Flokksforystan fái opið umboð

Bjarni Benediktsson og Styrmir Gunnarsson voru framsögumenn á fundi Evrópunefndar …
Bjarni Benediktsson og Styrmir Gunnarsson voru framsögumenn á fundi Evrópunefndar Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

„Heilbrigð skynsemi segir okkur að leiðir sem ekki leitað finnast seint og spurningar sem ekki er spurt, færa engin svör,“ sagði Bjarni Benediktsson, þingmaður og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, á opnum fundi auðlindahóps Evrópunefndar Sjálfstæðisflokksins í Valhöll í dag. Yfirskrift fundarins var „Hvaða umboð á forysta Sjálfstæðisflokksins að fá frá landsfundi?“ og var Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, framsögumaður auk Bjarna.

Bjarni tilgreindi tvær aðalástæður þess að hann telur nauðsynlegt að stíga næstu skref í Evrópumálum. Í fyrsta lagi þörf fyrir endurnýjaða stefnu í peningamálum og hins vegar þörf fyrir að endurskoða stöðu Íslands í alþjóðlegu tilliti, með hliðsjón af reynslunni af EES-samningnum.

„Við höfum nú um langt skeið búið við of miklar gengissveiflur, háa vexti og mikla verðbólgu,“ sagði Bjarni um fyrra atriðið. „Með sjálfstæðri mynt er valinn sveigjanleiki í staðinn fyrir stöðugleika. Þar hefur okkur brugðist bogalistin. Réttnefni á þessum vanda er of lítill agi í opinberum fjármálum,“ bætti Bjarni við. „Staða atvinnulífs og heimila mun láta undan síga í samanburði við nágrannalöndin ef ekki kemur til endurnýjun á peningamálastefnunni. Ekki er hægt að horfa fram hjá því að Evrópusambandið býður upp á valkost,“ sagði hann og vísaði til evrunnar. „Kostir þess að tilheyra myntbandalagi um evruna hafa nú fengið aukið vægi í heildarmati á kostum og göllum við aðild að Evrópusambandinu.“

Í svari við fyrirspurn úr sal sagði Bjarni að bankahrunið væri ekki hægt að rekja að fullu til aðildar íslands að EES, heldur hafi Íslendingar sjálfir farið óvarlega, ekki síst stjórnendur bankanna. Hann viðurkenndi einnig fram að stjórnvöld hefðu að einhverju leyti brugðist í eftirlitinu með þeim.

Um hið síðarnefnda atriði sagði Bjarni að EES-samningurinn hafi í grundvallaratriðum reynst Íslendingum vel. Hins vegar sé Evrópusambandið gerbreytt frá þeim tíma þegar samningurinn var gerður, með auknu yfirþjóðlegu valdi, breyttu stofnanaverki og meiri áhrifum Seðlabanka Evrópu. „Samningsstaða Íslands hefur líka breyst. Samningur endurspeglar ákveðið jafnvægi sem þá var á milli ESB og EFTA. Samningurinn geymir engin ákvæði um lagalega úrlausn deilumála á milli aðila,“ sagði Bjarni. „Við höfum ekki gefið áhrifum þessarar breytinga á Ísland nægilegan gaum. Margt hefur breyst og kominn er tími til að gera kerfisbundið mat á áhrifum þessara breytinga.“

Yfirskrift fundarins svaraði Bjarni svo þannig að umboð forystu flokksins þurfi að vera opið. Það megi ekki vera þannig úr garði gert að nauðsynlegur sveigjanleiki, sem þarf til að leiða viðræður milli flokka um Evrópumálin til lykta, sé ekki fyrir hendi. „Vegna þeirra breytinga sem nú hafa orðið er það mín sannfæring, að samstaðan um að gera ekki neitt, hún sé að rofna. Við því hlýtur Sjálfstæðisflokkurinn að bregðast,“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær