Hvetja Pútín til að lýsa yfir stríði

Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. AFP

Að sögn vestrænna embættismanna og rússneskra heimilda mun Vladimír Pútín Rússlandsforseti lýsa yfir stríði á hendur Úkraínu í ljósi misstaka herforingja hans. 

The Telegraph greinir frá því að svekktir hershöfðingjar Pútín hvetji hann nú til að falla frá hugtakinu „sérstök hernaðaraðgerð“ sem hann hefur notað yfir innrásina og lýsa í staðinn yfir stríði. 

Er innrásin hófst 24. febrúar bannaði Pútín fjölmiðlum að nota orðið „stríð“, þar sem hann hélt að innrásinni myndi ljúka á nokkrum vikum, ef ekki örfáum dögum.

Meira en tveimur mánuðum síðar hefur hins vegar hægst á sókn Rússa. 

Rússneskir hermenn í skrúðgöngu.
Rússneskir hermenn í skrúðgöngu. AFP

„Herinn er ævareiður yfir að leiftursóknin á Kænugarð misstókst,“ hefur miðilinn eftir rússneskum heimildarmanni. 

„Fólk í hernum sækist eftir hefndum fyrir mistök fortíðarinnar og þeir vilja ná lengra í Úkraínu.“

Ben Wallace, varn­ar­málaráðherra Bret­lands, sagði í gær að líklegt væri að Pútín myndi lýsa yfir stríði á næstu vikum. Hann gerði jafnvel ráð fyrir að það yrði í næstu viku, 9. maí, er Rússar fagna sigri í síðari heimsstyrjöldinni. 

Ef Rússar lýsa yfir stríði þýðir það meðal annars að sett verða á herlög og komið verður á herskyldu í ríkinu, en hingað til hefur það verið val að berjast í Úkraínu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert