Orð Trumps hafi orsakað árásina

Frá fyrsta opna fundi þingnefndarinnar þar sem niðurstöður nefndarinnar voru …
Frá fyrsta opna fundi þingnefndarinnar þar sem niðurstöður nefndarinnar voru kynntar. AFP/Win McNamee

Þingnefnd sem rannsakar óeirðirnar sem spruttu upp þegar múgur braut sér leið inn í bandaríska þinghúsið í Washington í janúar á síðasta ári, telur að Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hafi orsakað uppþotið með fullyrðingum um að forsetakosningunum hefði verið stolið. Múgurinn, sem var skipaður stuðningsmönnum hans, var þangað kominn til að reyna að koma í veg fyrir staðfestingu kjörs Joe Biden sem forseta.

„Trump forseti kallaði á múginn, safnaði honum saman og kveikti neistann sem leiddi til árásarinnar,“ sagði Liz Cheney, repúblikani og varaformaður nefndarinnar, þegar hún hóf ræðu sína á fyrsta opna fundi nefndarinnar í gær. 

Nefndin hugðist sýna fram á að árásin hefði verið hluti af víðtækari og viðvarandi tilraun Trumps og innsta hring hans, til að halda honum í valdastól með ólögmætum hætti, og svo síðar meir til að endurheimta völdin.

Ofbeldið engin tilviljun

Bennie Thompson, demókrati og formaður nefndarinnar, hafði nokkrum mínútum fyrr lýst því yfir að Trump hefði verið rót samsærisins sem olli uppþotinu.

Hann lýsti því yfir að 6. janúar hefði verið hápunktur valdaránstilraunar Trump og sagði hann þetta ósvífna tilraun til að steypa ríkisstjórninni af stóli og að ofbeldið hefði ekki verið tilviljun.

Óeirðarseggirnir voru að „fylgja hvatningu forseta Bandaríkjanna“ þegar þeir brutu sér leið inn í þinghúsið í tilraun til að stöðva það að Joe Biden myndi taka við embættinu.

Ítrekað sagt að fullyrðingar hans væru rangar

Niðurstöður nefndarinnar byggðu meðal annars á vitnisburðum frá nokkrum af æðstu ráðgjöfum Trumps, sem var gefinn fyrir luktum dyrum. Þar á meðal Bill Barr, sem var dómsmálaráðherra á þeim tíma sem atburðurinn átti sér stað, og Jared Kushner, sem er tengdasonur Trumps og ráðgjafi.

Í vitnisburði Barr kom fram að hann hefði ítrekað sagt við fyrrverandi forsetann að hann hefði tapað kosningunum og að fullyrðingar hans um að þeim hefði verið stolið væru rangar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert