Sviðsetti eigið mannrán og laug að yfirvöldum

Sherri Papini fannst heil á húfi.
Sherri Papini fannst heil á húfi. Ljósmynd/Skjáskot af síðu BBC

Kona í Kaliforníu-ríki í Bandaríkjunum hefur játað að hafa sviðsett eigið mannrán og logið að yfirvöldum árið 2016. 

Sherri Pap­ini hafði verið saknað í þrjár vik­ur þegar hún fannst á veg­kanti í um tveggja klukku­stunda akst­urs­fjar­lægð frá heim­ili sínu. 

Pap­ini sagði lög­reglu að hún hefði verið skil­in eft­ir í veg­kant­in­um af ungri konu af rómönsk­um upp­runa. Sú hafi verið ein þeirra sem héldu henni fang­inni.

Eig­inmaður henn­ar, Keith, til­kynnti hvarf henn­ar 2. nóv­em­ber eft­ir að hún hafði ekki sótt börn þeirra í leik­skól­ann. 

Er Papini fannst þremur vikum síðar var hún var mjög lerkuð og með tölu­verða áverka. Eins var hún bund­in á hönd­um og fót­um. Að sögn lög­reglu hafði sítt ljóst hár henn­ar verið klippt af og hún verið brennimerkt.

Var hjá fyrrverandi kærastanum

BBC greinir frá því að banda­ríska al­rík­is­lög­regl­an (FBI) hafi komist að þeirri niðurstöðu í mars á þessu ári að Papini hefði dvalið heima hjá fyrrverandi kærastanum sínum í þessar þrjár vikur og veitt sjálfri sér áverkana.

Enn er óvíst af hverju Papini sviðsetti glæpinn. Í dómssal sagðist hún þó vera „mjög sorgmædd“ yfir málinu.

Þá sagði FBI að Papini væri þekkt fyrir að ljúga til þess að fá athygli. Lögmaður hennar segir hana glíma við andleg veikindi. 

Þar sem Papini játaði sekt samþykktu saksóknarar að mæla með átta til 14 mánaða fangelsisvist.

Hefði hún ekki játað hefði Papini getað átt yfir höfði sér 25 ár í fangelsi og þurft að greiða 300 þúsund dollara, eða um 39 milljónir íslenskra króna, í skaðabætur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert