ASÍ hafnar inngripum stjórnvalda í kjaradeilu sjómanna

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands kom saman í gær og samþykkti ályktun vegna kjaradeilu sjómanna. Miðstjórnin lýsir yfir fullum stuðningi við baráttu sjómanna fyrir því að leysa loks úr þeim vanda og stöðva það framferði sem hefur valdið því að milli útgerðar og sjómanna hefur ríkt kjaradeila með litlum hléum í heilan áratug og bitnað hart á sjómönnum og öðrum sem starfa við sjávarútveginn.

Ályktun ASÍ fer hér á eftir: "Alþýðusamband Íslands minnir á að sjómannadeilan er orðin 10 ára. Það var árið 1991 sem fyrst fór að bera á því fyrir alvöru að sjómenn væru látnir taka þátt í kvótakaupum útgerðar með einhliða ákvörðunum skiptaverðs. Þar sem um er að ræða ákvarðanir um kjör sjómanna hefur þetta atriði verið kjarninn í öllum kjaradeilum útgerðarmanna og sjómanna í 10 ár og er enn. Stjórnvöld hafa viðurkennt þennan alvarlega vanda og ítrekað sett lög sem eiga að leysa þetta viðkvæma deilumál, en án raunverulegs árangurs. Lagasetningar stjórnvalda hafa iðulega verið inngrip í yfirstandandi kjaradeilur svo raunveruleg lausn hefur ekki fengist fram með frjálsum samningum hagsmunaaðila. Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hafnar inngripum stjórnvalda enda eru þau bæði andstæð frjálsum samningsrétti og geta torveldað mjög lausn þessarar langvinnu deilu. Miðstjórn Alþýðusambands Íslands lýsir yfir fullum stuðningi við baráttu sjómanna fyrir því að leysa loks úr þeim vanda og stöðva það framferði sem hefur valdið því að milli útgerðar og sjómanna hefur ríkt kjaradeila með litlum hléum í heilan áratug og bitnað hart á sjómönnum og öðrum sem starfa við sjávarútveginn."
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert