Segir réttlætanlegt að nota vestræn vopn

Vesturlönd hafa veitt Úkraínumönnum hernaðarlega aðstoð.
Vesturlönd hafa veitt Úkraínumönnum hernaðarlega aðstoð. AFP

Hernaðarmálaráðherra Bretlands segir það réttlætanlegt að úkraínskar hersveitir noti vestræn vopn til að ráðast á hernaðarleg skotmörk á rússneskri grundu. Það sé löglegur hluti af stríði að ráðast að aðfangakeðjum. BBC greinir frá.

Bresk stjórnvöld hafa tilkynnt að þau muni gefa Úkraínu nokkra skriðdreka, en varnarmálaráðuneyti Rússa hefur sakað Breta um að espa Úkraínumenn upp í að ráðast inn á rússneskt yfirráðasvæði.

James Heappey, hernaðarmálaráðherra Bretlands, svaraði spurningum um málið í útvarpsþætti BBC.

Hann sagði að í fyrsta lagi væru það úkraínskar hersveitir sem tækju ákvörðun um árásir á ákveðin skotmörk, ekki framleiðendur vopna eða flutningsaðilar þeirra. Í öðru lagi væri það algjörlega löglegt í stríði að ráðast að andstæðingi sínum með því að trufla aðfangakeðjur og birgðastöðvar.

Heappey tók einnig fram að það væri líka löglegt fyrir Rússa að ráðast að hernaðarlegum skotmörkum í Úkraínu, svo lengi sem þeir réðust ekki á almenna borgara. Sem þeir hefðu ekki skeytt mikið um hingað til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert