Krefjast þess að skólum verði ekki lokað

Grunnskólanemendur í París grímuklæddir.
Grunnskólanemendur í París grímuklæddir. AFP

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Unicef krefjast þess að skólum í Evrópu verði ekki lokað að nýju vegna kórónuveirufaraldursins og að smithætta í skólum sé lágmörkuð með viðeigandi aðgerðum. Hans Kluge, framkvæmdastjóri Evrópudeildar WHO sagði í yfirlýsingu að faraldurinn hafi haft skelfileg áhrif á menntun barna. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur sagt að Delta-afbrigði kórónuveirunnar hafi verri áhrif á börn en fyrri afbrigði veirunnar. Börn undir 12 ára aldri hafa ekki fengið boð í bólusetningu enda hefur markaðsleyfi fyrir bóluefni gegn Covid-19 ekki verið gefið út fyrir börn sem eru yngri en 12 ára. Fjöldi smita hefur komið upp í íslenskum skólum að undanförnu.

„Það er gífurlega mikilvægt að skólastarf haldi áfram óhindrað,“ sagði Kluge sem telur að þrátt fyrir að kórónuveirufaraldurinn muni halda áfram að geisa sé það að mennta börn í staðnámi sé lykilþáttur í því að þau fái viðeigandi fræðslu. Þá skipti það einnig verulega miklu máli fyrir geðheilsu barna og félagsfærni þeirra. Því telur Kluge að stjórnvöld í ríkjum Evrópu eigi að leggja áherslu á að halda skólum opnum, sama hvað. 

Hans Kluge telur afar mikilvægt að skólum verði haldið opnum.
Hans Kluge telur afar mikilvægt að skólum verði haldið opnum. AFP

Vægar takmarkanir á skólastarfi hérlendis

Mikill meirihluti Evrópuríkja lokaði skólum á landsvísu þegar faraldurinn stóð sem hæst í heimsálfunni í apríl á síðasta ári. Þó flestir hafi opnað aftur í september hafa nýjar smitbylgjur valdið því að mörg lönd hafa gripið til lokana að nýju. 

„Við hvetjum öll ríki til þess að halda skólum opnum og mælumst til þess að skólar grípi til viðeigandi aðgerða til þess að lágmarka áhættuna á kórónuveirusmiti,“ sagði Kluge. 

Skólar hérlendis eru opnir sem stendur með nokkuð vægum takmörkunum. Tryggja skal eins metra fjarlægð á milli fólks í skólum en annars skal nota andlitsgrímur. Þá er kennurum og nemendum sem eru fæddir 2005 og fyrr heimilt að taka niður grímur sínar eftir að sest er niður í skólastofu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert