Össur: Ísland hefur margt að bjóða ESB

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra mbl.is/Ómar

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir að Ísland hafi margt að bjóða Evrópusambandinu. „Það er að sjálfsögðu reynsla okkar og þekking hvernig eigi að stjórna náttúruauðlindum. Ekki aðeins fiskveiðiauðlindinni, heldur einnig hvað varðar endurnýjanlega orku,“ sagði Össur á blaðamannafundi í Stokkhólmi í morgun.

„Við teljum að innganga okkar í Evrópusambandið verði báðum aðilum til góðs. Ísland er kannski smáþjóð, og Evrópusambandið er augljóslega stór samkoma þjóða. Þrátt fyrir það þá höfum við upp á eitthvað að bjóða.“ 

Á blaðamannafundinum, sem var sameiginlegur með Carli Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, benti Össur á að mikil orkuþörf sé í Evrópu og Ísland, sem búi yfir mikilli þekkingu, t.d. á sviði jarðhita, geti lagt sitt af mörkum með því að miðla sinni þekkingu.

Þá sagði hann að það væri mikil þörf á heilbrigðum matvælum í heiminum í dag og þar gæti Ísland leikið hlutverk, t.d. hvað varðar stjórnun fiskveiða. 

 Þá kveðst Össur sannfærður um að jákvæð niðurstaða fáist í aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið varðandi framtíð fiskveiðiauðlinda landsins og landbúnað. Málið sé vissulega erfitt, en hann vonist til að sameiginleg lending náist.

Aðspurður segist Össur vonast til þess að Ísland verði formlega gengið í ESB innan þriggja ára. 

Ísland góð viðbót við ESB

Bildt fagnaði umsókn Íslands, sem hann sagði nú þegar í náinni samvinnu við ESB. Ísland hefði þegar tekið upp stóran hluta samþykkta sambandsins í samstarfinu innan Evrópska efnahagssvæðisins og Schengen. Gengi allt að óskum yrði Ísland góð viðbót við Evrópusambandið; rótgróið, norrænt lýðræðisríki, með þekkingu og reynslu af sjálfbærri nýtingu auðlinda og áherslu á Norðurslóðamál, en mikilvægi þess málaflokks myndi vafalaust aukast á næstu árum og áratugum.

Um næstu skref sagði Bildt að umsókn Íslands yrði tekin fyrir í samræmi við reglur ESB, fyrst myndi ráðherraráð ESB fjalla um hana og í framhaldinu yrði málið lagt fyrir framkvæmdastjórn ESB. Aðspurður hvort Icesave málið kynni að tefja afgreiðslu umsóknar Íslands hjá utanríkisráðherrum ESB sagði Bildt málin óskyld með öllu. 

Blaðamannafundinn má sjá hér.

mbl.is