Segja sig úr flokknum og kalla hann „Trump-söfnuð“

Donald Trump fyrrum Bandaríkjaforseti er umdeildur innan Repúblikanaflokksins.
Donald Trump fyrrum Bandaríkjaforseti er umdeildur innan Repúblikanaflokksins. AFP

Repúblikanar, sumir hverjir háttsettir og fyrrum embættismenn frá valdatíð George Bush, yfirgefa nú flokkinn í hrönnum og kalla hann jafnvel Trump-söfnuð (e. Trump cult).

„Repúblikanaflokkurinn sem ég eitt sinn þekkti er ekki lengur til. Núna kallast þetta einu nafni Trump-söfnuður,“ hefur fréttastofa Reuters eftir Jimmy Gurulé, fyrrum aðstoðarráðherra hryðjuverkamála hjá fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna.

Kristopher Purcell, sem vann hjá samskiptadeild Hvíta hússins í sex ár, segir að um 60 til 70 fyrrum embættismenn hjá Bush hafi ákveðið að yfirgefa flokkinn eða slíta tengslum við hann. Tala þeirra fari hækkandi.

Í frétt Reuters er fullyrt að flokkurinn samanstandi nú af repúblikönum sem hafa ekki sérstaka skoðun á Trump og íhaldsmönnum sem er ofboðið vegna þess hve sterk ítök forsetinn fyrrverandi hefur í flokknum. Án hópanna beggja verði erfitt fyrir flokkinn að bera sigur úr býtum í forsetakosningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert