"Hef alltaf vitað að ég myndi starfa við tónlist"

Pavel Emil Smid

Pavel Emil Smid
mbl.is

PAVEL Emil Smid, nýstúdent frá Verzlunarskóla Íslands, fékk nýlega styrk frá Berklee, einum þekktasta tónlistarskóla heims, til að nema tónsmíðar við skólann. Pavel lauk 8. stigs prófi í píanóleik vorið 1998, hann ákvað að taka ekki einleikarapróf en einbeita sér þess í stað að tónsmíðum.

Pavel var aðeins þriggja ára gamall þegar amma hans kynnti píanóið fyrir honum og hefur ekki sleppt af því tökum síðan. Móðir Pavels er búlgörsk og pabbi hans Tékki, þau eru bæði organistar og hafa meðal annars starfað við Söngskólann í Reykjavík. Það er því óhætt að segja að tónlist hafi alla tíð verið stór þáttur í lífi Pavels.

Skúffur fullar af tónlist

"Ég hef alltaf vitað að ég myndi starfa við tónlist," sagði Pavel í samtali við Morgunblaðið, en það var fyrir tveimur árum að hann ákvað að stefna á nám í tónsmíðum. Pavel hefur lengi baukað við að semja tónlist af ýmsu tagi og segist eiga skúffur fullar af frumsaminni tónlist. "Ég sem allt frá klassík upp í mestu sýru," sagði Pavel til marks um fjölbreytnina í tónsmíðum sínum. Hann segist helst einbeita sér að popptónlist um þessar mundir, hún nái eyrum fjöldans á hverjum tíma og sé því áhugavert viðfangsefni. Pavel hefur eigin aðstöðu til að taka tónlistina upp og syngur lögin sjálfur auk þess sem hann spilar undir.

Til Berklee haustið 2000

Pavel stundar bardagaíþróttir af kappi auk tónlistariðkunarinnar og viðurkennir að stundum hafi námið í Versló þurft að víkja. Hann þurfti til að mynda að fá frí í skólanum til að þreyta próf í Þýskalandi fyrir dómnefnd frá Berklee í kjölfar umsóknar um styrk frá skólanum. Prófið fór fram í lok janúar og Pavel fékk fljótt jákvætt svar við umsókninni. Hann hefur ekki enn sótt um inngöngu í skólann en segir styrkveitinguna nánast jafngilda inngöngu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert