Vilja að ölið flæði fram á rauða nótt

Skálað á Nýhöfn.
Skálað á Nýhöfn. AFP

Barir og veitingahús fengu að opna í Danmörku á miðvikudag, í fyrsta sinn í tæpt hálft ár. Landsmenn biðu ekki boðanna og hafa síðustu daga flykkst út á lífið, en þó er ekki í boði að djamma fram á rauða nótt.

Staðir mega aðeins vera opnir til klukkan 23, og eftir klukkan 22 má ekkert áfengi selja. Stjórnarandstöðuflokkar á danska þinginu vilja breyta þessum reglum.

Mette Abildgaard, þingmaður Íhaldsflokksins, segir í samtali við danska ríkisútvarpið að þessar reglur komi í raun í veg fyrir að fólk geti haldið stærri veislur á borð við brúðkaup, afmæli eða útskriftarveislur.

„Danir hafa staðið sig til fyrirmyndar. Við höfum náð að hemja smitin og þau eru mun færri en spár gerðu ráð fyrir. Landsmenn ættu að njóta góðs af því,“ segir Abildgaard. Í sama streng tekur hægriflokkurinn Venstre, stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn.

Samtök atvinnulífsins í Danmörku eru sama sinnis og segja þau að með núgildandi reglum sé hætt við því að fólk yfirgefi barina einfaldlega klukkan 23 og fari frekar í samkvæmi í heimahúsi – þar sem engin bönd halda því. Á börunum er vel gætt að fjöldatakmörkunum og í þokkabót kemst enginn inn nema geta sýnt neikvætt Covid-próf sem ekki er eldra en þriggja sólarhringa.

Stjórnvöld hafa raunar reynt að sjá við heimapartíum með því að banna alla sölu áfengis eftir klukkan 22, einnig í verslunum. Ætli menn að halda gleðskapnum áfram eftir að skellt er í lás í bænum verða þeir því að hafa undirbúið sig. Nokkuð sem Íslendingar þekkja vel, en Danir síður.

Ekki út í bláinn

Úr röðum stjórnarflokksins, jafnaðarmanna, heyrast þær raddir að hægt sé að sýna tillögu stjórnarandstöðunnar skilning en mikilvægt sé að forgangsraða aðgerðum þegar kemur að afléttingu.

Allan Randrup Thomsen, smitsjúkdómalæknir við Kaupmannahafnarháskóla, segir enn fremur að reglurnar séu ekki settar út í bláinn.

„Það er sérstaklega seint á kvöldin, þegar fólk hefur drukkið nokkurt áfengi, sem það á erfitt með að fylgja fjarlægðarreglum og líkur á smitdreifingu aukast. Hvaða áhrif það hefði nákvæmlega á faraldurinn [að afnema regluna] get ég þó auðvitað ekkert sagt um,“ segir hann.

Svipaðar reglur eru einmitt í gildi á Íslandi, en þó opið klukkutíma skemur. Vínveitingastaðir mega vera opnir til klukkan 22, en þurfa að hætta að selja veigar klukkan 21.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert