Steinstólpi Wegeners í Garðabæ endurbættur

Bæjarstjóri Garðabæjar afhjúpaði í dag steinstöpul á Arnarnesi sem þýski vísindamaðurinn Alfred Wegener reisti árið 1930 og hefur nú verið endurbættur. Wegener reisti stöpulinn á Arnarnesi ásamt fleiri stöplum með það fyrir augum að sanna landrekskenninguna sem hann setti fram á árunum 1908-1912.

Landrekskenningin gengur út á það að jörðin sé samsett af flekum sem eru á stöðugri hreyfingu. Eitt af því sem varð til að kveikja hugmyndina að kenningunni var hversu vel strandlengjur meginlanda, einkum Afríku og Suður-Ameríku, falla hver að annarri. Þá vöktu samskonar jarðmyndanir og steingervingar samskonar lífvera á aðskildum meginlöndum athygli Wegeners. Þetta tvennt varð m.a. til þess að Wegener dró þá ályktun að heimsálfurnar hefðu legið saman í fyrndinni og myndað eitt risameginland, sem hann kallaði Pangeu. Á miðlífsöld, fyrir um 200 milljónum ára, hefði Pangea byrjað að klofna í meginlandsfleka sem væru á stöðugri hreyfingu. Til að reyna að færa sönnur á kenningu sína reisti Wegener nokkra steinstöpla sem mælipunkta. Þar á meðal er stöpullinn á Arnarnesi enda er Ísland á mörkum tveggja fleka, Evrópuflekans og Ameríkuflekans. Kenningu Wegeners var tekið fálega af vísindamönnum samtímans enda tókst honum ekki að benda á krafta sem væru nógu öflugir til að flytja meginlöndin. Það var ekki fyrr en árið 1960, sem hægt var að sýna fram á það með segulmælingum að meginlöndin hreyfast, fyrir tilstilli iðustreymis í jarðmöttlinum, að hún fór að njóta almennrar viðurkenningar. Wegener sjálfur lifði það ekki. Hann varð úti í rannsóknarleiðangri á Grænlandi árið 1930. Bæjarstjórn Garðabæjar ákvað í haust að þessi stöpull skyldi varðveittur og umhverfi hans gert meira aðlaðandi. Tvær koparplötur hafa verið festar á stöpulinn með upplýsingum um tilurð hans og landrekskenninguna. Þá hefur verið hellulagt í kringum hann, plantað gróðri og settur niður bekkur. Stöpullinn er á gatnamótum Arnarnesvegar og Hegranesvegar og blasir við þegar ekið er um Arnarnesbrúna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert