Erdogan tilnefndur til friðarverðlauna Nóbels

AFP

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, eru meðal þeirra sem tilnefndir eru til friðarverðlauna Nóbels í ár.

Alls bárust 305 tilnefningar þetta árið, en flestir þeirra tilnefndu koma að stríðinu í Úkraínu á einn eða annan hátt.

Aðrir sem hlutu tilnefningu eru Alexei Navalní, stjórnarandstæðingur í Rússlandi, Vladimir Kara-Murza, blaðamaður og pólitískur aktívisti í Rússlandi, Greta Thunberg, loftslagsaðgerðasinni og Masih Alinejad og samtök hennar sem berjast gegn því að konur í Íran séu þvingaðar til að bera hijab. Einnig hafa Hjálpræðisherinn, samtökin Vensa, sem er hópur ungra lýðræðissinna í Rússlandi og hópur sem berst fyrir því að settur verði á fót alþjóðaglæpadómstóll sem mun taka fyrir glæpi Rússlandshers í Úkraínu verið tilnefnd.

Fjölmargir hafa rétt til að tilnefna

Þrátt fyrir að Nóbelsverðlaunanefndin haldi tilnefningum leyndum í 50 ár, er þeim sem hafa rétt á að tilnefna heimilt að upplýsa um sínar tilnefningar. Meðal þeirra sem geta tilnefnt einstaklinga til verðlaunanna eru fyrrverandi Nóbelsverðlaunahafar, þingmenn og ráðherrar allra landa í heiminum og ákveðnir háskólaprófessorar.

Verðlaunin verða veitt í Ósló í Noregi, þann 10. desember næstkomandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert