Fréttaskýring: Búa sig undir spurningaflóðið frá ESB

Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir ánægð er þingið samþykkti ESB-tillögna. …
Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir ánægð er þingið samþykkti ESB-tillögna. Mikil vinna er nú hafin í stjórnkerfinu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Spurningalisti framkvæmdastjórnar ESB vegna aðildarumsóknar Íslands hefur ekki enn borist en eftir sem áður er hafin vinna í utanríkisráðuneytinu og fleiri ráðuneytum að undirbúningi að því að semja svörin. Skv. heimildum Morgunblaðsins verður þetta verkefni sett í algjöran forgang á næstu vikum og mánuðum í ráðuneytum og ríkisstofnunum og öðrum verkefnum ýtt til hliðar ef þörf krefur.

Þótt listinn hafi ekki borist með formlegum hætti hafa menn hugmyndir um hvers má vænta, byggja það á reynslu annarra ríkja og eru þegar farnir að hefjast handa.

Olli Rehn, sem fer með stækkunarmál framkvæmdastjórnar ESB, afhenti forsætisráðherra Svartfjallalands í júlí sl. spurningalista vegna aðildarumsóknar þess. Var það gert við sérstaka athöfn og listinn taldi á þriðja þúsund spurningar. Ekki er vitað hvenær sambærilegur spurningapakki berst Íslendingum, hvort þær verða afhentar með formlegri viðhöfn eða sendar í pósti en Rehn er væntanlegur í heimsókn til Íslands í byrjun september í venjubundna heimsókn til umsóknarríkis.

Spurningarnar ná yfir nánast allt milli himins og jarðar á sviði efnahagsmála, stjórnskipunar, stjórnsýslu, dómsmála og réttarfars, mannréttinda, frelsis fjölmiðla, virðingar fyrir minnihlutahópum, markaðshagkerfisins, sem og um getu landsins til að standast samkeppnisþrýsting og markaðsöfl.

Krafist verður mjög ítarlegra svara við hverri spurningu. Þegar búið er að svara öllum spurningunum skrifar framkvæmdastjórnin álit sitt sem sent verður leiðtogaráði Evrópusambandsins. Þótt ekki fáist það staðfest mun vera litið svo á að svörin þurfi að liggja fyrir á haustmánuðum ef ná á því takmarki að skýrslan um umsókn Íslands verði lögð fyrir leiðtogafundinn í desember, sem gæti þá ákveðið að hefja skuli formlegar aðildarviðræður.

Fjölga þarf starfsmönnum í þýðingardeild utanríkisráðuneytisins vegna mikillar vinnu við þýðingar sem framundan er og hefur þegar verð auglýst eftir starfsfólki. Ekki stendur hins vegar til að fjölga starfsfólki ráðuneytisins að öðru leyti því nýta á allan þann starfskraft sem fyrir er. Þó er reiknað með tilflutningi á milli starfa innan stjórnkerfisins meðan á verkefninu stendur.

Hefur verið litið svo á að þessi vinna sé um margt sambærileg samningaviðræðunum um Evrópska efnahagssvæðið á sínum tíma en þá þurfti aðeins að bæta við örfáum starfsmönnum í utanríkisráðuneytinu en engin fjölgun átti sér stað af þeim sökum í öðrum ráðuneytum.

En aðildarumsóknin hefur einnig í för með sér að Íslendingar fá tækifæri til starfa hjá Evrópusambandinu í tengslum við undirbúninginn og væntanlegar aðildarviðræður. Skv. upplýsingum innan stjórnkerfisins liggur fyrir að ESB telji sig þurfa að ráða nokkurn fjölda starfsmanna vegna umsóknar Íslands, ekki síst þýðendur. Þá er reiknað með að ESB setji upp sendiskrifstofu hér.

Þúsund starfsmenn

Stjórnvöld í Svartfjallalandi, sem sótt hefur um aðild að ESB, fengu í hendur lista með 2.178 spurningum framkvæmdastjórnar sambandsins í seinasta mánuði. Fylltu þær 368 blaðsíður. Skv. fréttum af undirbúningi aðildarviðræðna Svartfellinga og ESB er gert ráð fyrir að þar í landi þurfi um eitt þúsund starfsmenn til að svara öllum spurningunum. Verður þeim skipt niður í 35 vinnuhópa, einn hóp fyrir hvern kafla í löggjöf ESB en samið er um hvern þeirra fyrir sig. Þá kemur fram að sé tekið mið af reynslu annarra umsóknarríkja, einkum Króatíu og Makedóníu, megi ætla að líða muni 14 til 16 mánuðir þar til endanlegt mat framkvæmdastjórnar ESB á umsókninni og svörunum liggur fyrir. Íbúar Svartfjallalands eru um 620 þúsund talsins. Þótt e.t.v. sé ólíku saman að jafna við Ísland, sem á aðild að EES og hefur innleitt stóran hluta af regluverki ESB, má engu að síður búast við að íslensk stjórnvöld fái langan spurningalista og að krafist verði nákvæmra upplýsinga.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær