Geðlæknir telur voðaverkið hafa verið slys

Að mati geðlæknis, sem rannsakað hefur Atla Guðjón Helgason, sem ákærður er fyrir morðið á Einari Erni Birgissyni 8. nóvember sl., var morðið framið fyrir hreina slysni. Þetta kom fram við fyrirtöku málsins í dag þar sem geðlæknirinn gaf skýrslu fyrir dómi. Læknirinn bar að Atli hefði alla tíð sneitt hjá öllum átökum og að hann væri hvorki ofbeldisfullur né hættulegur.

Þá sagði hann að morðið á Einari heitnum hefði ekki verið undirbúið, heldur virtist það hafa verið framið í kjölfar stympinga af völdum spennu þeirra í millum vegna fjármála í viðskiptum, sem þeir stunduðu saman. Atla og Einari hefði orðið sundurorða, Einar orðið reiður og Atli hörfað undan honum hálfan hring í kringum bifreið Einars, uns hann greip hamar úr aftursæti bifreiðarinnar og sló Einar. Í framhaldi af því hafi Atli tekið órökréttar ákvarðanir. Fram kom að neysla amfetamíns hefði aukist mjög síðustu mánuðina fyrir verknaðinn og hefði fíkniefnaneysla átt sinn þátt í hegðunarbreytingum Atka og því að hann missti stjórn á sér með áðurgreindum afleiðingum. Aðalmeðferð málsins hefst 3. maí. Geðlæknirinn átti að bera vitni við aðalmeðferðina en því var flýtt vegna fjarveru hans þann dag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert