Háspennumastur á Arnarhóli hluti af vetrarhátíð

Mastrið er sett upp í tengslum við hátíðina Ljós í …
Mastrið er sett upp í tengslum við hátíðina Ljós í myrkri, sem er vetrarhátíð Reykjavíkur, en hátíðin verður haldin dagana 27. febrúar til 3. mars. mbl.is/Árni Sæberg

Háspennumastur, sem búið er að setja upp á Arnarhóli, hefur vakið ómælda athygli vegfarenda í dag. Mastrið er sett upp í tengslum við hátíðina Ljós í myrkri, sem er vetrarhátíð Reykjavíkur, en hátíðin verður haldin dagana 27. febrúar til 3. mars. Að sögn Lilju Hilmarsdóttur, verkefnasjóra hátíðarinnar, var ákveðið að setja mastrið upp nú þegar mikið frost er í jörðu þannig að jarðrask verði sem minnst.

Lilja segir þetta gert samkvæmt ráði Borgarverkfræðingsins í Reykjavík og Landsvirkjunar. Ekki er grafið fyrir mastrinu og var lögð áhersla á að hrófla ekki við neinu vegna þeirra minja, sem talið er fullvíst að séu í hólnum að sögn Lilju. Mastrið verður lýst upp þegar hátíðin verður sett. „Þetta er vetrarhátíð Reykjavíkurborgar. Þetta á að vera að einhverju leyti með svipuðu sniði og menningarnótt á sumri," sagði Lilja en dagskrá hátíðarinnar verður kynnt í byrjun febrúar. „Dagskráin verður fjölbreytt og fer fram í miðborginni og Laugardalnum m.a. í tengslum við sýningu Samtaka iðnaðarins „Construct North" sem er um hönnun, tækni og mannvirkjagerð á norðurslóðum. Þess má geta að Reykjavíkurborg býður borgarbúum að skoða sýninguna sunnudaginn 3. mars öllum að kostnaðarlausu í tilefni hátíðarinnar," segir á vef Reykjavíkurborgar. „Á hátíðinni verður fléttað saman ólíkum þáttum sem tengjast þeim öflum sem ljós og myrkur leysa úr læðingi í skammdeginu. Má þar nefna fyrirlestra um myrkfælni, skammdegisþunglyndi og sagðar verða draugasögur, kveðnar rímur og haldnar kvöldvökur með þjóðdönsum," segir ennfremur á borgarvefnum. „Tónlistin verður í hávegum höfð m.a. í kirkjum höfuðborgarinnar. Verslanir og veitingahús í miðborginni munu með einum eða öðrum hætti koma að hátíðinni og borgin verður fallega upplýst í samvinnu við Landsvirkjun og Orkuveituna. Grunnskólar borgarinnar verða virkir í tengslum við hátíðina og hefur hver bekkjardeild sitt verkefni tengt ljósi, myrkri, hita og kulda," segir á vefnum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert