Áfellisdómur yfir skipulagi, ekki vindorku

Rafmagnslaust hefur verið víða í Texas síðan á mánudag.
Rafmagnslaust hefur verið víða í Texas síðan á mánudag. AFP

Rafmagnsleysið í Texas-ríki í Bandaríkjunum skrifast annars vegar á það að raforkukerfið var ekki hannað með kuldakast í huga og hins vegar einangrun raforkukerfisins frá öðrum ríkjum Bandaríkjanna. Þetta segir Magni Þór Pálsson, raforkuverkfræðingur og verkefnastjóri rannsókna hjá Landsneti.

Fádæma kuldakast hefur gengið yfir Bandaríkin síðustu daga og áhrifa þess hefur gætt á raforkukerfi um allt land, en hvergi þó í sama mæli og í Texas. Á þriðjudag voru um fjórar milljónir Texasbúa án rafmagns en fjöldinn skiptir nú, fimm dögum síðar, tugum þúsunda.

Framleiðslan stopp – ekki flutningurinn

Þegar rafmagnsleysi kemur upp á Íslandi er það jafnan vegna bilunar í dreifikerfi raforku. Skemmst er að minnast rafmagnsleysisins á Norðurlandi eftir að ofsaverður gekk yfir landið í desember 2019. Sárafá tilvik hafa hins vegar komið upp vegna vandamála með framleiðslukerfið.

Magni segir að í Texas sé það hins vegar framleiðslan sjálf sem hafi raskast vegna veðursins.  „Fyrst og fremst voru þetta gasorkuverin sem klikkuðu,“ segir Magni. Þau hafi greinilega ekki verið hönnuð fyrir kulda. Raki í gasleiðslunum hafi frosið og valdið því að gasorkuverin hafi orðið óvirk í hrönnum. Sama gildir um aðra framleiðslumáta, svo sem vindmyllur sem hafa frosið fastar og ekki getað framleitt rafmagn.

Magni Þór Pálsson raforkuverkfræðingur.
Magni Þór Pálsson raforkuverkfræðingur. Ljósmynd/Aðsend

Í eðlilegu árferði standa jarðgasorkuver undir 51% af raforkuframleiðslu Texas-ríkis, en vindorkuver tæpum 25%. Næst á eftir er kolabrennsla með tæp 14%.

Þingmenn repúblikana hafa sumir hverjir reynt að kenna endurnýjanlegum orkugjöfum um rafmagnsleysið. Það á ekki við rök að styðjast. Staðan skrifast aðallega á að framleiðslukerfin hafi ekki verið búin undir kulda, segir Magni og bendir á að vindmyllur séu nýttar til raforkuframleiðslu á köldum svæðum svo sem í Norður-Skandinavíu og meira að segja á Suðurskautslandinu.

Einangrað kerfi

Til að bæta gráu ofan á svart fyrir Texas-búa er raforkukerfi ríkisins að mestu einangrað frá öðrum ríkjum Bandaríkjanna, svo erfitt er að bæta upp skortinn með því að beina raforku frá öðrum svæðum.

„Stór hluti af Texas er eyjakerfi – eigið raforkukerfi sem er svo gott sem ótengt umheiminum. Þess vegna er engin leið til að flytja orku annars staðar frá inn á svæðið,“ segir Magni. Þetta eigi sér sögulegar skýringar, sem megi rekja til síðari heimsstyrjaldarinnar. Texas-búar hafi þá byggt upp öflugt kerfi á þess tíma mælikvarða, og þegar farið var í að koma á sameiginlegu orkukerfi í landinu hafi Texas ekki talið það borga sig að vera með.

Magni segir að svo virðist sem viðhaldi og endurbótum á raforkukerfinu hafi verið illa sinnt síðustu ár. Flutningsfyrirtækið – kerfisstjórinn – virðist enn fremur hafa lítil völd til að skipa orkuframleiðendum fyrir að hafa tiltekna varaframleiðslugetu.

Þessu sé öðruvísi farið á Íslandi þar sem Landsnet kaupir svokallaða kerfisþjónustu af orkuframleiðendum, sem þýðir að þeir skuldbinda sig til að eiga tiltekna vinnslugetu ef á þarf að halda. Detti ein virkjun út sé einhver önnur virkjun til staðar þar sem auka má framleiðsluna.

Einkamarkaður

Raforkumarkaðurinn í Texas er ólíkur íslenskum markaði að því leyti að þar hafa framleiðsla, flutningur og dreifing verið algjörlega aðskilin. „Þessi markaður er hreinn og klár samkeppnismarkaður og þar reyna menn að kreista út eins mikla orku og hægt er til að selja á markaði,“ segir Magni. Það geti haft í för með sér að hlutir á borð við viðhald, styrkingu og endurbætur á kerfum sitji á hakanum.  

Stjarnfræðilegar verðhækkanir

Heildsölumarkaðurinn er í höndum fyrirtækisins Ercot (Electric Reliability Council of Texas). Vegna samdráttarins í framleiðslu hefur heildsöluverð raforku í Texas margfaldast á nokkrum dögum. Verð á einni kílówattstund af rafmagni hefur farið úr 0,12 bandaríkjadölum upp í 9 dali – sem er lögbundið hámark í ríkinu.

Ekki er við öðru að búast en að verðið lækki skarpt á ný þegar rafmagn kemst á að fullu, en höggið getur verið þungt fyrir einstaka neytendur. Í grein Financial Times er rætt við konu sem hefur verið rukkuð um 6.000 dali (770 þús.kr.) fyrir rafmagnsnotkun á 130 fermetra heimili sínu síðustu daga, en hún var svo óheppin að raforkuverð heimilisins var bundið við heildsöluverð í ríkinu.

CNN ræðir við annan mann sem hefur fengið 7.000 dala (900 þús.kr.) rafmagnsreikning af sömu ástæðu, en hann hefur ítrekað reynt að skipta um smásala síðustu daga án árangurs.

Ríkisstjóri Texas, repúblikaninn Gregory Abbott, hefur þó boðað að tekið verði á málinu en neyðarfundur verður haldinn í ríkisþingi Texas í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert