Telja Pútín stefna á langt stríð

Vladimír Pútín Rússlandsforseti stefnir á langt stríð að mati bandarísku …
Vladimír Pútín Rússlandsforseti stefnir á langt stríð að mati bandarísku leyniþjónustunnar. AFP

Búist er við því að Vladimír Pútín Rússlandsforseti verði enn óútreiknanlegri í hernaði sínum og að hann muni innleiða herlög í Rússlandi til að styrkja hernaðaraðgerðir sínar í Úkraínu.

Frá þessu greindi Avril Haines, yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar, frá í ávarpi sínu til öldungadeildarþingmanna í Bandaríkjunum í dag.

Avril Haines, yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar.
Avril Haines, yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar. AFP

Ólíklegur til að beita kjarnorkuvopnum

Markmið Pútíns eru stærri en þau sem rússneski herinn ræður við og það þýðir líklega að hernaðaraðgerðir hans muni fara stigvaxandi og verða óútreiknanlegri á næstu mánuðum, að sögn Haines.

„Núverandi þróun eykur líkurnar á því að Pútín forseti fari róttækari leiðir að markmiðum sínum, til að mynda með því að innleiða herlög, endurstilla iðnaðarframleiðslu eða með því að losa um það fjármagn sem þarf til að ná þeim.“

Haines sagði Pútín þó ekki vera líklegan til þess að fyrirskipa notkun kjarnorkuvopna í stríðinu nema Rússland standi frammi fyrir „tilvistarógn“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert