Vill birta spurningalistana

Olli Rehn og Össur Skarphéðinsson ræða við blaðamenn. Báðir voru …
Olli Rehn og Össur Skarphéðinsson ræða við blaðamenn. Báðir voru þeir á málfundi í Háskóla Íslands í morgun, þar sem Rehn flutti erindi. mbl.is/Ómar

Olli Rehn, stækkunarstjóri Evrópusambandsins er fylgjandi því að spurningalistinn sem hann hefur afhent íslenskum stjórnvöldum verði birtur í heild sinni fyrir almenningi. Á málfundi í Háskóla Íslands í morgun sagði hann það ákvörðun stjórnvalda í hverju umsóknarríki hvort spurningarnar séu birtar.

Rehn flutti fyrirlestur á fundinum og sagði þar að ísland hefði stigið sögulegt skref með því að sækja um aðild í júlí síðastliðnum. Sagði hann að rótgróið norrænt lýðræðisríki eins og Ísland eigi heima í Evrópusambandinu að sínu mati. Ísland hefði lengi tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi og væri meðal annars stofnmeðlimur OECD og Nato auk þess að vera hluti af evrópska efnahagssvæðinu frá 1994.

„Með þetta í huga er umsókn um aðild rökrétt skref fyrir Ísland. Ísland hefur hingað til tekið þátt í evrópskri stjórnsýslu en ekki stjórnmálum. Þið fáið innri markaðinn. íslenskir borgarar ferðast frjálsir um Schengen svæðið og fleira. En fulltrúar  ykkar sitja ekki við mikilvægustu borðin, þar sem lykilákvarðanir sem varða einnig íslenska hagsmuni, eru teknar,“ sagði Rehn meðal annars.

Sagði hann að þótt þetta hafi ekki hljómað svo mikilvægt fyrir 15 árum þegar EES samningurinn var gerður, sé það orðið mikilvægara núna. ESB sé orðinn áhrifameiri aðili á alþjóðavettvangi en þá var og regluverkið orðið viðameira. „Skuldbinding Íslands við ESB getur orðið ábatasöm fyrir báða aðila.“

„Leiðin er stutt fyrir Ísland, en það þýðir ekki að hún verði auðveld. Hraði aðildarviðræðna veltur aðallega á getunni og viljanum til þess að taka á sig þær skyldur sem fylgja ESB-aðild,“ sagði Rehn og gaf þannig tóninn um að ríki geti ekki fengið allt sem það vill í aðildarviðræðum.

Hann sagðist hins vegar meðvitaður um viðkvæmustu og mikilvægustu málefnin í augum Íslendinga og til að leysa þau væri meðal annars mikilvægt að ráðast á goðsagnir og flökkusögur um Evrópusambandið með staðreyndum. Nefndi hann sem dæmi að það væri flökkusaga að það tæki Ísland 15 ár að taka upp evru, eftir að hafa gengið inn. Það færi allt eftir þróun mála á Íslandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær