Eldgos mjög líklega hafið í Heklu

Almannavarnir voru rétt í þessu að gefa út viðvörun um að hugsanlega væri að hefjast eldgos í Heklu. Tilkynnt var um vaxandi óróa í jörðu á sjötta tímanum og þenslumælar byrjuðu fyrir nokkrum mínútum að sýna breytingar. Þegar gaus í Heklu 1991 kom gos upp um stundarfjórðungi eftir að þenslumælar byrjuðu að sýna breytingar. Gos er líklega hafið, að sögn Ragnars Stefánssonar, jarðkjálftafræðings Veðurstofunnar.

Ragnar segir að mjög líklega sé hafið gos í Heklu en þó hefur það ekki verið staðfest af flugmönnum. Um klukkan 17:10 fóru að koma fram smáhreyfingar sem hafa farið vaxandi og klukkan 17:35 var komin afgerandi þensla á þenslumæli í Búrfelli, sem er skammt frá Heklu, sem líkist mjög því sem gerðist í byrjun goss 1991. Samkvæmt því ætti gosið að vera komið upp núna, segir Ragnar. Viðvaranir hafa verið gefnar Almannavörnum og flugmálayfirvöldum og að gos sé líklega hafið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert