Segja atvinnumál á landsbyggðinni hafa stórversnað

Fulltrúar Starfsgreinasambandsins gengu á fund ráðherra í dag til að lýsa yfir áhyggjum sambandsins vegna þeirrar þróunar sem hefur átt sér stað í atvinnu- og byggðamálum. Á fundinum var ráðherrum afhent plagg þar sem ástand ýmissa staða var útlistað og að auki varpaði Starfsgreinasambandið fram nokkrum spurningum. Var plaggið kynnt á blaðamannafundi síðdegis í dag.

Um er að ræða minnisblað frá Starfsgreinasambandinu til ráðherra og segir þar að á síðustu mánuðum hafi þróun atvinnumála á landsbyggðinni versnað til muna. Hvert byggðalagið á fætur öðru verði fyrir áföllum á sama tíma og góðæri ríki í efnahagsmálum og mikil þensla sé á vinnumarkaði á höfuðborgarsvæðinu. „Þessi nýju vandamál hafa bæst við gífurlega fólksflutinga sem hafa átt sér stað á síðustu árum frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Ef ekkert verður gert má ætla að mörg byggðarlög við ströndina leggist af á næstu árum. Fólk flykkist til höfuðborgarinnar því þar er vinnu að fá núna," segir í minnisblaðinu. Þar eru einnig rakin dæmi um slæmt atvinnuástand en tekið fram að staðan sé slæm á mörgum fleiri stöðum. Dæmin eru eftirfarandi: Bolungarvík Mjög slæmt ástand í kjölfar lokunar hjá rækjuverksmiðju NASCO vegna gjaldþrots fyrirtækisins. Um 80 starfsmönnum var sagt upp og í dag eru um 60 manns á atvinnuleysisskrá.
Annað stórfellt vandamál blasir við, sem felst í því að ef ýsa og steinbítur hjá smábátum á þorskaflahámarki verður sett í kvóta þá blasir við hrun í þessari útgerð, sem er þó eini vaxtarbroddurinn eftir að Bolungarvík missti kvóta og togara frá sér. Slík aðgerð myndi bitna mjög illa á Vestfjörðum, því þeir fiska 70% af ýsunni og 90% af steinbítnum. Eskifjörður
Ástandið þokkalegt í augnablikinu á meðan loðnuvertíð er, í dag eru 15 manns á atvinnuleysisbótum. Hinsvegar eru horfur nokkuð slæmar. Rækjuvinnslu Hraðfrystihússins hefur verið lokað um ótakmarkaðan tíma en á meðan hefur starfsfólki verið boðin vinna við loðnu- og bolfiskvinnlu, framhaldið er hinsvegar óráðið. Þá stendur einnig til að selja ísfisktogara og leggja einu nótaskipi. Húsavík
Ástandið á Húsavík er ekki gott. Eftir gjaldþrot hjá Íslenskum harðviði eru nú um 60 til 70 einstaklingar á atvinnuleysisskrá. Þá er búið að segja upp 25 manns hjá rækjuvinnslu Fiskiðjusamlags Húsavíkur og einnig eru uppsagnir í gangi hjá ýmsum smærri fyrirtækjum. Hrísey
Í Hrísey eru nú 10 manns á atvinnuleysisskrá og horfur slæmar. Að auki fluttu um 30 einstaklingar burtu úr byggðalaginu á síðasta ári. Kópasker
Um 10-15 manns eru án vinnu eftir að rækjuverksmiðjunni Geflu var lokað ótímabundið. Þá er líklegt að nokkrir muni missi vinnuna í kjölfar þess að laxeldisfyritækið Rifós lenti í óhappi. Ólafsfjörður
Í Ólafsfirði eru nú 52 á atvinnuleysisskrá og horfur óljósar. Stígandi hefur verið eina fiskvinnslufyrirtækið sem er í gangi. Hraðfrystihús Sæunnar var nýlega boðið upp og stefnt er að saltfiskvinnslu þar, ekki er ljóst hversu margir munu fá atvinnu. Vestmanneyjar
Eftir brunann hjá Ísfélagi Vestmannaeyja og ákvörðun félagsins um að byggja ekki aftur upp vinnslu í Vestmannaeyjum eru um 160 manns á atvinnuleysisskrá. Þetta áfall kom í kjölfar þess að hinn burðarstólpinn í atvinnulífi Eyjanna ákvað helmingsfækkun á stöðugildum í fiskvinnslu. Í dag er vinnsla í þremur litlum fiskverkunum sem gerðu tímabundið samkomulag við Ísfélagið um vinnslu. Framtíð þessara vinnslna er algjörlega óráðin eftir sjómannaverkfall. Bjartsýnustu spár gera ráð fyrir því að um 100 einstaklingar muni vera án atvinnu til lengri tíma. Þórshöfn
Atvinnuástand á Þórshöfn hefur ekki verið viðunandi í vetur. Í dag eru 12 einstaklingar á atvinnuleysisskrá og líkur á að bætist við þessa tölu. Þá óskuðu Starfsgreinasamband Íslands og aðildarfélög þess eftir svörum frá ríkistjórninni við eftirfarandi spurningum: 1. Hver er stefna stjórnvalda í byggða- og atvinnumálum?
Starfsgreinasamband íslands vill fá skýr svör við því hver er stefna stjórnvalda varðandi hinar dreifðu byggðir landsins. Starfsgreinasambandið vill að ríkisvaldið beiti sér fyrir því að áhersla verði lögð á fullnýtingu þeirra auðlinda sem við eigum. Sá verkefnaskortur sem nú er í landvinnslu og þær uppsagnir sem hafa átt sér stað á fiskvinnslufólki er ein af afleiðingum þess að við fullnýtum ekki auðlindir okkar. Þetta hefur haft bæði bein og óbein áhrif á atvinnustigið og stefnir framtíð fjölda byggðarlaga í hættu. 2. Hvernig er hægt að minnka útfluting á óunnum fiski?
Starfsgreinasambandið hefur áhyggur af því að lækkun kvótaálags muni leiða til mikillar aukningar á útflutningi óunninna sjávarafurða, en samkvæmt reglugerð sjávarútvegsráðuneytisins mun allur ísfiskur sem fluttur er út bera aðeins 10% kvótaálag eftir tvö ár. Vandi landvinnslunnar í dag snýst öðru fremur um að tryggja fyrirtækjum, sem skapa bæði atvinnu og verðmæti, aðgang að hráefni til vinnslu, það verður ekki gert með því að flytja fiskinn óunninn á markaði erlendis. 3. Er hægt að tryggja að íslensk fiskvinnsla fái ávallt tækifæri á að bjóða í allan fisk sem er veiddur innan íslensku lögsögunnar?
Starfsgreinasamband Íslands telur óeðlilegt að íslenskum fiskvinnslufyrirtækjum standi ekki til boða að gera tilboð í fisk sem er veiddur innan íslenskrar lögsögu, áður en hann er fluttur úr landi. Þetta þarf þó ekki að þýða að erlend fyrirtæki geti ekki einnig boðið í fiskinn á jafnréttisgrundvelli. 4. Er hægt að gera fiskvinnsluhúsum án útgerðar kleift að eignast kvóta?
Starfsgreinasamband Íslands vill að athugað verði með möguleika á að breyta lögum um stjórn fiskveiða á þann hátt að fiskvinnsluhúsum verði gert kleift að eignast kvóta. Slík ráðstöfun gerði það að verkum að fiskvinnsluhús gætu tryggt sér hráefni án þess að kaupa sér skip, en gert í staðinn samning við útgerð um veiði á kvótanum. 5. Hvernig er hægt að tryggja starfsöryggi fiskvinnslufólks?
Vegna þeirra grundvallarbreytinga sem átt hafa sér stað í stjórnun fiskveiða og vinnslu sjávarafla hér á landi telur SGS löngu orðið tímabært að taka til endurskoðunar ákvæði 3.gr. l. 19/1979. Þessu ákvæði laganna er ætlað að „. . . milda áhrif óstöðugleika atvinnulífsins fyrir atvinnurekendur, sem þeir ráða ekki sjálfir við . . ." Eins og nú háttar í vinnslu sjávarafla hafa atvinnurekendur mun meiri áhrif og stjórn á skipulagi vinnslunnar. Þessi opna heimild 3.gr. l. 19/1979 sem átti að milda áhrif óviðráðanlegra atvika hefur á síðustu árum ekki eingöngu verið notuð í því skyni, heldur orðið hluti af stjórntækjum atvinnurekenda. Sjá einnig b-lið 2. gr. reglugerðar um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna kauptryggingar fiskvinnslufólks. Það er algjörlega óviðunandi að fiskvinnslufólk hafi önnur ráðningarkjör en annað launafólk. 6. Hver er stefna hins opinbera í málefnum atvinnulausra?
Starfsgreinasamband íslands vill að félagsmálaráðuneytið beiti sér fyrir því að mótuð verði langtímastefna í málefnum atvinnulausra. Æskilegt er að ríkisstjórn Íslands hugi að því að skoða fyrirbyggjandi aðgerðir í stað þess að sinna eingöngu björgunaraðgerðum. Nauðsynlegt er að huga að þessu vandamáli, jafnvel þótt vel gangi í efnahagslífinu. 7. Geta stjórnvöld beitt sér fyrir því að sett verði á laggirnar nefnd sem rannsakar afleiðingar þess þegar stór fyrirtæki og atvinnutæki eru seld milli byggðarlaga?
Þá telur Starfsgreinasambandið nauðsynlegt að stjórnvöld beiti sér fyrir því að gerðar verði enn frekari rannsóknir á afleiðingum þess fyrir atvinnulíf, lífskjör og grundvöll byggðarlaga þegar stór fyrirtæki og atvinnutæki eru seld í burtu og flutt í önnur byggðarlög.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert