Vendipunktur í veraldarsögunni

Hér sést þegar vél United Airlines nálgast syðri turninn, áður …
Hér sést þegar vél United Airlines nálgast syðri turninn, áður en ljóst var að um hryðjuverk væri að ræða. AFP

Þess verður minnst í dag, að tuttugu ár eru liðin frá hryðjuverkaárásunum á New York og Washington. Árásirnar mörkuðu upphafið að „stríðinu gegn hryðjuverkum“, sem sett hefur mark sitt á flesta þætti alþjóðastjórnmála síðan þá. Þær leiddu enn fremur til innrása í bæði Afganistan og síðar Írak, sem kostað hafa Bandaríkin mikið fé og mannafla á undanförnum tuttugu árum.

Morgunninn 11. september 2001 var heiðskír og fagur, en kl. 8.46 að bandarískum austurstrandartíma var kyrrðin rofin, þegar farþegaþota American Airlines 11 flaug inn í norðurturn World Trade Center, eitt helsta kennileiti New York-borgar. Flestir töldu að um skelfilegt slys hefði verið að ræða, en kl. 9:03 flaug þota United Airlines 175, sem átti að vera á leiðinni frá Boston til Los Angeles, á syðri turninn. Var þá orðið ljóst að um einhverja mestu hryðjuverkaárás sögunnar var að ræða.

Rúmum hálftíma síðar, eða kl. 9.37, flaug önnur þota frá American Airlines inn í vesturhlið Pentagon-byggingarinnar, en þar er bandaríska varnarmálaráðuneytið til húsa. Fjórða vélin, United 93, sem talið er að hafi átt að fljúga á bandaríska þinghúsið, brotlenti hins vegar við Shanksville í Pennsylvaníu rétt um tíuleytið, en farþegar í þeirri vél höfðu frétt af hryðjuverkunum, og vissu því hvaða örlög biðu þeirra, ef þeir reyndu ekki að streitast á móti. Gerðu þeir því atlögu að flugræningjunum, en allir fórust þegar vélin brotlenti.

Um líkt leyti margfaldaðist hryllingur árásarinnar þegar suðurturninn í World Trade Center hrundi til grunna, og um hálftíma síðar féll norðurturninn einnig. Alls létust 2.977 manns í árásunum, þar af voru 2.753 sem fórust í New York þegar turnarnir féllu.

Rafvirkinn Jared Nadler hugar að ljósum í minnismerki New Jersey-ríkis …
Rafvirkinn Jared Nadler hugar að ljósum í minnismerki New Jersey-ríkis um þá íbúa ríkisins sem féllu í árásinni. AFP

Böndin berast að al-Qaeda

Mikið vatn er runnið til sjávar síðan þá. Búið er að reisa nýjan turn þar sem tvíburaturnarnir stóðu áður, en hann er sjötta hæsta bygging í heimi, 1.776 fet eða 541 metri á hæð. Þar er einnig minnisvarði um árásirnar, og verður þar haldin minningarathöfn í dag, líkt og við Pentagon og við akurinn í Shanksville, þar sem fjórða vélin brotlenti.

Fljótlega eftir árásirnar varð ljóst að hryðjuverkasamtökin al-Qaeda bæru ábyrgð á þeim, en þau höfðu áður staðið að hryðjuverkum gegn sendiráðum Bandaríkjanna í Keníu og Tansaníu árið 1998 og mannskæðri árás á tundurspillinn USS Cole árið 2000, en þar létust 17 bandarískir sjóliðar. Fáir höfðu þó trú á því að samtökin gætu látið til skarar skríða á meginlandi Bandaríkjanna.

Leitin að Osama bin Laden, stofnanda samtakanna, varð eitt af helstu keppikeflum Bandaríkjanna eftir hryðjuverkin, en hann var þá í Afganistan undir verndarvæng talíbana, sem höfðu engan áhuga á því að láta hann af hendi. Bandaríkjamenn réðust því inn í Afganistan hinn 7. október 2001, og tókst þeim á tveimur mánuðum að ýta talíbönum frá völdum í landinu. Það reyndist hins vegar þrautin þyngri að hafa hendur í hári bin Ladens, en hann var loks felldur við Abottabad í Pakistan árið 2011, nærri tíu árum síðar.

Hryðjuverkaógn enn fyrir hendi

Bandaríkjamenn hafa náð að handsama eða drepa flesta þá, er komu að skipulagningu hryðjuverkanna 2001, og al-Qaeda-samtökin eru nú sögð skugginn af sjálfum sér eftir að bin Laden var felldur.

Eftirmaður hans, Ayman al-Zawahiri, er enn sagður í felum einhvers staðar í Afganistan og Pakistan, en samtökin sjálf treysta mun minna á miðstýringu en þau gerðu meðan bin Laden var á lífi. Útibú frá samtökunum er nú að finna víða í Afríku og um Mið-Austurlönd, en þau hafa að miklu leyti fallið í skuggann af öðrum hryðjuverkasamtökum, þá einkum Ríki íslams.

„Stríðið gegn hryðjuverkum“ hefur því ekki náð að útrýma hættunni sem stafar af al-Qaeda eða öðrum slíkum samtökum. Það virðist þó algengara nú en áður að „einfarar“ takist á hendur að fremja hryðjuverk, en mun erfiðara er fyrir leyniþjónustur að stöðva slík áform í fæðingu en þegar samtök skipuleggja stærri ofbeldisverk.

Það segir sína sögu að Ken McCallum, yfirmaður bresku innanríkisleyniþjónustunnar MI5, varaði við því í gær að stofnun sín hefði náð að koma í veg fyrir sex áform um hryðjuverk á síðustu 18 mánuðum, þrátt fyrir að kórónuveirufaraldurinn væri þá í algleymingi. Þá hefði stofnunin náð að hrinda 31 áformi um slík verk á síðustu fjórum árum.

Bretland er nú á þriðja hæsta viðbúnaðarstigi vegna hryðjuverka, en McCallum sagði að því miður væri raunin sú að ekki yrði alltaf hægt að koma í veg fyrir að hryðjuverkamenn næðu fram markmiðum sínum.

Fréttina má lesa í heild í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert