bandaríkjamenn tryggðu sér þegar í júlí 600 milljón skammta frá Biontech og 500 milljón skammta frá Moderna. Japanar, Kanadamenn, Hong Kong og fleiri gengu einnig frá samningum í sumar og haust. En ESB hélt að sér höndum og pantaði ekki fyrr en í nóvember og þá mun minna en hægt hefði verið. ESB samdi um 200 milljón skammta frá Biontech með möguleika á að fá meira síðar. Der Spiegel hefur fyrir satt að Biontech hefði getað látið ESB fá fleiri skammta og boðið sambandinu allt að 500 þúsund skammta strax í fyrstu umferð. Því hafi framkvæmdastjórn ESB hins vegar hafnað. Stella Kyriakides, sem fer með heilbrigðismál í framkvæmdastjórninni, hefur ekki viljað segja hvers vegna.

Mátti ekki kaupa meira af þýsku fyrirtæki en frönsku?

Der Spiegel spyr hvers vegna hafi aðeins verið gengið frá samningum um 300 milljónir skammta af bóluefni, sem ljóst var að hefði 95% virkni samkvæmt rannsóknum. Blaðið segir að þýski heilbrigðisráðherrann hafi krafist þess að meira yrði keypt, en mætt mótstöðu. Ein ástæðan hafi verið að 300 milljón skammtar hefðu verið pantaðir frá franska fyrirtækinu Sanofi. „Þess vegna mátti ekki kaupa meira af þýsku fyrirtæki,“ sagði heimildamaður, sem er þaulkunnugur samningaferlinu, við Der Spiegel. Þessu mótmælir reyndar framkvæmdastjórnin, frönsk stjórnvöld hafi ekki viljað vernda Sanofi.

Sama var uppi á teningnum í samningum við Moderna. Fyrirtækið hefði getað afhent 300 milljónir skammta, en ESB vildi aðeins 80 milljónir.

Nú er að koma í ljós að Sanofi er í vandræðum með þróun síns bóluefnis. Efnið sem það er að þróa sýndi verri virkni en vonir stóðu til í öðrum fasa rannsóknarferlisins, sérstaklega hjá öldruðum. Bóluefnis Sanofis sé því í fyrsta lagi að vænta í lok árs.

Í Der Spiegel segir að þetta sé óheppni, en um leið ástæðan fyrir því að skynsamlegt sé að kaupa sem mest af þeim sem þegar hafi lokið rannsóknum með góðum árangri frekar en að vonast til þess að öllum hinum takist einhvern veginn líka að ná alla leið.

Í tímaritinu kemur fram gagnrýni á framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og er haft orð á því að þar sé ekki að finna vott af sjálfsgagnrýni. Í Berlín sé hins vegar nú litið svo á að því fylgi of mikil áhætta að hafa þessi mál áfram í höndum framkvæmdastjórnarinnar í Brussel. Fari svo að of lítið verði af bóluefni til að stöðva faraldurinn í Þýskalandi muni almenningur spyrja sig hvers vegna stjórnvöld í Berlín hafi ekki tekið mál sem snýst um líf eða dauða í sínar hendur. Því sé nú unnið að því bak við tjöldin að panta meira hjá Biontech og Moderna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert