Fimm mál sem leiddu til fallsins

Boris Johnson í janúar.
Boris Johnson í janúar. AFP/Justin Tallis

Innan við þrjú ár eru liðin síðan Boris Johnson leiddi breska Íhaldsflokkinn til mesta kosningasigurs hans frá árinu 1987. Núna hefur forsætisráðherrann tapað stuðningi þingmanna sinna og ætlar að segja af sér embætti. Hvernig kom þetta til?

BBC greinir frá. 

Mál Chris Pincher

Miðvikudaginn 29. júní, fór Chris Pincher, sem þá var varaþingflokksformaður Íhaldsflokksins, á einkaklúbb í London þar sem hann sagðist hafa „drukkið alltof mikið“ og „orðið sjálfum sér til skammar“. Hann var sakaður um að hafa þuklað á tveimur mönnum, sem leiddi til margra annarra ásakana sem náðu sum hver mörg ár aftur í tímann. Þetta mál setti af stað keðju viðburða sem leiddi til afsagnar forsætisráðherrans.

Fyrst bárust fregnir frá Downingstræti um að Boris Johnson hafi ekki vitað af „tilteknum ásökunum“ á hendur Pincher áður en hann skipaði hann sem varaþingflokksformann í febrúar. Síðar kom í ljós að Johnson vissi af þessum ásökunum og baðst hann afsökunar á því að hafa ráðið Pincher í stöðuna.

Johnson í apríl í fyrra að lokinni ræðu vegna Covid-19.
Johnson í apríl í fyrra að lokinni ræðu vegna Covid-19. AFP/Stefan Rousseau

Partygate

Í apríl síðastliðnum var forsætisráðherrann sektaður fyrir að brjóta Covid-reglur eftir að hafa tekið þátt í fögnuði á afmælisdegi sínum í júní 2020. Johnson baðst einnig afsökunar á veisluhöldum í Downingstræti við upphaf faraldursins þegar strangar samkomutakmarkanir voru í gildi. Þar var fólk hvatt til að mæta með sitt eigið áfengi. Þingnefnd rannsakar nú hvort Johnson hafi sagt þinginu ósatt þegar spurt var út í málið.

Boris Johnson á lyftara í janúar.
Boris Johnson á lyftara í janúar. AFP/Matt Dunham

Hátt verðlag og skattahækkun

Verðbólga hefur hækkað ört á þessu ári og er núna 9,1% í Bretlandi. Margar utanaðkomandi ástæður voru fyrir því, meðal annars innrás Rússa í Úkraínu. Það hefur leitt til hækkunar á bensín- og matvælaverði. Þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi brugðist við, meðal annars með lækkun olíuskatts, réðst hún einnig í skattahækkanir í apríl sem áttu að greiða fyrir heilbrigðis- og félagsþjónustu. „Á sama tíma og kostnaður við að lifa hefur ekki verið hærri í áratugi kýs ríkisstjórnin að hækka skatta á verkafólk,“ sagði Keir Starmer, leiðtogi stjórnarandstöðunnar.

Deilan um Owen Paterson

Í október í fyrra mælti þingnefnd með 30 daga brottvikningu þáverandi þingmanns Íhaldsflokksins, Owen Paterson. Nefndin sagði hann hafa brotið reglur um þrýstihópa með því að reyna þóknast fyrirtækjum sem greiddu honum. En íhaldsmenn, með forsætisráðherrann í fararbroddi, greiddu atkvæði gegn banninu og bjuggu til nýja nefnd sem átti að skoða hvernig rannsókn málsins fór fram. Paterson endaði á því að segja af sér og Johnson viðurkenndi síðar að hann hefði „klesst bílinn“ við meðhöndlun málsins.

Stefna Johnsons var klár um að ljúka við Brexit.
Stefna Johnsons var klár um að ljúka við Brexit. AFP/Ben Stansall

Stefnuleysi 

Boris Johnson náði sínum mikla meirihluta á þingi með skýrri stefnu sem auðvelt var að fylgja, þ.e. að ljúka Brexit. Eftir það, sögðu gagnrýnendur hans, vantaði skýra stefnu og hugmyndir í Downingstræti. Fyrrverandi ráðgjafi hans, Dominic Cummings, sakaði hann ítrekað um vera stjórnlaus og skipta ótt og títt um skoðun. Íhaldsmaðurinn og fyrrverandi ráðherrann Jeremy Hunts sakaði Johnson síðan í júní um skort á „heilindum, hæfni og hugsjón“.

Hunt sagði þetta áður en greidd voru atkvæði um vantrauststillögu á hendur Johnson, sem forsætisráðherrann stóð af sér. Óánægjuraddirnar urðu þó sífellt hærri. Þrátt fyrir að Johnson sagðist ætla að gangast undir „sálfræðilega umbreytingu“ er hann núna á útleið.

AFP/Daniel Leal
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert