ESB-aðildarsinnar héldu illa á málstað sínum

Björn Bjarnason, Bjarni Benediktsson og Kjartan Gunnarsson á landsfundi Sjálfstæðisflokksins …
Björn Bjarnason, Bjarni Benediktsson og Kjartan Gunnarsson á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í gær mbl.is/Árni Sæberg

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, segir að Evrópusambands-aðildarsinnar hafi haldið illa á málstað sínum á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Það hafi átt sinn þátt í því, að niðurstaða fundarins varð þeim öndverð. Þetta kemur fram á vef Björns. 

Landsfundi Sjálfstæðisflokksins lauk síðdegis með samþykkt stjórnmálaályktunar, þar sem áréttað er þrisvar sinnum, að flokkurinn vilji hverfa af braut ríkisstjórnarinnar í ESB-aðildarmálinu. Þá segir í ályktuninni, að Íslendingum sé best borgið utan ESB.

„Í morgun flutti ég ræðu á fundinum og sagði frá niðurstöðum í málefnaumræðum fundarins kvöldið áður um utanríkismál. Ég sagði, að þar hefði þremur skoðunum verið lýst. 1. Að leggja ESB-umsókn til hliðar eða draga hana til baka. 2. Að ganga viðræðuferlið á enda og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. 3. Að stefna markvisst að aðild. Sagði ég gögn, sem ég hefði skoðað um umræðurnar, benda til þess, að fyrsta skoðunin hefði notið stuðnings flestra.

Þegar fundur hófst í stjórnmálanefnd fundarins, töldu ESB-aðildarsinnar, að ég hefði ekki lýst viðhorfum í málefnaumræðunum á sanngjarnan hátt. Ég svaraði ekki þessum ásökunum, þótt ég teldi þær ekki eiga við rök að styðjast. Fannst mér nokkuð með því unnið að styðja Einar K. Guðfinnsson, formann stjórnmálanefndarinnar, í viðleitni hans að ná samstöðu um ESB-lið stjórnmálaályktunarinnar. Tókst það að lokum og lýstu allir stuðningi við upphaflegan texta tillögunnar, eins hann kom frá Ásdísi Höllu Bragadóttur, sem hafði dregið saman ályktunardrög fundarins á eitt blað.

Á landsfundinum sjálfum komu fram tvær róttækari tillögur í ESB-málinu en málamiðlunin í stjórnmálanefndinni. Þær voru báðar samþykktar. þrátt fyrir að Bjarni Benediktsson og Einar Kristinn hefðu lagt til, að þeim yrði vísað til þingflokksins. Lögðu þeir sig þar með enn fram um að milda afgreiðslu málsins af tilliti til ESB-aðildarsinna," skrifar Björn á vef sinn í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær