Dómur í máli ákæruvaldsins gegn Atla Helgasyni

Hér á eftir fer í heild dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli ákæruvaldsins gegn Atla Helgasyni:

Árið 2001, þriðjudaginn 29. maí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af héraðsdómurunum Guðjóni St. Marteinssyni sem dómsformanni og Finnboga H. Alexanderssyni og Hjördísi Hákonardóttur kveðinn upp dómur í málinu nr: S-599/2001: Ákæruvaldið gegn Atla Guðjóni Helgasyni, en málið var dómtekið 4. þ.m.

Málið er höfðað með ákæru útgefinni 14. mars 2001 á hendur:

,,Atla Guðjóni Helgasyni, kennitala 070367-5649,

Laxalind 13, Kópavogi,

fyrir eftirgreind hegningarlagabrot:

I.

Fyrir manndráp, með því að hafa, miðvikudaginn 8. nóvember 2000, veist að Einari Erni Birgissyni, fæddum 27. september 1973, á bifreiðastæði í Öskjuhlíð í Reykjavík, og banað honum með því að slá hann margoft í höfuðið með hamri.

Telst þetta varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

II.

Fyrir fjárdrátt í opinberu starfi á árunum 1999 og 2000 sem héraðsdómslögmaður í Reykjavík og skipaður skiptastjóri, með því að hafa dregið sér og notað í eigin þágu samtals kr. 1.200.000, sem skiptabeiðendur í átta þrotabúum höfðu greitt í tryggingarfé og ákærða hafði verið afhent til að standa straum af kostnaði við búskipti. Fjárhæðin sundurliðast þannig: Kr. 450.000 11. ágúst 1999, vegna þriggja þrotabúa á Reykjanesi, kr. 600.000 17. desember 1999 og kr. 150.000 22. desember 1999, vegna fimm þrotabúa í Reykjavík. Fjármuni þessa varðveitti ákærði hvorki á sérstökum vörslufjárreikningi né hélt þeim aðgreindum frá eigin fé eins og skylt er.

Þessi brot teljast varða við 247. gr., sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga.

III.

Fyrir fjárdrátt í opinberu starfi sem héraðsdómslögmaður og skiptastjóri í dánarbúi Agnars W. Agnarssonar, kennitala 100951-2749, er tekið var til opinberra skipta 16. ágúst 1999, með því að hafa í október 2000 dregið sér og notað heimildarlaust í eigin þágu kr. 1.170.977 af fé sem tilheyrði dánarbúinu og símsent hafði verið 10. október 2000 frá Deutsche Bank, Lübeck, Þýskalandi, inn á bankareikning ákærða í Íslandsbanka FBA hf., Mosfellsbæ.

Telst þetta varða við 247. gr., sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga.

 

IV.

Fyrir fjárdrátt, með því að hafa á árinu 2000 dregið sér og notað heimildarlaust í eigin þágu samtals kr. 4.020.080 af fjármunum í eigu einkahlutafélagsins Unit á Íslandi ehf., kennitala 450700-4440, Reykjavík (áður GAP ehf.), sem hér greinir:

1. Hinn 19. september, dregið sér og notað heimildarlaust í eigin þágu andvirði víxils að upphæð kr. 2.000.000, sem samþykktur var til greiðslu af Unit ehf., í Búnaðarbanka Íslands hf., Austurbæjarútibúi, með gjalddaga 18. desember, útgefinn 18. september af ákærða og ábektur af Einari Erni Birgissyni. Andvirði víxilsins, kr. 1.886.700, var lagt inn á tékkareikning ákærða nr. 6709 í sama bankaútibúi.

  1. Dregið sér og notað heimildarlaust í eigin þágu samtals kr. 2.020.080 af tékkareikningi á nafni GAP ehf. við Landsbanka Íslands, Breiðholtsútibú: kr. 1.500.000 hinn 27. september, kr. 220.080 hinn 30. október og kr. 300.000 hinn 10. nóvember. Tvær fyrstgreindu fjárhæðirnar lagði ákærði inn á áðurgreindan tékkareikning sinn við Búnaðarbanka Íslands, Austurbæjarútibú, en kr. 300.000 gengu til greiðslu á eigin úttektum ákærða með VISA-greiðslukorti Unit ehf. nr. 4539 8700 0006 6249.

Teljast þessi brot varða við 247. gr. almennra hegningarlaga.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og hann verði, samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga, sviptur leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi.

 

Bótakröfur:

I.1 Guðlaug Harpa Gunnarsdóttir, kt. 020572-5079, Hlíðarhjalla 44, Kópavogi, krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða henni kr. 19.105.997 í bætur fyrir missi framfæranda auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 8.2.2001 til greiðsludags, kr. 5.000.000 í miskabætur með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga frá 8. nóvember 2000 til dómsuppsögudags en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags og loks kr. 25.643 vegna útlagðs kostnaðar með dráttarvöxtum af kr. 19.920 frá 8.2.2001 til 19.s.m., af kr. 21.527 frá þ.d. til 21.s.m., en af kr. 25.643 frá þeim degi til greiðsludags.

I.2. Aldís Einarsdóttir, kt. 170240-4999, Dalalandi 11, Reykjavík, krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða henni kr. 5.000.000 í miskabætur með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. nóv. 2000 til dómsuppsögudags en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.

I.3. Birgir Örn Birgis, kt. 230942-3319, Dalalandi 11, Reykjavík, krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða honum kr. 5.000.000 í miskabætur með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. nóv. 2000 til dómsuppsögudags en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags, auk þess er krafist greiðslu á útfararkostnaði kr. 1.361.684 með dráttarvöxtum frá dómsuppsögudegi.

 

II. Jón Ármann Guðjónsson, hdl., krefst þess að ákærði verði dæmdur til að endurgreiða skiptabeiðendum í þrotabúum sem í II. kafla ákæru greinir, samtals kr. 1.200.000: Sýslumanninum í Kópavogi, kt. 490169-4259, kr. 600.000 vegna fjögurra þrotabúa;Tollstjóranum í Reykjavík, kt. 210359-7299 kr. 300.000 vegna tveggja þrotabúa; Höfðabakka hf., kt. 671289-1459 kr. 150.000 vegna eins þrotabús og Íslandsbanka hf., kt. 421289-4179 kr. 150.000 vegna eins þrotabús, auk dráttarvaxta af kr. 450.000 frá 11.08.99 til 14.12.99, þá af kr. 1.050.000 til 20.12.99, en þá af kr. 1.200.000 til greiðsludags.

III. Helgi V. Jónsson hrl. krefst þess f.h. Unit á Íslandi ehf., kt. 450700-4440, Reykjavík, að ákærði verði dæmdur til að greiða félaginu kr. 6.078.532 auk dráttarvaxta og kr. 120.000 vegna vinnu lögmannsins í þágu kröfuhafa."

Undir rekstri málsins var skaðabótakröfu Unit á Íslandi ehf. breytt og er endanleg krafa að fjárhæð 4.140.080 krónur auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 25,1987 af kr. 2.000.000 frá 19. september 2000 til 27. september 2000, af kr. 3.500.000 frá 27. september 2000 til 30. október 2000, af kr. 3.720.080 frá 30. október 2000 til 10. nóvember 2000 og af kr. 4.020.080 frá 10. nóvember 2000 til greiðsludags.

Verjandi ákærða krefst þess að háttsemi ákærða samkvæmt I. kafla ákærunnar verði færð undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Krafist er sýknu af sakarefni í ákæruliðum II til IV. Krafist er sýknu af kröfu fyrir missi framfæranda sem lýst er í kröfulið I.1, en til vara að sú fjárhæð verði lækkuð verulega. Einnig er krafist lækkunar miskabótakröfu Guðlaugar Hörpu Gunnarsdóttur. Þá er krafist lækkunar bótakrafna í liðum I.2 og I.3. Krafist er lækkunar útfararkostnaðar. Aðallega er krafist sýknu af bótakröfu nr. II, en til vara verulegrar lækkunar og sama krafa er gerð krafa vegna III. bótakafla ákæru. Að öðru leyti vegna I. kafla ákæru er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar dæmdri refsivist. Krafist er málsvarnarlauna að mati dómsins einnig fyrir verjandastörf á rannsóknarstigi málsins.

Upphaf máls þessa er það samkvæmt skýrslu lögreglunnar í Kópavogi dags. 9. nóvember sl., að kl. 20.30 8. nóvember hringdi Guðlaug Harpa Gunnarsdóttir, sambýliskona Einars Arnar Birgissonar, í lögreglu og kvaðst farin að óttast um hann, en ekkert hafði spurst til hans frá því að hann fór að heiman um kl. 10.00 að morgni 8. nóvember. Spurst var fyrir um Einar Örn hjá lögreglunni í Reykjavík en án árangurs. Þá er lýst í skýrslunni ýmsum ráðstöfunum lögreglu vegna þessa. Um kl. 01.30 um nóttina óskuðu aðstandendur Einars Arnar eftir formlegri leit að honum, sem hófst eftir það. Víðtæk leit fór fram. Laust upp úr kl. 09.00 að morgni 9. nóvember fannst bifreið Einars Arnar á bifreiðastæði við Hótel Loftleiðir. Með aðstoð leitarhunds var reynt án árangurs að rekja slóð frá bifreiðinni.

Ráða má af gögnum málsins að grunsemdir vöknuðu um að ákærði væri valdur af hvarfi Einars Arnar. Lögreglan hafði símsamband við ákærða 9. nóvember og teknar voru af honum vitnaskýrslur 11. og 13. sama mánaðar. 14. nóvember var gerð húsleit á heimili ákærða og starfstöð. Ákærði var handtekinn 15. nóvember. Í skýrslutöku hjá lögreglu sama dag játaði hann að hafa banað Einari Erni í Öskjuhlíð og síðan komið líki hans fyrir í hraungjótu nærri Grindavík. Lögreglan leitaði þar án árangurs, en ákærði vísaði síðan á staðinn og fannst lík Einars Arnar laust fyrir kl. 03.00 aðfaranótt 16. nóvember. Tekin var af ákærða skýrsla fyrir dómi 15. nóvember, er fyrir var tekin krafa um gæsluvarðhald yfir honum. Þar játaði hann að hafa orðið Einar Erni að bana 8. sama mánaðar.

Framburður ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi um afdrif Einars Arnar hefur verið efnislega á sama veg og framburður hans fyrir dómi 15. nóvember. Meðan rannsókn lögreglunnar í Kópavogi á sakarefni sem lýst er í I. kafla ákærunnar stóð yfir var ríkislögreglustjóra send beiðni um rannsókn þeirra þátta sem lýst er II. til IV. kafla ákæru og var sakarefnið samkvæmt þeim köflum rannsakað þar.

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dómi varðandi einstaka ákæruliði.

Ákæruliður I

Ákærði játar að hafa orðið Einari Erni að bana. Hann kvað það ekki hafa verið ásetning sinn að bana honum. Hafi hann verið gripinn ofsahræðslu og kvaðst telja sig hafa verið að verjast. Hörmulegt slys hafi orðið eftir rifrildi þeirra og átök í Öskjuhlíð 8. nóvember sl.

Ákærði kvað mikinn vinskap hafa verið með þeim Einari Erni. Þeir hafi þekkst í mörg ár, og hefði hann fyrst veitt honum athygli í gegnum knattspyrnu, sem þeir stunduðu báðir og léku þeir um tíma með sama félagi. Þeir hafi alltaf haldið sambandi þar til Einar Örn fór utan til að leika knattspyrnu. Eftir heimkomu Einars hafi hann leitað til ákærða vegna lögfræðilegra málefna og eftir það hafi tekist mjög góður vinskapur með þeim. Þeir Einar Örn áttu saman hlutafélagið GAP ehf., sem rak samnefnda fataverslun við Laugaveg, en ákærði kvaðst hafa tekist á hendur ábyrgð á fjárskuldbindingu vegna félagsins og verslunarinnar og taldi ákærði að hann hefði þannig gengist í ábyrgð fyrir 30 til 40 milljónum króna.

Ákærði lýsti samskiptum við Einar Örn 8. nóvember sl. Ákærði hefði hringt í hann um morguninn, en Einar þá verið sofandi. Ákærði kvaðst hafa sinnt ýmsum erindum eftir þetta. Síðar sama morgun hafi hann hringt aftur í Einar, sem hafi ætlað að hringja aftur í ákærða skömmu síðar og gert það. Í því símtali hafi Einar Örn sagst ætla að fara í verslun þeirra upp úr kl. 12.00, en vildi hitta ákærða áður. Þeir hafi þá ákveðið að hittast í Öskjuhlíð á stað þar sem þeir hafi oft hist áður. Ákærði kvaðst hafa lagt bifreið sinni á bílaplani sem þar er og haldið gangandi á móti Einari Erni, sem hafi tekið hann upp í bifreið sína og ekið á bílastæðið þar sem bifreið ákærða var fyrir. Á fundi þeirra í Öskjuhlíðinni hafi þeir tekið að ræða um rekstur verslunarinnar. Þá hafi Einar Örn spurt ákærða um peninga sem ákærði hafði áður sagst ætla að leggja í rekstur fyrirtækisins. Ákærði greindi þá frá því að hann hefði ekki þessa fjármuni undir höndum. Hann hafi lýst því að sér fyndist ósanngjarnt hvernig allt var á annan veginn í samskiptum þeirra. Hafi þá komið upp deila á milli þeirra og ýmislegt verið sagt sem betur hefði verið ósagt. Deilurnar hafi magnast og hafi Einar Örn ýtt ákærða sem ýtti til baka. Ákærði lýsti því svo að sér hafi fundist ,,allt vera orðið brjálað". Hann hafi staðið við bifreið sína farþegamegin er Einar Örn hafi slegið til hans og reynt síðan að sparka í hann. Ákærði kvaðst hafa ýtt á móti. Hann hafi þá forðað sér heilan hring í kringum bílinn þar til hann opnaði afturdyrnar farþegamegin, þar sem hafi verið mikið af alls konar verkfærum. Hann var með verkfæri í bílnum bæði vegna vinnu hans í versluninni við Laugaveg og á heimili sínu. Þar kvaðst ákærði hafa gripið hamar, sem hann hugðist ógna Einar Erni með. ,,Einar Örn kom þá vaðandi og sló ég hann þá með hamrinum". Ákærði mundi eftir einu hamarshöggi, en gat ekki fullyrt um það hvar það lenti. Við höggið hafi Einar Örn fallið utan í bílinn og til jarðar. Ákærði kvaðst muna illa eftir því sem gerðist á þessari stundu og kvað atburði hafa verið óraunverulega í huga sér. Hann sá fyrir sér einstakt brot úr atburðarásinni. Hann mundi eftir Einari Erni liggjandi í jörðinni og kvaðst hafa reynt lífgunartilraunir á honum. Taldi hann Einar Örn vera látinn, kvaðst hann hafa séð og fundið að Einar andaði ekki.

Ákærði var spurður um fjölda högga og kvaðst hann muna eftir einu, kannski tveimur. Hann kvaðst í fyrstu ekki hafa getað veitt Einari Erni þá fjóra höfuðáverka, sem lýst er í krufningaskýrslu Þórunnar Steffensen réttarmeinafræðings og sem vikið verður að síðar, en síðar kvaðst hann ekki trúa því að hann hefði getað veitt honum alla áverkana. Hann kvaðst telja að sumir þeirra hljóti að hafa komið til við flutning Einars Arnar í hraunið við Grindavík.

Ákærði kvaðst hafa sturlast og hlaupið út á veg til að athuga hvort þar væri umferð, en einhvern tíma í þessari atburðarás ætlaði hann að leita aðstoðar. Af einhverjum ástæðum hætti hann við það og hljóp að bíl sínum, opnaði skottið og kom Einari Erni þar fyrir. Hann lýsti því að af einhverjum orsökum hefði hann ákveðið að leyna atburðinum. Hann lýsti því hvernig hann reyndi að afmá verksummerki á staðnum, svo sem með því að setja í bifreið sína blóðugt grjót og þá reyndi hann að afmá blóð á vettvangi. Hann kvaðst hafa fært bíl Einars Arnar á bílastæði við Hótel Loftleiðir, en mundi ekki hvort hann gerði það er hér var komið sögu, eða eftir að hann kom frá Grindavík. Því næst ók ákærði á brott í áttina til Hafnarfjarðar. Hann lýsti leiðinni sem hann ók með Einar Örn í farangursrými bifreiðar sinnar uns hann kom honum fyrir í hraungjótu nærri Grindavík. Hann lýsti því er hann tók Einar Örn úr farangursrými bílsins og dró hann niður bratta hlíð, þar sem hann missti takið á honum svo hann féll niður og heyrði ákærði þá brothljóð og hugleiddi hann að þá hefði Einar Örn hálsbrotnað. Hann taldi einnig að einhverjir áverkanna á höfði Einars, sem réttarmeinafræðingur taldi afleiðingar hamarshöggs, hefðu komið við þetta fall. Hann lýsti því er hann kom Einari Erni fyrir í hraungjótu skammt frá veginum og huldi með hraunmolum og plastpoka. Hann kvaðst hafa geymt fatnað af Einari Erni í farangursgeymslu bílsins og hent fatnaðinum sama dag og húsleit var gerð á heimili hans og þá hafi hann einnig þrifið blóð sem var í farangursgeymslu bílsins.

Eftir að hafa komið Einari Erni fyrir kvaðst ákærði hafa ekið til Reykjavíkur. Hann lýsti erindum sem hann sinnti þennan dag og næstu daga á eftir, bæði ferðum í fyrirtæki vegna verslunarinnar og persónulegum erindum sínum. Þá greindi hann frá ferðum að nýju höfninni í Kópavogi, að Bessastöðum, Hafnarfjarðarhöfn og inn að Elliðaám. Á þessum stöðum kvaðst hann hafa losað sig við það sem hann taldi sönnunargögn, svo sem farsíma, bíllykla, hamar, sem hann banaði Einari með, blóðugum steinum sem hann hafði sett í bílinn í Öskjuhlíð, og fleiri munum sem voru í bílnum fyrir, en blóð hafði komist á þá.

Ákærði kvað þessa atburðarás alla óraunverulega fyrir sér og mundi hann hana ekki nákvæmlega. Hann kvaðst ekki hafa getað annað en greint frá því sem gerðist. Hann lýsti þeirri hugsun sinni að annað hvort myndi hann deyja frá þessu eða segja frá. Hann kvað afstöðu sína til játningarinnar hafa mótast af þessu, en ekki því á hvaða stigi rannsókn málsins var.

Grétar Sæmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Kópavogi, kvað fyrstu fréttir lögreglu af málinu hafa verið um kvöldmatarleytið 8. nóvember sl., er sambýliskona Einars Arnar hringdi og lýsti áhyggjum sínum, þar sem ekkert hafði til hans spurst frá því hann fór að heiman um morguninn. Þessum upphafsafskiptum lögreglunnar og leit er lýst hér að framan og má vísa til þess sem þar greindi. Grétar lýsti síðan umfangsmikilli leit sem gerð var af Einari Erni.

Hann kvaðst hafa rætt við lögreglumann sem leitaði á því svæði, þar sem bifreið Einars Arnar fannst að morgni 9. nóvember. Lögreglumaðurinn kvaðst ekki geta fullyrt hvort bifreið Einars Arnar hefði verið við Hótel Loftleiðir er hann leitaði þar. Hugsanlega hefði sér yfirsést bifreiðin. Grétar ræddi við fleiri aðila sem leituðu á þessu svæði. Enginn þeirra gat slegið því föstu að bifreið Einars Arnar hefði ekki getað verið við hótelið er leitin fór fram. Þá lýsti Grétar rannsókn málsins hjá lögreglunni í Kópavogi og samstarfinu við önnur embætti við rannsóknina. Hann lýsti meðal annars rannsókn á vettvangi í Öskjuhlíð þar sem leitað var að blóði með öllum þekktum tiltækum aðferðum án árangurs. Þá lýsti hann aðstæðum á vettvangi, þar sem lík Einars Arnar fannst. Ekki hafi verið unnt sökum veðurs að leita blóðs þar, utan á þeim stað þar sem líkið fannst. Grétar kvað leit hafa verið gerða að þeim munum sem ákærði lýsti að hann hefði hent. Af þessum munum fundust einungis bíllyklar í Elliðaárósi.

Björgvin Sigurðsson rannsóknarlögreglumaður lýsti vinnu sinni við rannsókn málsins. Hann tók m.a. ljósmyndir. Hann staðfesti skýrslur sem hann ritaði þar um. Hann lýsti rannsókn á ætluðum vettvangi í Öskjuhlíð og leit þar að blóði með öllum tiltækum aðferðum án árangurs. Í skýrslu sem rituð var um þessa rannsókn segir að það sé mat Björgvins og samstarfsmanns hans, Ómars Pálmarssonar rannsóknarlögreglumanns, að vettvangurinn í Öskjuhlíðinni hafi ekki verið eini vettvangur þeirrar atburðarásar sem leiddi Einar Örn til dauða. Hann lýsti því hvernig komist var að þessari niðurstöðu, meðal annars með því að draga ályktanir af blæðingu sem þeir töldu að hafi átt sér stað er tekið var mið af höfuðáverkum á líki Einars Arnar. Rannsóknin í Öskjuhlíðinni fór fram er liðnir voru 11 dagar frá atburðinum. Ekki væri hægt að útiloka að eðlilegar skýringar væru á því að ekki væri blóð á vettvangi í Öskjuhlíðinni, en vitninu var í þessu sambandi kynntur framburður ákærða um það hvernig hann reyndi að afmá verksummerki á staðnum. Hann lýsti því að við rannsókn á bifreið ákærða hafi mátt ráða að farangursgeymsla bílsins hefði verið þrifin nýlega. Björgvin kvað ekki hafa verið unnt að rannsaka vettvang í hrauninu, þar sem lík Einars Arnar fannst. Á þeim tíma hafi tekið að snjóa og snjór legið yfir svæðinu næstu tvo mánuði.

Ómar Þ. Pálmason rannsóknarlögreglumaður staðfesti vinnu sína við rannsókn málsins en hann tók m.a. ljósmyndir og fór á vettvang er líkið fannst og var viðstaddur krufningu. Hann staðfesti það álit sitt sem fram kemur í skýrslu hans og Björgvins Sigurðssonar, að vettvangurinn í Öskjuhlíð væri ekki eini vettvangurinn sem leiddi til dauða Einars Arnar. Má í þessu sambandi vísa til þess sem lýst var í vitnisburði Björgvins Sigurðssonar, sem var rakinn hér að framan. Hann kvað hins vegar ekkert annað í gögnum málsins sem gerði þeim kleift að álykta um það hver væri hugsanlega annar vettvangur en sá í Öskjuhlíðinni. Hann kvað ekki hafa verið aðstæður til að leita að blóði í hrauninu, þar sem lík Einars Arnar fannst.

Harald V. Haraldsson rannsóknarlögreglumaður lýsti vinnu sinni við rannsókn málsins. Hann lýsti leitinni að Einari Erni og því er hann fannst í hraungjótu við Grindavík eftir ábendingu frá ákærða. Hann lýsti því er Helgi Geir Sigurgeirsson leigubílstjóri fór með honum í Öskjuhlíð og benti á staðinn þar sem Helgi Geir hafði séð tvo menn að morgni 8. nóvember sl. Það var sami staður og ákærði vísaði á sem vettvang. Hann lýsti leit muna eftir ábendingum ákærða. Lyklar var það eina sem fannst. Undir rannsókn málsins benti ákærði á slaghamar sem hékk á vegg í bílskúr lögreglunnar í Kópavogi. Ákærði greindi frá því að hamarinn sem hann notaði við að bana Einari Erni hefði verið svipaður hamrinum sem þar hékk uppi, en það hefði verið kúluhamar. Hamarinn sem hékk uppi á vegg og ákærði benti á var 1 kg slaghamar. Harald taldi að ákærði hafi fremur átt við lögun hamarsins en stærð er hann benti á hamarinn.

Helgi Geir Sigurgeirsson leigubílstjóri átti leið fram hjá bílastæðinu sem ákærði hefur lýst sem vettvangi atburðarins í þessum ákærulið. Hann sá mann sitja undir stýri rauðrar Volkswagen Passat bifreiðar og vera að tala í síma. Hann taldi að þetta hefði verið ákærði. Hann veitti þessu ekki sérstaka athygli og ók fram hjá en kom til baka sömu leið skömmu síðar. Þá var ekki maður í bílnum, en hann mætti þá gráum Volkswagen Golf um það bil 30 til 40 metrum frá bílastæðinu. Í þessum bíl voru tveir menn. Hann kvað bílinn hafa verið á leiðinni inn á bílstæðið, þar sem Passat bifreiðin var fyrir. Hann taldi sig þekkja Einar Örn sem ökumann Golf bifreiðarinnar og hefði hann verið hlægjandi er hann mætti bílnum.

Rut Einarsdóttir, verslunarstjóri í verslun GAP, hóf störf þar síðastliðið sumar og hafði aðallega samskipti við Einar Örn vegna þess. Hún kvað sér hafa virst ákærði og Einar Örn vera góðir félagar og enginn ágreiningur á milli þeirra. Hún hafði símsamband við Einar Örn að morgni miðvikudagsins 8. nóvember og boðaði hann komu sína í verslunina um hádegisbilið. Um og eftir hádegið hringdi ákærði og spurðist fyrir um Einar Örn. Ákærði greindi henni frá þunglyndi Einars Arnar og að sambúð hans gengi erfiðlega. Hún lýsti síðan samskiptum sínum við ákærða eftir þetta. Hún kvaðst ekki vera inní fjármálum GAP ehf., en Einar Örn ræddi þau aldrei við hana.

Sigþór Júlíusson, verslunarmaður hjá GAP, lýsti kynnum þeirra Einars Arnar. Hann hóf störf hjá GAP er verslunin opnaði. Hann kvað sér hafa virst allt leika í lyndi í samskiptum ákærða og Einars Arnar. Vitnisburður hans varpar ekki ljósi á málavexti.

Bjarni Jóhann Bogason aðstoðaryfirlögregluþjónn lýsti rannsókn á bifreið Einars Arnar og á bifreið ákærða. Bjarni fór með blóðsýni til rannsóknar í Noregi. Niðurstöðu þeirrar rannsóknar er að finna meðal gagna málsins og verður vikið að því síðar.

Heiðdís Jónsdóttir ráðgjafi lýsti samskiptum ákærða og Einars Arnar við Europay er varðaði kreditkortasamning GAP ehf. við Europay. Hún kvað ákærða hafa komið og undirritað samning fyrir hönd GAP ehf. eftir kl. 12.00, 8. nóvember sl. Vitnisburður hennar varpar ekki ljósi á málavexti.

Ingi Guðmundsson sölumarkaðsstjóri, æskuvinur Einars Arnar, kom fyrir dóminn. Vitnisburður hans varpar ekki ljósi á málavexti og verður ekki rakinn.

Þóra Steffensen réttarmeinafræðingur krufði lík Einars Arnar 17. nóvember sl. Í krufningaskýrslu hennar er ítarlega lýst fjórum höfuðáverkum sem allir komu fram á ljósmyndum meðal gagna málsins. Í ályktunarkafla krufningsskýrslunnar segir meðal annars: ,,Krufningin leiddi í ljós að dánarorsök Einars var alvarlegir höfuðáverkar og um er að ræða manndráp. Höfuðáverkarnir eru af þeirri tegund sem kallaðir eru sljóir (blunt) áverkar. Þessir áverkar á Einari felast í skurðum með undirliggjandi beinbrotum, og á höfðinu heilablæðingum, dældum í vefinn og heilamari. Áverkarnir á höndunum geta samrýmst varnaráverkum. Þó að áverkarnir séu mjög alvarlegir er ljóst að Einar lést ekki samstundis."

Lokaályktun Þóru er svohljóðandi: ,,Svo sem lýst var í fyrri skýrslu var dánarorsök Einars Arnar Birgissonar höfuðáverkar. Skv. því sem fram kemur í lögregluskýrslum voru áverkarnir veittir af öðrum manni (homicidum) með barefli og samrýmist það þeim áverkum er fundust á líkinu sbr. eftirfarandi.

Á líki mansins fundust eftirtaldir ytri áverkar á höfði (sjá einnig fyrri krufningarskýrslu):

A. Á vinstra kinnbeini var skálaga, beinn skurður (laceratio), 1,9 cm að lengd með blæðingu í undirliggjandi mjúkvefi og mörg brot á undirliggjandi kinnbeini.

B. Efst á enni vinstra megin var lítillega bogadreginn skurður, 3,8 cm að lengd.

C: Hægra megin á höfði ofan eyra var vínkil-laga skurður, 5,6 cm að lengd.

D. Á hnakka var "X" laga skurður þar sem annar armurinn mælist 6,2 cm og hinn 3,3 cm.

Útlit var á þann veg að í mjúkvefjum var brestur (skurðir, með lögun sem lýst er að ofan og í fyrri skýrslu) og mar, og beinin undir voru brotin og höfðu dældast inn á við og var blæðing og mar á heila svarandi til áverka C og D. Það var staðfest með smásjárskoðun af heila sem sýndi ferskar blæðingar í hjarnaberki. Á svæði í heila undirliggjandi áverka B sást blæðing í heilavef einvörðungu við smásjárskoðun. Einnig sáust í hjarnaberki í nánasta umhverfi blæðinganna taugafrumur með eðlilegu útliti, svipuðu því er sést við súrefnisskort eða mekanískan áverka.

Lögun sáranna á húð og brotanna í höfuðkúpu samrýmist því að áverkarnir hafi verið veittir með slaghamri (með annan endann flatan, 1000 g). Af útliti verður ekki ráðið í hvaða röð áverkarnir voru veittir, né er hægt að segja til um tímalengd milli hvers áverka um sig.

Áverki á vinstra kinnbein olli skurði á húð og brotum á undirliggjandi beini. Ekki er hægt að fullyrða að sá áverki hefði rotað Einar ef hann hefði verið veittur sem fyrsta högg, en líklega hefði hann vankast. Hver einstakur af hinum áverkunum þremur á höfuðkúpu er nægjanlegur til að hafa getað valdið meðvitundarleysi um leið og áverkinn var veittur.

Höfuðhöggin ollu heilabjúg og súrefnisskorti í heilafrumum, sem smám saman hefur valdið stöðvun á hjartslætti og öndun

Af vefjabreytingum verður ekki ráðið með vissu hversu langan tíma þetta ferli tók, frá því að áverkarnir voru veittir og þar til hjartað stöðvaðist þar sem mjög takmarkaðar rannsóknir eru til á þessu ferli í mönnum. Í tilraunum á dýrum sjást fyrstu merki súrefnisskorts (microvacuolization í taugafrumum) eftir tæplega tvær klukkustundir. Þær breytingar sjást ekki við smásjárskoðun á heila Einars. Því er ekki hægt að segja til um hversu lengi Einar var með lífsmörkum eftir að áverkarnir voru veittir. Ljóst er þó (af gráðu heilabjúgsins) að Einar lést ekki samstundis. Hið mikla blóðtap sem Einar hafði orðið fyrir (áberandi blóðtómt hjarta og stórar æðar við krufningu), bendir einnig til þess að dauðann hafi borið að garði á lengri tíma en örfáum mínútum.

Einar hlaut einnig önnur meiðsli á höfði, þar á meðal kjálkabrot. Ekki er unnt að segja til um hvort það var orsakað af höggi frá slaghamrinum eða af hnjaski við flutning. Ljóst er þó að Einar var enn á lifi er hann hlaut þann áverka því mikil blæðing var í mjúkvefjum umhverfis brotið. Einnig var til staðar fjólublátt glóðarauga með bólgu vinstra megin, brotin framtönn, tveir grunnir skurðir innaná neðri vör og óreglulegur grunnur skurður á hæ. augabrún.

Marblettir sáust á handarbökum og fingrum Einars (sjá lýsingu í fyrri skýrslu). Þessir áverkar geta samrýmst varnaráverkum en ekki er hægt að útiloka að þeir hafi orðið til af hnjaski við flutning.

Þær útbreiddu rispur er sáust á líkama Einar eru tilkomnar í kringum andlátið (peri-mortem) og er ekki hægt að útiloka að Einar hafi ennþá verið með lífsmarki er hann hlaut þá áverka.

Engir sjúkdómar, lyf, eiturefni eða fíkniefni fundust í líkamanum sem hefðu getað verið meðverkandi að dauða mannsins.

Ítarleg lyfjaleit var gerð í blóði og þvagi, og var neikvæð. (Engin lyf eða eiturefni fundust með þeim aðferðum er notaðar voru)."

Þóra kom fyrir dóminn og staðfesti skýrslur sínar og skýrði niðurstöður. Hún lýsti því að þrír af fjórum höfuðáverkum á líki Einars Arnar hefðu sjálfstætt getað valdið dauða og sömu áverkar hefðu á sama hátt valdið meðvitundarmissi. Hún greindi frá því að ekki væri öruggt, að ákveðnum forsendum gefnum, að mikið blóð hefði komið frá höfuðáverkunum. Hún kvað erfitt fyrir leikmann að greina lífsmark með vissu eftir slíka áverka þar sem öndun og hjartsláttur truflist, þannig að erfitt sé að greina hvorttveggja. Hún lýsti áverkum á höfði Einars Arnar og því hvernig þeir kæmu heim og saman við barefli og sérstaklega hamar, sem liggur frammi meðal gagna málsins. Ekki væri hægt að draga ályktanir út frá höfuðáverkunum um hugsanlega þyngd hamarsins sem áverkarnir eru eftir. Ekki væri unnt að segja til um hversu lengi Einar Örn var með lífsmarki eftir að hann hlaut þá fjóra höfuðáverka sem lýst var. Hins vegar kvað hún ljóst af útliti dragáverka á baki Einars Arnar, sem taldir eru hafa komið við flutning yfir hraunið, að hann hafi þá verið með lífsmarki eða nýlátinn. Hún taldi að ekki hefði verið unnt að bjarga lífi Einars eftir hvern og einn hinna þriggja alvarlegri höfuðverka, sem lýst er að framan. Hún skýrði hvaða áverkar væri líklegt að hlotist hefðu við flutning Einars Arnar í hraunið við Grindavík. Hún rökstuddi þá skoðun sína að útilokað væri að höfuðáverkarnir fjórir sem hér um ræðir hafi hlotist við hátt fall í grýtta urð en sú niðurstaða helgaðist einkum af lögun áverkanna. Áverkarnir væru eftir barefli. Hún kvaðst í lokaniðurstöðu sinni taka mið af rannsóknum sem Hannes Blöndal prófessor gerði er þau höfðu saman skoðað sýni sem rannsökuð voru.

Hannes Blöndal prófessor staðfesti rannsókn sína á heila Einars Arnar og skýrði niðurstöður. Hann kvað ljóst af áverkum á heila Einars Arnar, að hann hefði lifað eitthvað frá því að hann hlaut áverkana. Þetta verði ráðið af því, að hann hafi haft bjúg sem taki tíma að myndast, en myndist tæpast nema viðkomandi sé með lífsmarki.

Gunnlaugur Geirsson prófessor staðfesti fyrir dóminum álitsgerðir sínar vegna rannsóknar blóðsýna. Hann staðfesti að blóð sem fannst á skó í eigu ákærða og í bifreið hans hafi verið úr Einar Erni og skýrði niðurstöður.

Tómas Zoëga geðlæknir vann geðrannsókn á ákærða. Í niðurstöðukafla hans segir svo: ,,Mat undirritaðs sem byggir á löngum viðtölum við Atla Guðjón Helgason, lestri á málsskjölum og viðtölum við nákomna auk lækna sem hafa stundað Atla, er eftirfarandi:

Með vísan til 15. og 16. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er það mat undirritaðs að engin merki séu um það að Atli sé eða hafi verið haldinn geðveiki, andlegum vanþroska eða hrörnun, rænuskerðingu eða öðru samsvarandi ástandi sem hafi haft það í för með sér að hann geti ekki hafa stjórnað gerðum sínum þegar umræddur atburður átti sér stað.

Eins og fram kemur í skýrslunni hafði Atli Guðjón Helgason misnotað örvandi efni um nokkurt skeið og höfðu þau efni haft áhrif á hegðun hans og gerðir allra síðustu mánuði.

Ofanritað er gert eftir ítarleg viðtöl og lestur á gögnum sem fylgdu málinu og með fullu samþykki viðkomandi."

Tómas skýrði og staðfesti rannsókn sína fyrir dóminum. Hann kvað erfitt að greina á milli hvort það sé meðvitað eða ómeðvitað að ákærði muni ekki atburðarásina betur en hann hefur lýst. Hann kvað ekkert hafa komið fram í rannsókn sinni sem bendi til þess að um meðvitaða gleymsku ákærða sé að ræða. Fram kom í skýrslu Tómasar að ákærði misnotaði bæði ephedrin og amfetamín og bæði efnin frá fyrri hluta sumars 2000. Hann lýsti áhrifum lyfjaneyslunnar og að ákærði hafi verið mjög upptekinn af smáatriðum og oftúlkaði mikilvægi smæstu atriða. Í skýrslu Tómasar segir um þetta. "Sú spurning vaknar, hvort Atli oftúlkar augnaráð vinar síns, sem sýnist verða til þess að Atli fyllist skelfingu og grípur til hamarsins." Tómas kvað ekki hægt að slá neinu föstu um það hvort lyfjaneysla ákærða, sem hann lýsti, hefði haft áhrif á gerðir hans. Tómas kvað fyrst og fremst um ákveðin líkindi að ræða í því sambandi, en ekki væri hægt að slá neinu föstu um það með vissu.

Niðurstaða ákæruliðar I.

Ákærði er sakhæfur.

Þrátt fyrir að ákærði kunni að hafa verið undir einhverjum áhrifum örvandi efna á verknaðarstundinni eða haft fráhvarfseinkenni eftir notkun slíkra efna hefur það ekki áhrif á refsingu í málinu sbr. 17. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði kveðst muna að hafa slegið Einar Örn eitt kannski tvö hamarshögg í höfuðið á bifreiðastæðinu í Öskjuhlíð. Vísa má til þess sem að framan greinir varðandi minnisleysi ákærða um atburðarás þennan dag allt frá því sem gerðist í Öskjuhlíðinni og áfram. Af niðurstöðu Þóru Steffensen réttarmeinafræðings má ráða að fjórir áverkar á höfði Einars Arnar séu eftir barefli og þrír þessara áverka myndu hver fyrir sig hafa valdið dauða. Hún kvað útilokað að nokkrir þessara fjögurra áverka hefðu hlotist við flutning Einars Arnar í hrauninu við Grindavík.

Ákærði hefur játað að hafa ráðið Einari Erni bana á bifreiðastæði við Öskjuhlíð. Þótt ákærði muni ekki eftir því að hafa veitt Einari Erni fleiri hamarshögg í höfuðið en eitt og ef til vill tvö, telur dómurinn upplýst að fjórir áverkar á höfði Einars Arnar séu eftir barefli, sem verður að ganga út frá að hafi verið hamar. Niðurstaða dómsins um þetta byggist á framburði ákærða sem játaði að hafa slegið Einar Örn með hamri og vitnisburði Þóru Steffensen. Af ljósmyndum af höfuðáverkum Einars Arnar má ráða að lögun áverkanna bendir eindregið til þess að þeir séu eftir barefli eins og hamar.

Dómurinn telur þannig sannað að hluta með játningu ákærða, en að öðru leyti með vitnisburði Þóru Steffensen réttarmeinafræðings og með öðrum gögnum málsins, að ákærði hafi veist að Einari Erni á bifreiðastæði í Öskjuhlíð 8. nóvember sl. og banað honum með því að slá hann fjórum sinnum í höfuðið með hamri.

Ekki er við annað að styðjast en framburð ákærða um aðdraganda þessa atburðar. Ekkert er fram komið í gögnum málsins, sem bendir til þess að ákærði hafi fyrir fram verið búinn að taka ákvörðun um að bana Einari Erni. Verður við það að miða að ásetningur hans hafi orðið til er hann reiddi hamarinn til höggs. Árás ákærða var ofsafengin. Hann banaði Einari Erni með því að slá hann fjórum sinnum í höfuðið með hamri. Þessa háttsemi ber að mati dómsins að virða sem beinan ásetning ákærða til þess að bana Einari Erni. Brot ákærða varðar því við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákæruliðir II og III

Ákærði kvað lýsingu í II. ákærulið rétta varðandi dagsetningar, fjölda þrotabúa og fjárhæðir og játar að hafa ekki varðveitt fjármunina sem hér er ákært vegna á sérstökum vörslureikningi. Hann neitar að hafa dregið sér fé og að hafa gerst sekur um fjárdrátt eins og ákært er fyrir. Hann kvaðst hafa unnið fyrir þessum fjárhæðum sem skiptastjóri í þeim þrotabúum sem hér um ræðir.

Ákærði kvað lýsingu í III. ákærulið rétta varðandi fjárhæðir og dagsetningar. Hann neitar sök. Hann kvað afstöðu sína til þessa ákæruliðar helgast af sömu sjónarmiðum og fram komu varðandi ákærulið II. Hann kvaðst sem skiptastjóri hafa unnið fyrir þeim fjárhæðum sem ákært er vegna og því ekki um að ræða fjárdrátt. Hann kvaðst hafa lagt fram skjöl sem sýni þetta. Það sem hann hafi gert rangt var að gera ekki vinnuskýrslu. Ákærði gerði grein fyrir vinnu sinni við dánarbúið.

Jón Ármann Guðjónsson héraðsdómslögmaður var skipaður skiptastjóri í stað ákærða í dánarbúi Agnars W. Agnarssonar, sem lýst er í ákærulið III og sem skiptastjóri í þrotabúunum, sem lýst er í ákærulið II. Hann kvað ljóst að nokkur vinna hafi verið fólgin í skiptum í dánarbúi Agnars. Lýsti hann því nánar. Hann kvað tímafrekt að skipta dánarbúum er svo stendur á eins og í búi Agnars og lýsti því nánar. Hann kvað kröfuskrár hafa legið fyrir vegna allra þrotabúanna sem lýst er í þessum kafla ákærunnar og í raun hafi allri vinnu sem nauðsynleg var verið lokið til að hægt væri að ljúka skiptum þrotabúanna, sem öll voru eignalaus. Hann hafi því ekki þurft að inna af hendi mikla viðbótarvinnu við það sem ákærði hafi gert. Enginn skiptabeiðenda í þrotabúunum hefur gert athugasemd við vinnu ákærða við búin.

Sigrún Erla Guðmundsdóttir, yfirmaður bókhaldsdeildar hjá Deloitte og Tousche hf., skoðaði gögn sem tengdust lögfræðistofu ákærða í tengslum við rannsókn lögreglu í þessum kafla ákæru. Hún kom fyrir dóminn og lýsti vinnu sinni, meðal annars því að engin merki hefðu fundist um að ákærði hafi haldið vörslureikninga.

Niðurstaða ákæruliða II og III.

Ákærði kvað lýsingu atburða í þessum ákæruliðum rétta, utan að hann neitar því að um fjárdrátt hafi verið að ræða. Hann hafi sem skiptastjóri unnið fyrir þeim fjármunum sem honum er gefið að sök að hafa dregið sér.

Jón Ármann Guðjónsson héraðsdómslögmaður, sem skipaður var skiptastjóri í þrotabúunum sem lýst er í II. kafla ákærunnar og í dánarbúi sem lýst er í III. kafla, kvað enga kröfu hafa komið fram frá skiptabeiðendum þrotabúanna um að ógilda ráðstafanir ákærða vegna þeirra. Þá lýsti hann mikilli vinnu við dánarbú Agnars W. Agnarssonar. Ráða má af vitnisburði Jóns Ármanns og framlögðum skjölum ákærða, að hann hafi innt af hendi töluverða vinnu vegna allra búanna. Ákærði varðveitti fjármunina ekki á sérstökum vörslureikningi eins og honum bar. Það eitt og sér jafngildir því ekki að ákærði hafi dregið sér þá fjármuni sem honum bar að halda aðgreindum. Ekki er við annað að styðjast í málinu en framburð ákærða um það, að hann hafi átt rétt á þessum fjármunum vegna vinnu sinnar og þessi niðurstaða fær stoð í vitnisburði núverandi skiptastjóra búanna, Jóns Ármanns Guðjónssonar héraðsdómslögmanns. Samkvæmt þessu telur dómurinn að þrátt fyrir að ákærði hafi ekki gætt formsreglna við meðferð þess fjár sem ákært er vegna sé ósannað að hann hafi dregið sér og notað það heimildarlaust og í auðgunarskyni en skilyrði fjárdráttar er að verknaðurinn sé framinn í auðgunarskyni, sbr. 243. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Telja verður af því sem rakið hefur verið að ákærði hafi átt eða mátt telja sig eiga réttmæta kröfu til launa sem skiptastjóri í þessum búum. Ber samkvæmt þessu að sýkna ákærða af ákæruliðum II og III.

Ákæruliður IV.1

Ákærði neitar sök. Kveður hann víxilinn sem hér um ræðir hafa verið útbúinn eins og lýst sé í ákærunni og andvirði hans hafi verið ráðstafað samkvæmt samkomulagi ákærða og Einars Arnar, en andvirðið hafi af þeirra hálfu verið hugsað sem þóknun til ákærða vegna þess að störf hans á lögmannsstofu hans höfðu fallið niður að miklu leyti vegna vinnu ákærða við fyrirtæki þeirra Einars Arnar.

Þorsteins Ólafs, útibússtjóri Búnaðarbanka Íslands á Hlemmi, kom fyrir dóminn og lýsti kaupum bankans á viðskiptavíxli í eigu ákærða, sem hér um ræðir. Ákærði hafi haft prókúruumboð fyrir Unit ehf. og hafi andvirði víxilsins verið lagt inn á reikning ákærða við bankann eins og hann hefði beðið um. Þorsteinn var spurður hvort honum hefði verið greint frá því hvernig víxillinn var til kominn, þ.e. að andvirði hans hafi verið hugsað sem greiðsla til ákærða vegna þess að hann hafi ekki getað sinnt lögmannsstofu sinni sem skyldi vegna starfa fyrir Unit ehf. Þorsteinn kvað þessar forsendur ekki alveg ljósar í sínu minni. Hann minntist þess ekki að hafa heyrt í Einari Erni vegna víxilsins.

Niðurstaða ákæruliðar IV.1

Ekkert í gögnum málsins er til þess fallið að hrekja framburð ákærða um það, að ráðstöfun sú sem hér um ræðir hafi verið heimil, en ákærði hafði prókúruumboð eins og lýst var. Búnaðarbankanum bárust engar athugasemdir vegna þessa víxils sem ábektur var af Einari Erni. Samkvæmt þessu er ósannað gegn neitun ákærða, að hann hafi dregið sér og notað heimildarlaust andvirði víxilsins sem hér um ræðir og ber því að sýkna ákærða af þessum ákærulið.

Ákæruliður IV.2

Ákærði neitar sök. Hann kvað allar ráðstafanirnar sem hér um ræðir hafa verið gerðar af honum sem prókúruhafa og stjórnarformanni Unit ehf. og með samþykki Einars Arnar. Hann neitaði þannig að hafa dregið sér og notað heimildarlaust þessa fjármuni.

Hvað varðar 1 ½ milljón króna hinn 27. september sl. kvað ákærði Einar Örn hafa komið að máli við sig og sagt þá verða að fara af landinu daginn eftir í erindagjörðum fyrir Unit ehf. Ákærði hafi ekki átt heimangengt. Þeir ákváðu þá, til að ákærði gæti komið með til útlanda, að ákærði fengi þessa fjárhæð að láni og myndi endurgreiða eftir heimkomu. Þetta kvað ákærði hafa gengið eftir, en hlutabréf séu nú vistuð í Landsbanka Íslands í nafni Unit ehf. Mismun á andvirði hlutabréfanna og skuld ákærða átti að ganga frá síðar.

Ákærði kvaðst hafa tekið 220.080 krónur út af reikningi GAP í Búnaðarbankanum, eins og lýst er í þessum ákærulið. Hann kvaðst hafa haldið með peningana í verslun GAP, þar sem hann greiddi Þórði Georgi Hjörleifssyni rafvirkja þessa fjárhæð vegna vinnu hans fyrir GAP. Hann neitaði þannig að hafa dregið sér þessa fjármuni.

Ákærði kvað 300.000 krónurnar, sem lýst er í þessum ákærulið, hafa verið færðar á milli reikninga, sem báðir voru í eigu Unit. Millifærsla hafi verið gerð er ákærði var á fundi með útibússtjóra Landsbanka Íslands í Breiðholti, en millifærslan hafi verið gerð í ákveðnu skyni samkvæmt ráðleggingum útibússtjórans. Ákærði neitaði þannig að hafa dregið sér þessa fjármuni og notað í eigin þágu. Hann kvað greiðsluna hafa verið notaða til að greiða greiðslukort í eigu Unit, en ákærði og Einar Örn höfðu báðir greiðslukort í eigu félagsins.

Tómas Hallgrímsson, útibússtjóri Landsbanka Íslands í Breiðholtsútibúi, lýsti því er ákærði og Einar Örn lýstu fyrir honum fyrirætlunum sínum varðandi Unit ehf., að því er hann taldi í júlí síðastliðnum. Tómas kvað sér hafa litist vel á fyrirætlan þeirra og tekið fyrirtækið í viðskipti hjá bankanum. Engar skriflegar rekstraráætlanir hafi verið til vegna fyrirtækisins, en farið hafi verið yfir áætlanir þeirra vegna félagsins. Lánveitingar hafi einkum átt sér stað á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar ákærða, en bankinn taldi fjárhagsstöðu hans góða og réðst þessi afstaða bankans á eignayfirliti, sem hann lét í té. Tómas kvað ákærða hafa komið að máli við sig og þeir farið yfir reikninga Unit. Þeir hafi haft af því áhyggjur að debetkort kynni að vera í umferð á reikninginn, sem 300.000 krónurnar voru færðar af. Tómas minnti að hann hefði átt frumkvæði að því af þessum sökum að millifæra þessa fjárhæð inn á VISA greiðslukortareikning Unit sem úr varð. Hann kvað Einar Örn aldrei hafa gert athugasemdir við samskipti ákærða við bankann vegna Unit. Tómas staðfesti að bankinn hefði að handveði hlutabréf í eigu Unit. Ákærði afhenti þessi bréf sem viðbótartryggingu vegna fjárskuldbindinga Unit. Ekki hefði verið gengið að veðinu.

Hjalti Ástbjartsson, löggiltur endurskoðandi, vann drög að ársreikningi Unit ehf. upp úr bókhaldi félagsins. Hann lýsti vitneskju sinni um fjármögnun fyrirtækisins og fleiru. Hann kvað sér hafa verið greint frá því að ákærði og Einar Örn hefðu ætlað að reikna sér 350.000 króna mánaðarlaun hjá félaginu.

Ragnar Björn Ragnarsson, viðskiptafræðingur og æskuvinur Einars Arnar, lýsti vinnu sinni við gerð áætlana, sem tengdust stofnun og rekstri GAP ehf. og því hvernig Einar Örn lýsti hugmyndum sínum um reksturinn. Ekki er ástæða til að rekja vitnisburð hans frekar.

Þórður Georg Hjörleifsson rafvirki kvað ákærða hafa afhent sér 200.000 króna greiðslu í nóvember síðastliðnum, en mundi ekki nákvæmlega hvaða dag það var. Þetta hafi verið vinnulaun sín vegna vinnu fyrir Unit ehf.

Bjarni Ólafsson, æskuvinur ákærða, lýsti kynnum sínum af honum. Hann kvað ákærða hafa aðstoðað sig vegna greiðsluerfiðleika á síðastliðnu ári og 27. september síðastliðinn fékk hann um 1,3 milljónir króna frá ákærða, sem var að fara af landinu í erindagjörðum fyrir verslun þeirra Einars Arnar. Áður hafi hann fengið hjá ákærða eitt til tvöhundruð þúsund krónur. Ákærði gaf fyrirmæli um hvernig ráðstafa skyldi þessu fé til greiðslu skulda í bankastofnunum.

Niðurstaða ákæruliðar IV.2

Ljóst er af því sem rakið er að framan, að ákærði ráðstafaði hluta af þessum fjármunum í þágu GAP ehf. og er því ekki um að ræða fjárdrátt af hans hálfu, svo er um greiðslu hans til Þórðar Georgs Hjörleifssonar rafvirkja og millifærslu milli reikninga GAP, þótt það hafi verið vegna greiðslukorts sem ákærði hafði til umráða. Að öðru leyti er ekkert í gögnum málsins til þess fallið að hrekja framburð ákærða um að ráðstafanir þær, sem hér er ákært vegna, hafi verið samkvæmt samkomulagi við Einar Örn og verið heimilar samkvæmt því og á grundvelli prókúruumboðs ákærða.

Samkvæmt þessu er ósannað gegn neitun ákærða, að hann hafi dregið sér og notað heimildarlaust þær fjárhæðir sem hér um ræðir. Ber því að sýkna ákærða af þessum ákærulið.

 

Refsiákvörðun

Ákærði gekkst tvisvar sinnum undir dómsátt á árinu 1988 fyrir of hraðan akstur en hefur ekki áður gerst brotlegur við ákvæði almennra hegningarlaga.

Eins og rakið var hér að framan telur dómurinn að ásetningur hafi myndast hjá ákærða er hann reiddi til höggs með hamrinum sem hann banaði Einari Erni með. Árás ákærða var ofsafengin og sló hann Einar Örn fjórum sinnum í höfuðið með hamri og hefur vilji ákærða á þeirri stundu verið styrkur og einbeittur, sbr. 6. tl. 70. gr. almennra hegningarlaga. Eftir það ákvað ákærði að leyna atburðinum og losaði sig við það, sem hann taldi sönnunargögn. Eftir játningu ákærða 15. nóvember sl. hefur hann skýrt greiðlega frá atburðum. Dómurinn telur engar refsilækkunarástæður vera fyrir hendi hjá ákærða. Hann ber fulla refsiábyrgð á gerðum sínum.

Refsing hans þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 16 ár. Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 skal óslitin gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 16. nóvember 2000 koma til frádráttar refsivistinni.

Þess er krafist að ákærði verði sviptur leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi, skv. 68. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með bréfi dagsettu 23. apríl sl. lagði ákærði málflutningsréttindi sín inn til dómsmálaráðuneytisins. Samkvæmt bréfi ráðuneytisins dagsettu 2. þ.m eru málflutningsréttindi ákærða óvirk.

Með vísan til 2. mgr. i.f. 68. gr. almennra hegningarlaga er rétt að verða við kröfu ákæruvaldsins og svipta ákærða leyfi til málflutnigs fyrir héraðsdómi.

Bótakröfur

Við þingfestingu málsins viðurkenndi ákærði bótaskyldu skv. kröfuliðum I.1, I.2 og I.3 og kvaðst gera það sem í sínu valdi stæði til greiða bætur, sem dæmdar yrðu. Afstaða hans var söm undir aðalmeðferð málsins.

Verjandinn krefst sýknu af kröfu Guðlaugar Hörpu Gunnarsdóttur um bætur fyrir missi framfæranda og lækkunar miskabóta skv. þessum kröfukafla ákærunnar.

Með því að ákærði, sem er löglærður, hefur viðurkennt bótaskyldu eins og lýst var mun dómurinn ekki taka afstöðu til sýknukröfu verjandans varðandi kröfuna um bætur fyrir missi framfæranda.

I.1

Krafa Guðlaugar Hörpu um bætur fyrir missi framfæranda er byggð á 13. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Krafan er byggð á útreikingi Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings, sem kom fyrir dóminn og skýrði útreikning sinn. Við útreikninginn var miðað við umsamin laun Einars Arnar hjá Unit ehf. sem hafi verið 350.000 krónur á mánuði, auk þess sem bætt var við áætluðum 6% framlagi í lífeyrissjóð. Útreikningur Jóns Erlings er svofelldur:

Tekjur __

% 4.200.000

252.000

4.452.000

Örorka % 100 Árlegt tap 4.452.000

Höfuðstólsstuðull 14,161 63.044.772

Vextir, 4,5% frá dánardegi til útreikningsdags % 1,02 641.884

Bætur fyrir 100% örorku með vöxtum til 8/2 2001 63.686.656

Bætur til maka, 30 % 19.105.997

Jón Erlingur Þorláksson reiknaði bæturnar að nýju með breyttum forsendum og var niðurstöðutalan þá 16.609.610 krónur.

Staðfest er með vottorði Hagstofu Íslands, að Guðlaug Harpa og Einar Örn voru skráð með sameiginlegt lögheimili frá 1. ágúst sl. þar til Einar Örn lést. Fram kemur í greinargerð með kröfu Guðlaugar Hörpu, að þau Einar Örn hófu sambúð í mars sl. í íbúð sem hún átti. Hún seldi þá íbúð er þau Einar Örn keyptu saman íbúð í Kópavogi, þar sem þau bjuggu þar til Einar Örn lést. Hún sagði starfi sínu lausu hjá Flugleiðum síðastliðið haust og hóf nám í Kennaraháskóla Íslands. Höfðu þau Einar Örn ákveðið að hann myndi standa straum af öllum útgjöldum, svo sem fæði og uppihaldi.

Í 13. gr. skaðabótalaga er fjallað um bætur fyrir missi framfæranda til maka eða sambúðarmaka. Samkvæmt athugasemdum með frumvarpinu er ekki skilyrði bótaréttar sambúðarmaka skv. 13. gr. að sambúð hafi staðið tiltekinn lágmarkstíma. Eins og sambúð Guðlaugar Hörpu og Einars Arnar var háttað og lýst var að ofan, og hefur ekki verið andmælt af ákærða, telur dómurinn að sambúðarform þeirra uppfylli kröfur 13. gr. skaðabótalaga og að Guðlaug Harpa eigi rétt á bótum fyrir missi framfæranda sem sambúðarmaki Einars Arnar. Útreikningurinn sem krafan er byggð á tekur mið af 350.000 króna mánaðartekjum Einars Arnar. Ekki hafa verið lögð fram gögn sem sýna að fyrirtækið hafi getað staðið undir þeim launum, hvorki til skamms tíma né er horft er fram í tímann. Samkvæmt þessu er ekki upplýst að þær tekjur sem útreikningurinn er byggður á séu raunhæfar. Þykir samkvæmt þessu skorta frekari gögn til að renna stoðum undir þennan kröfulið og er ekki unnt að leggja efnisdóm á kröfuna eins og hún er sett fram. Ber samkvæmt því að vísa kröfunni um bætur fyrir missi framfæranda frá dómi.

Miskabótakrafa Guðlaugar Hörpu er byggð á 26. gr. skaðabótalaga, þar sem segir að heimilt sé að láta þann sem veldur dauða manns greiða maka miskabætur. Dómurinn telur að skýra beri þetta ákvæði svo að það taki til sambúðarforms Einars Arnar og Guðlaugar Hörpu og hún sé maki í skilningi þessa lagaákvæðis og eigi samkvæmt því rétt á miskabótum úr hendi ákærða. Ljóst er að Guðlaug Harpa hefur orðið fyrir þungbæru áfalli við fráfall Einars Arnar. Hún hefur síðan leitað sér læknis- og sálfræðiaðstoðar. Margrét Bárðardóttir sálfræðingur kom fyrir dóminn og lýsti andlegu áfalli Guðlaugar Hörpu og þunglyndi, sem hún hefur átt við að stríða eftir fráfall Einars. Hún hafi þurft lyfjameðferð auk sálfræðimeðferðar. Miskabætur Guðlaugar Hörpu þykja hæfilega ákvarðaðar 2.000.000 króna og skal fjárhæðin bera vexti eins og greinir í dómsorði, en vaxtakröfunni var ekki andmælt.

Kröfu Guðlaugar Hörpu um bætur vegna útlagðs kostnaðar, að fjárhæð 25.643 krónur hefur ekki verið andmælt og er ákærði dæmdur til að greiða henni þá fjárhæð auk vaxta eins og lýst er í dómsorði.

I.2

Miskabótakrafa Aldísar Einarsdóttur er byggð á 26. gr. skaðabótalaga, þar sem foreldrum er tryggður réttur til miskabóta er svo stendur á sem í þessu máli.

Ráða má af gögnum málsins einnig kom fram undir aðalmeðferð þess, að náið og gott samband var milli Einars Arnar og foreldra hans. Missir þeirra er mikill. Jörundur Kristinsson, heimilislæknir Aldísar og Birgis Arnar, kom fyrir dóminn og lýsti áhrifum sonarmissins á þau bæði. Hann kvað ýmislegt hafa áhrif á líðan þeirra. Skaðinn væri þeim mun meiri eftir því sem áreitið væri meira og var nefnt sem dæmi í þessu sambandi að Aldís hefði faðmað ákærða að sér á bænastund. Þykir mega líta til þess að það hafi verið henni sérstaklega þungbært. Mikil sárindi, kvíði, angist, svefntruflanir og vanlíðan hafi gripið um sig. Fráfall Einars Arnar hafi áhrif á starfsorku þeirra beggja. Bæði hafi þau þurft á lyfjagjöf að halda vegna þessa atburðar og var því lýst nánar. Miskabætur til Aldísar Einarsdóttur, móður Einars Arnar, þykja hæfilega ákvarðaðar 1.200.000 krónur auk vaxta, svo sem greinir í dómsorði, en vaxtakröfu var ekki andmælt.

I.3

Miskabótakrafa Birgis Arnar, föður Einars Arnar, er byggð á sömu forsendum og krafa Aldísar. Vísað er til þess sem þar greindi og eru miskabætur til Birgis Arnar ákvarðaðar á sömu meginforsendum og til Aldísar konu hans og honum dæmdar 1.000.000 króna í miskabætur auk vaxta eins og greinir í dómsorði, en vaxtakröfunni var ekki andmælt.

Krafa Birgis Arnar um útfararkostnað er byggð á 12. gr. skaðabótalaganna. Verjandi ákærða krefst lækkunar þessa kröfuliðar.

Samkvæmt 12. gr. skaðabótalaga skal sá sem skaðabótaábyrgð ber á dauða manns greiða hæfilegan útfararkostnað. Einar Örn féll frá í blóma lífsins. Af gögnum málsins sést að hann stundaði íþróttir hjá mörgum félögum. Bara af þeim sökum einum átti hann marga vini og kunningja sem fylgdu honum til grafar auk annarra. Þegar allt þetta er virt verður ekki annað ráðið af gögnum málsins, en að útfararkostnaður sá sem krafist er sé hæfilegur í skilningi 12. gr. skaðabótalaga og er ákærði dæmdur til að greiða þá fjárhæð sem krafist er auk dráttarvaxta frá uppsögu dómsins að telja, en vaxtakröfunni var ekki andmælt.

II og III

Eftir niðurstöðum hér að framan í þessum ákæruliðum ber að vísa báðum skaðabótakröfunum sem hér um ræðir frá dómi.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, utan að hann greiðir 3/4 hluta af 1.000.000 króna verjanda- og málsvarnarlaunum til Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns á móti 1/4 hluta, sem greiðist úr ríkissjóði en hluti þóknunarinnar er vegna vinnu verjandans á rannsóknarstigi málsins.

Þá greiði ákærði 200.000 krónur í þóknun til Lilju Jónasdóttur hæstaréttarlögmanns sem fór með bótakröfur f.h. Guðlaugar Hörpu Gunnarsdóttur og 250.000 krónur í þóknun til sama lögmanns vegna vinnu hennar við bótakröfur Aldísar Einarsdóttur og Birgis Arnar Birgis.

Sigríður Jósefsdóttir saksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson, sem dómsformaður, Finnbogi H. Alexandersson og Hjördís Hákonardóttir.

DÓMSORÐ

Ákærði, Atli Guðjón Helgason, sæti fangelsi í 16 ár, en frá refsivistinni skal draga óslitið gæsluvarðhald hans frá 16. nóvember 2000 að telja.

Ákærði er sviptur leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi.

Ákærði greiði Guðlaugu Hörpu Gunnarsdóttur 2.000.000 króna í miskabætur með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga frá 8. nóvember 2000 til dómsuppsögudags en með dráttarvötum frá frá þeim degi til greiðsludags. Þá greiði ákærði Guðlaugu Hörpu 25.643 krónur með dráttarvöxtum af 19.920 krónum frá 8. febrúar 2001 til 19. s.m., af 21.527 krónum frá þeim degi til 21. s.m., en af 25.643 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði Aldísi Einarsdóttur 1.200.000 krónur og Birgi Erni Birgis 1.000.000 króna í miskabætur með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. nóvember 2000 til dómsuppsögudags, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi að telja til greiðsludags.

Ákærði greiði Birgi Erni Birgis 1.361.684 krónur með dráttarvöxtum frá uppsögu dóms þessa að telja.

Kröfu Guðlaugar Hörpu Gunnardóttur um bætur fyrir missi framfæranda er vísað frá dómi.

Skaðabótakröfum Jóns Ármanns Guðjónssonar héraðsdómslögmanns og Helga V. Jónssonar hæstaréttarlögmanns fyrir hönd Unit á Íslandi er vísað frá dómi.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, utan að hann greiðir 3/4 hluta af 1.000.000 króna verjanda- og málsvarnarlaunum til Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns á móti 1/4 hluta sem greiðist úr ríkissjóði.

Þá greiði ákærði 200.000 krónur í þóknun til Lilju Jónasdóttur hæstaréttarlögmanns sem fór með bótakröfur f.h. Guðlaugar Hörpu Gunnarsdóttur og 250.000 krónur í þóknun til sama lögmanns vegna vinnu hennar við bótakröfur Aldísar Einarsdóttur og Birgis Arnar Birgis.

 

Guðjón St. Marteinsson

Finnbogi H. Alexandersson

Hjördís Hákonardóttir

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Héraðsdómur Reykjavíkur, 29. maí 2001

 

E N D U R R I T

Ú R D Ó M A B Ó K

H É R A Ð S D Ó M S R E Y K J A V Í K U R

 

 

 

 

 

 

 

Málið nr. S-599/2001

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Atla Guðjóni Helgasyni

(Jón Egilsson hdl.)

 

 

 

Dómur 29. maí 2001.

 

 

 

 

 

GSM, FHA, HH/sj

 

 

 

 

 

 

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert