Hálf milljón dáin úr Covid-19 í Bandaríkjunum

Heilbrigðisstarfsmenn að störfum á gjörgæslu í Los Angeles.
Heilbrigðisstarfsmenn að störfum á gjörgæslu í Los Angeles. AFP

Yfir hálf milljón manna hefur nú látið lífið af völdum Covid-19 í Bandaríkjunum. 

Þetta kemur fram á tölfræðivefnum Worldometer. Hátt í 29 milljónir manna hafa smitast af veirunni í landinu.

Næstflestir í heiminum hafa látist í Brasilíu, eða tæplega 250 þúsund manns. Samanlagt hafa tæplega 2,5 milljónir manna látist í heiminum öllum úr Covid-19.

Joe Biden Bandaríkjaforseti varaði við því í síðasta mánuði að „vel yfir“ 600 þúsund manns gætu dáið af völdum kórónuveirunnar í landinu.

Joe Biden Bandaríkjaforseti, til vinstri, ásamt Anthony Fauci.
Joe Biden Bandaríkjaforseti, til vinstri, ásamt Anthony Fauci. AFP

„Þetta er hræðilegt. Þetta er sögulegt. Við höfum ekki séð nokkuð sem er nálægt þessu í vel yfir eitt hundrað ár,“ sagði Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna, og átti þar við spænsku veikina árið 1918.

„Þetta er sláandi þegar maður horfir á tölurnar, þetta er nánast ótrúlegt en satt,“ bætti Fauci við.

Eftir að greint var frá fyrsta dauðsfallinu í Bandaríkjunum af völdum Covid-19 í febrúar í fyrra liðu um þrír mánuðir þangað til 100 þúsund manns höfðu látist í fyrstu bylgjunni, þar sem New York varð verst úti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert