108 ára gömul gáta leyst

Gufuskipið DS Malmberget var tæknilegt rothögg á sinni tíð, búið …
Gufuskipið DS Malmberget var tæknilegt rothögg á sinni tíð, búið öllum nýjasta siglingabúnaði ársins 1913. Það varð ekki nema nokkurra mánaða gamalt og hvarf í hafið með 43 manna áhöfn í nóvemberlok 1913. Ljósmynd/Höf.ók.

Þegar DS Malmberget, glænýtt 12.000 tonna flutningaskip sænsku útgerðarinnar AB Luleå – Ofoten, lagði í haf frá Narvik í Norður-Noregi með 10.000 tonna járnfarm til Rotterdam í Hollandi um borð, 27. nóvember 1913, bauð engum í grun að örlög þessa fullkomna gufuskips, sem búið var allri nýjustu tækni þess tíma, og 43 manna áhafnar þess, yrðu ekki kunn fyrr en 108 árum síðar, á laugardaginn síðasta.

Veðurspáin var ekki góð þennan nóvemberdag og líklega verður aldrei ljóst hvort C.J. Strøm skipstjóri las ekki rétt í þær aðstæður sem von var á eða, eins og einhverjir segja, að hann hreinlega trúði því ekki að þessi nýi öflugi farkostur gæti sokkið. Hvað sem því líður lagði DS Malmberget í sína hinstu för 27. nóvember.

Sást síðast úti fyrir Bodø

Morguninn eftir heyrði loftskeytamaður á fjarskiptastöðinni á Røst sendingu frá Malmberget og áhöfn DS Østerland kom auga á skipið tvær gráður norðvestur af Tennholmen úti fyrir Bodø upp úr hádegi. Þarna var hreint fárviðri skollið á og eftir að Malmberget sigldi fram hjá Bodø spurðist ekkert meir til þess og 43 manna áhafnar.

Brak, sem líklegt er talið að hafi verið úr Malmberget, fannst sjórekið við Gildeskål og Meløy, en skipið sjálft var horfið með manni og mús. Oft hefur flaksins verið leitað síðan, ekkja skipstjórans fjármagnaði leit fyrstu tvo mánuðina eftir hvarfið og sumarið 2015 gerði hópur kafara síðast skipulagða tilraun til að finna Malmberget, en oft er það svo, að minnsta kosti við Noregsstrendur, að gömul skipsflök finnast fyrir tilviljanir og svo var það einnig nú.

Hluti af flaki DS Malmberget á 218 metra dýpi vestur …
Hluti af flaki DS Malmberget á 218 metra dýpi vestur af Tennholmen-vitanum úti fyrir Bodø. Ein kenning áhafnar rannsóknaskips Hafrannsóknastofnunar er að skipið hafi tekið að velta í aftakaveðri og farmurinn, 10.000 tonn af járni, þá færst til og hlutirnir gerst hratt eftir það. Skjáskot/Myndskeið Hafrannsóknastofnunar Noregs

Á laugardagsmorguninn voru Pål Buhl-Mortensen og rannsóknarteymi hans frá Hafrannsóknastofnun Noregs á siglingu á rannsóknaskipinu G.O. Sars vestur af Tennholmen-vitanum úti fyrir Bodø og leituðu þar kóralrifja. Hafði áhöfnin sent myndavélakafbátinn Chimera niður á 200 metra dýpi og dró hann í taug á eftir farkosti sínum.

Þar sem Buhl-Mortensen og samstarfsfólkið fylgdust spennt með útsendingunni frá Chimera af 218 metra dýpi birtast þeim skyndilega stórar málmplötur og augljósir hlutar skipsflaks. „Þetta var áhrifamikil sýn,“ segir rannsóknastjórinn við norska ríkisútvarpið NRK, „tvær tegundir kóralla hafa vaxið á flakinu og stærð þeirra segir okkur að þetta skip hafi sokkið fyrir mörgum árum. Einnig fundum við ljóskastara fornan sem sýnir okkur að skipið er gamalt.“

Greindu bókstafina M og A

Segir hann áhöfnina fljótlega hafa lagt saman tvo og tvo, í ljósi upplýsinga um þekkt flök á svæðinu, óleyst mál og myndir af DS Malmberget, og sett fram þá tilgátu að ráðgátan um hvarf sænska flutningaskipsins væri leyst, 108 árum eftir hvarf þess.

Útslagið gerði þó þegar áhöfninni tókst að greina bókstafina M og A á skut skipsflaksins. „Nú erum við hundrað prósent viss um að þetta er skipið,“ segir Buhl-Mortensen og bætir því við að áhöfnin fari einnig nokkuð nærri um hvað hafi gerst í nóvemberlok 1913.

DS Malmberget 5. mars eða 5. ágúst 1913, séu tölustafirnir …
DS Malmberget 5. mars eða 5. ágúst 1913, séu tölustafirnir á myndinni dagsetning. Ljósmynd/Höf.ók.

„Rokið stóð beint af hafi og eins og flakið liggur sýnist okkur að skipið hafi komist út á opið haf eftir að það sigldi frá Narvik og þá tekið að velta. Þá er líklegt að farmurinn hafi færst til eða skipið fengið á sig stóra öldu og fyllst af sjó. Þegar slíkt kemur upp á, með 10.000 tonn af málmi um borð, gerast hlutirnir hratt. Skipið er verulega skaddað þar sem það hefur fyrst komist í snertingu við botninn og svo hefur það rifnað upp. Þarna eru gríðarlegir kraftar að verki,“ lýsir Buhl-Mortensen tilgátu áhafnarinnar um atburðina löngu liðnu.

Hann segir óneitanlega hafa farið um mannskapinn við tilhugsunina um að þarna sé gröf 43 Svía og Norðmanna. „Auðvitað er spennandi að finna svona nokkuð á hafsbotni, en það er mjög sérstakt að hugsa um öll mannslífin sem töpuðust þennan dag.“

Borið saman við Titanic

Stephen Wickler, rannsakandi á sviði fornleifafræði hafsins (n. maritim arkeologi) við Háskólann í Tromsø, segir DS Malmberget oft hafa verið líkt við Titanic, sem einmitt var tiltölulega nýsokkið, í apríl 1912, þegar sænska skipið fórst.

„Þetta er einstakur fundur og við höfum ekki fundið neitt skipsflak þessu líkt við Noreg. Það sem gerir þetta sérstakt er að þetta var nýtt og mjög nýtískulegt skip, smíðað aðeins nokkrum mánuðum áður en það sökk. Sumir hafa borið það saman við Titanic að því leytinu, en líka vegna þess að hald manna er að skipstjórinn hafi verið dálítið fífldjarfur og kannski trúað því að skip hans gæti ekki sokkið. En þetta eru bara vangaveltur,“ segir Wickler við NRK.

Hlutar af flakinu á myndskeiði myndavélakafbátsins Chimera af rannsóknaskipi Hafrannsóknastofnunar, …
Hlutar af flakinu á myndskeiði myndavélakafbátsins Chimera af rannsóknaskipi Hafrannsóknastofnunar, G.O. Sars. Skjáskot/Myndskeið Hafrannsóknastofnunar

Hann kveður feigðarflan DS Malmberget hafa verið útgerðinni þungt högg, ekki síður en samfélaginu öllu. „Þarna töpuðust mörg mannslíf, ungir strákar og menn, hvort tveggja sænskir og norskir. Tveimur árum síðar missti útgerðin systurskipið og með því álíka stóra áhöfn,“ segir Wickler þótt hann fái illa dulið fræðilegan áhuga sinn.

„Að finna svona stórt skip er ekki daglegt brauð hjá sjávarlíffræðingum. Það verður mjög spennandi að fá skýrsluna frá Hafrannsóknastofnun.“

NRK

NRKII (umfjöllun um leitina sumarið 2015)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert