„Hugarburður og dylgjur“

Þór Saari, alþingismaður í Hreyfingunni.
Þór Saari, alþingismaður í Hreyfingunni. MBL/Ómar Óskarsson

„Þetta er bara hugarburður og dylgjur í Bjarna Harðarsyni. Hann ætti að skammast sín fyrir að vera með svona málflutning,“ sagði Þór Saari, alþingismaður í Hreyfingunni, um orð Bjarna Harðarsonar í þættinum Silfri Egils í dag.

Bjarni taldi það alveg ljóst að stjórnarflokkarnir hefðu gert samkomulag við Hreyfinguna um fullan stuðning á Alþingi ef til vantrauststillögu kæmi.

Þór sagði að Hreyfingin hefði gert grein fyrir afstöðu sinni um leið og viðræðum hennar við forystumenn ríkisstjórnarinnar lauk milli jóla og nýárs.

„Fullt af fólki sér samsæri alls staðar. Því miður virðist það ekki nenna að fylgjast nægilega vel með Hreyfingunni. Við tökum ekki þátt í neinum svoleiðis blekkingarleik, höfum aldrei gert og munum aldrei gera,“ sagði Þór.

„Allar þessar viðræður við Jóhönnu [Sigurðardóttur, formann Samfylkingarinnar] og Steingrím [J. Sigfússon, formann VG] voru út af því að þau héldu að þau myndu hugsanlega missa meirihlutann með því að setja Jón [Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra], út í kuldann sem ráðherra,“ sagði Þór.

Hann var spurður hvaða afstöðu Hreyfingin myndi taka ef fram kæmi vantrauststillaga á ríkisstjórnina.

„Það er tiltölulega stutt síðan við greiddum atkvæði með vantrausti á ríkisstjórnina. Það hefur ekkert gerst í okkar afstöðu til hennar ennþá sem hefur breyst í þeim málum, alla vega ekki hvað mig varðar og ég held ekki með félaga mína heldur,“ sagði Þór. 

mbl.is

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær