El País vill meiri samhug Íslendinga

El País þykir verst að það skuli ekki vera pólitísk …
El País þykir verst að það skuli ekki vera pólitísk eining um umsóknina á Íslandi. Reuters

Í leiðara sínum í dag segir spænska dagblaðið El País að beiðni Íslands um inngöngu í Evrópusambandið staðfesti að það sé eftirspurn eftir ESB og að það líti betur út utan frá en innan frá. Leiðarahöfundur fjallar lítið um fiskimið Íslands en óttast mest að íslenska þingið og þjóðin standi ekki heil á bakvið umsóknina.

Í leiðaranum segir að hugsanlegt framboð Íslands eigi ekki skilið höfnun þar sem landið uppfylli mörg þau skilyrði sem sett eru fyrir inngöngu, lýðræðisríki með nútímalegan efnahag og lagaumhverfi sem hefur verið lagað að því evrópska.

En El País segir að það séu mörg skilyrði sem þarf að uppfylla til að tryggja að meðferð umsóknarinnar verið ekki samþykkt sjálfkrafa og að það þurfi til dæmis að bíða eftir niðurstöðu úr írsku þjóðaratkvæðagreiðslunni um Lissabon sáttmálann til að „auka ekki á óöryggi og glundroða."

Leiðarahöfundi þykir það ekki miður að bíða þurfi eftir Írunum. „...Þannig vinnst einnig tími til að róa umsækjendur á Balkanskaga og í Tyrklandi," segir í leiðaranum.

Bankahrunið ekki verst

Leiðarahöfundur nefnir íslenska bankahrunið og segir:  „Það sem er verst fyrir Ísland er að (umsóknin) er einvörðungu drifin áfram af óðagoti og ótta við að standa eitt uppi í frammi fyrir kreppu sem hefur knúið fram gríðarlega „bankabjörgun" sem hefur fært landið að barmi gjaldþrots sem kallaði á björgun alþjóðlegra stofnana."

En að mati leiðarahöfundar er það ekki það sem er verst við umsókn Íslands heldur „...að meirihluti þingsins sem styður umsóknina er allur úr einum flokki sem kallar hugsanlega á efasemdarmenn um ESB frá þessu landi í framtíðinni. ESB er ekki sjálfstæð björgunarsveit eða trúfélag. Það þarf ekki á fleiri aðildarlöndum sem myndu vilja halda öðru fram. Kannski er upp runnin sú stund að það þurfi að útvíkka Kaupmannahafnar viðmiðin eða skilyrðin fyrir inngöngu (lýðræði, lífvænlegur/stöðugur efnahagur, aðlögun lagaumhverfis) og bæta við að pólitískur og samfélagslegur vilji til þess að tilheyra þessum klúbbi sé nauðsynlegur," sagði leiðarahöfundur að lokum.


mbl.is

Erlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær

Þriðjudaginn 23. apríl

Mánudaginn 22. apríl

Sunnudaginn 21. apríl