Vill sams konar nefnd og eftir 11. september

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.
Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. AFP

Nancy Pelosi, forseti fulltúadeildar Bandaríkjaþings, kallar eftir því að nefnd verði skipuð til að rannsaka innrásina í bandaríska þinghúsið 6. janúar. Í bréfi til demókrata í fulltrúadeildinni segir hún að nefndin eigi að vera að fordæmi nefndar sem skipuð var eftir hryðjuverkin 11. september 2011.

Í bréfinu segir Pelosi að stofnun nefndarinnar sé „næsta skrefið“ og sé til marks um yfirvofandi löggjöf sem ætlað er að skapa vettvang til að svara spurningum sem brenna á fólki vegna árásarinnar, þar sem fimm létu lífið.

Meðal þess sem nefndin gæti rannsakað væri hlutverk Donalds Trumps, þáverandi Bandaríkjaforseta, í að hvetja til árásarinnar, sem og sú töf sem varð á komu þjóðvarðliðsins eftir að ofbeldið hafði brotist út.

Erlendir miðlar höfðu það eftir ónafngreindum starfsmönnum Hvíta hússins að Trump hefði neitað að kalla þjóðvarðliðið til.

Ýmsir hafa lýst yfir áhyggjum af því að demókratar muni nýta sér árásina á þinghúsið sem sinn eigin 11. september. Þeirra á meðal er blaðamaðurinn Glen Greenwald, sem segist óttast að árásin verði nýtt í pólitískum tilgangi rétt eins og þegar þrengt var að borgaralegum réttindum og lagt upp í stríðsrekstur erlendis eftir hryðjuverkin, í nafni þess sem kallað var Stríðið gegn hryðjuverkum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert