Talíbanar sýna herfangið

Fögnuður talíbana vegna sigurs þeirra í Afganistanstríðinu hélt áfram í gær, með skrúðgöngu í borginni Kandahar. Mátti þar sjá sumt af þeim stríðstækjum og -tólum sem þeir náðu að taka herfangi í lokasókn sinni að Kabúl, en þar á meðal var ein Blackhawk-þyrla, sem Bandaríkjaher notar meðal annars í verkefnum sérsveita sinna. Sveimaði hún um með hvítum fána talíbana, en nokkur umræða hefur skapast í Bandaríkjunum um það hvaða vígtól hafi fallið í hendur þeirra.

Enn er óvíst hvernig starfsemi alþjóðaflugvallarins í Kabúl verður háttað, en teymi sérfræðinga frá Katar varð fyrst til þess að lenda á vellinum eftir brottför Bandaríkjahers fyrr í vikunni.

Mun teymið leiða viðræður við talíbana um hvernig eigi að koma vellinum aftur í flughæft ástand, en Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við að hörmungar séu í nánd, takist ekki að koma matvælum og lyfjum til Afganistans í gegnum flugvöllinn á allra næstu vikum.

Skjótist ekki undan skyldum

David Sassoli, forseti Evrópuþingsins, sagði í gær að Evrópusambandið gæti ekki skotist undan skyldum sínum gagnvart hælisleitendum, sér í lagi þegar von væri á auknum fjölda flóttamanna frá Afganistan.

Ummæli Sassolis féllu degi eftir að innanríkisráðherrar aðildarríkjanna ræddu málefni Afganistans og samþykktu að reyna að fá nágrannaríki landsins, einkum Pakistan og Tadjíkistan til þess að taka við megninu af þeim sem vildu flýja Afganistan.

Sagði Sassoli að hann hefði orðið fyrir vonbrigðum með fund innanríkisráðherranna, og að Evrópusambandið yrði að axla ábyrgð. Varnarmála- og utanríkisráðherrar sambandsins munu funda í dag og á morgun í Slóveníu, og er gert ráð fyrir að Afganistan verði þar efst á baugi.

Sorg og reiði í Pentagon

Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, og Mark Milley, yfirmaður herráðsins, héldu í gær blaðamannafund, hinn fyrsta eftir lok stríðsins. Sögðust þeir finna til bæði sorgar og reiði vegna þess hvernig átökunum hefði lyktað, og hét Austin því að herafli Bandaríkjanna myndi draga lærdóm af því sem úrskeiðis fór, án þess að hann vildi kalla það ósigur Bandaríkjanna.

Milley sagði að mögulega myndi Bandaríkjaher vinna með talíbönum í framtíðinni til þess að stemma stigu við Ríki íslams-Khorasan-samtökunum, sem frömdu hryðjuverkið sem felldi 13 bandaríska hermenn í síðustu viku.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert