Hvernig ratar maður 800 kílómetra heim?

Þessir þrír vösku hundar eru svartir labradorar líkt og Bucky …
Þessir þrír vösku hundar eru svartir labradorar líkt og Bucky sem ferðaðist 800 kílómetra til síns heima árið 2012. mbl.is/Ingó

Í ágúst 2012 fór Brett Gallagher í göngutúr með hundinn sinn í skógi í nágrenni heimilis hans við Myrtle Beach í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum. Svartur labrador varð á vegi þeirra sem virtist týndur. Eftir leit á netinu gat Gallagher ekki séð að neinn hefði lýst eftir hundi á svæðinu og brá því á það ráð að fara með hundinn til dýralæknis sem gat skoðað örmerkingu hans.

Hundurinn reyndist vera Bucky, þriggja ára hundur Marks Wessells sem bjó einnig á svæðinu. Hængurinn var hins vegar sá að Wessells hafði skilið Bucky eftir hjá föður sínum í Virginíu um 800 kílómetra frá Myrtle Beach í janúar sama ár þar sem hann mátti ekki hafa Bucky í íbúð sinni lengur. Bucky hafði strokið frá föður Wessells nokkrum vikum áður og haldið í vegferð sína. Þegar Bucky komst loks heim til Wessells velti hann sér um alla íbúðina og reyndi að draga í sig eins mikið af lykt eiganda síns og hann mögulega gat. Þrautagangan var greinilega þess virði.

Það var auðvitað engin leið fyrir Bucky að þekkja leiðina frá Virginíu, sem hann hafði aldrei komið til áður, til síns heima hundruð kílómetra í burtu. En einhvern veginn vissi hann hvert hann ætti að fara og kom sér á réttan stað. Til eru margar sögur af gæludýrum, oft köttum, sem ferðast langar vegalengdir til síns heima um leið sem þau gætu ekki á nokkurn hátt hafa þekkt áður.

Hvernig fara þau að þessu?

Fleiri dýr virðast búa yfir ótrúlegri ratvísi. Fuglar koma líklega fyrst upp í hugann enda ferðast margar tegundir þeirra heimshorna á milli á hverju ári. Einstaklingar sumra þessara tegunda þurfa að finna leið til vetrarstöðva einir síns liðs enda ekki alltaf um hóp fugla sem fljúga saman að ræða eins og flestir sjá eflaust fyrir sér þegar um farfugla er að ræða. Fljúga þeir þá langar vegalengdir yfir sjó þar sem lítið er um kennileiti önnur en stjörnur og gang sólar.

Sömuleiðis ber að nefna laxinn sem yfirgefur fæðingarstað sinn þegar hann hefur náð þroska til og dvelur í sjó þar til hann hyggst hrygna. Leitar laxinn þá upp í ferskvatn og ferðast hundruð kílómetra upp ár til að hrygna á sama stað og hann ólst upp. Þá kannast flestir við ratvísi bréfdúfunnar sem hefur verið notuð til að flytja fréttir í árþúsundir.

Það merkilega reynist þó vera að vísindamenn hafa ekki svör á reiðum höndum hvernig þessi dýr velja rétta stefnu þegar ferðast á langar vegalengdir. Það er ekki alls kostar ljóst hvernig Bucky komst til síns heima og af hverju honum tókst ætlunarverk sitt á meðan ótal gæludýra týnast á ári hverju, jafnvel í nágrenni heimilis síns.

Rata heim yfir Atlantshafið

Talað er um sanna ratvísi (e. true navigation) þegar átt er við þann eiginleika að geta ratað nokkuð langa vegalengd til nákvæmrar staðsetningar án þess að þurfa að notast við kennileiti. Til að þess að geta ratað á þennan hátt þarf viðkomandi að búa yfir einhvers konar korti svo hann viti hvar hann er í samanburði við staðinn sem hann hyggst komast til. Í ofanálag þarf viðkomandi einnig einhvers konar áttavita svo hann geti tekið rétta stefnu miðað við kortið og haldið henni.

Sönn ratvísi er það sem Bucky þurfti til að rata aftur til síns heima og hún væri þín eina von ef þér yrði rænt, bundið fyrir augu þín og þér komið fyrir á miðju hálendi Íslands og sagt að rata heim, ef við gefum okkur að þú hafir ekki komið á hálendið áður.

Í mörg ár hafa verið gerðar tilraunir ekki ósvipaðar þessu ímyndaða ráni á ýmsum fuglategundum. „Menn hafa til dæmis tekið skrofu af hreiðri sínu í Bretlandi og fært hana yfir Atlantshafið til að sjá hvort hún rati heim,“ segir Guðmundur A. Guðmundsson, dýravistfræðingur hjá Nátturufræðistofnun Íslands. „Það hafa þær gert og komið sér til baka í holuna sína. Þetta sýnir að fuglarnir skynja hvar þeir eru og búa yfir alveg ótrúlegri nákvæmni til þess að leiðrétta villur.“

Ungfuglarnir rata ekki

Tilraunir hafa einnig verið gerðar á stara og ýmsum öðrum spörfuglategundum, bæði fullorðnum og ungfuglum. Fuglarnir eru þá veiddir þegar þeir eru á leið sinni á milli vetrar- og sumarstöðva. „Þeir eru svo færðir einhverja 400 kílómetra innan Evrópu. Fullorðnu fuglarnir geta leiðrétt stefnu sína og fundið réttu leiðina heim en ungfuglarnir taka einungis rétta stefnu miðað við árstíð en rata ekki inn á sína réttu slóð eftir að hafa verið færðir,“ segir Guðmundur.

Stefnan sem ungfuglarnir taka er bundin árstíðum og hefur verið sýnt að hún er háð segulsviðinu í kringum fuglana. Sést það vel á því að fuglar taka sömu stefnu óháð því hvort þeir eru í náttúrunni eða í búri inni á tilraunastofu. Þessi stefna á að gera ungfuglunum kleift að finna vetrarstöðvar sínar frá þeim stað þar sem þeir klekjast úr eggi og breytist eftir því sem líður á fartíma þeirra.

„Meginniðurstaða allra þessara tilrauna er sú að stefnutakan eða áttunin erfist en síðan er rötunin áunnin að einhverju leyti. Bæði bæta fuglarnir túlkun sína á áttavitanum og læra að yfirfæra þessar meðfæddu stefnur á önnur náttúrufyrirbæri svo sem sól og stjörnur.“

Þó ungfuglarnir eigi almennt erfiðara með að rata er það ekki svo að þeir fylgi ávallt þeim eldri á ferðum sínum. „Það eru margar tegundir sem yfirgefa unga sína á fjarlægum varpstöðum og ungarnir koma síðan af eigin rammleik á vetrarstöðvarnar.“

Nánar er fjallað um rötun dýra, þar á meðal manna, í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert