Vill öll norrænu ríkin í ESB

Reuters

Ef norrænu ríkin eiga að taka skref í þá átt að mynda sambandsríki er nauðsynlegt að þau öll gerist aðilar að Atlantshafsbandalaginu, Evrópusambandinu og evrusamstarfinu,  segir Halldór Ásgrímsson, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar. Er þetta svar hans við tillögu sænska rithöfundarins Gunnar Wetterberg um stofnun norræns sambandsríkis.

Samband norrænu félaganna bauð þeim tveimur á forsætisnefndarfund til þess að ræða hugmyndina í Kristjánsborg í Kaupmannahöfn.

Gunnar Wetterberg skýrði frá hugmynd sinni um norrænt sambandsríki, en hún hefur orðið tilefni fjörugra umræðna á Norðurlöndum, frá því hann setti hana fram í grein í Dagens Nyheter á sama tíma og Norðurlandaráðsþing var haldið í Stokkhólmi í október í fyrra.

Samkvæmt Wetterberg mun norrænt sambandsríki veita Norðurlöndum sterkari valdastöðu á alþjóðlegum vettvangi, því þau yrðu saman 10. stærsta hagkerfi heims, litlu minna en Kanada og Spánn, en stærra en Brasilía og Rússland, að því er segir í frétt frá Norðurlandaráði.

Ef Norðurlöndin fengju að taka þátt í G20-hópnum myndu þau fá miklu meira vald en þau hafa í dag sem fimm lítil ríki, sagði Wetterberg.

Samkvæmt Wetterberg mun norrænt sambandsríki veita Norðurlöndum sterkari valdastöðu á alþjóðlegum vettvangi, því þau yrðu saman 10. stærsta hagkerfi heims, litlu minna en Kanada og Spánn, en stærra en Brasilía og Rússland.

Wetterberg sem kallar hugmynd sína „raunsæja draumsýn", útskýrði að með Sviss sem fyrirmynd væri vel hægt að ímynda sér mun nánara norrænt samstarf um utanríkis- og varnarmál, rannsóknir, vinnumarkað og löggjöf.

Halldór Ásgrímsson sagði að sér fyndist afar jákvætt að hugmyndir Gunnars Wetterberg hefðu kveikt umræður um norrænt samstarf.

Hann sagði að hann teldi að aðild að NATÓ, ESB og Evru-samstarfinu væri fyrsta pólitíska prófraunin á nánara norrænt samstarf.

Hann kvaðst jákvæður gagnvart því að vinna áfram að því að gera norræna samninga, t.d. á sviði skattamála og höfundarréttar.

Það yrðu erfiðar en einnig raunhæfar viðbætur við núverandi norræna samstarfssamninga eins og Helsinkisáttmálann og tungumálasáttmálann, sagi Halldór Ásgrímsson.

Gunnar Wetterberg treystir nú á að þingmenn í Norðurlandaráði leggi fram tillögu um að gerð verði forkönnun á því hvernig norrænt sambandsríki gæti litið út, fyrir Norðurlandaráðsþing sem haldið verður á Íslandi í nóvember.

mbl.is

Bloggað um fréttina