Lögreglu og öryggisverði dreif að er hrópað var að Kínaforseta

Lögregla hefur afskipti af liðsmanni Falun Gong við Þjóðmenningarhúsið.
Lögregla hefur afskipti af liðsmanni Falun Gong við Þjóðmenningarhúsið. mbl.is/Þorkell

Íslenska lögreglumenn og kínverska öryggisverði dreif að er liðsmaður Falun Gong hrópaði að Jiang Zemin Kínaforseta er hann gekk frá bíl sínum og inn í Þjóðmenningarhúsið til fundar við Davíð Oddsson forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra.

„Falun Dafaho" hrópaði Joel Chiphar, eða „Falun er gott" er Kínaforseti gekk frá bíl sínum. Áður hafði hann gert sig líklegan til að draga upp fána með merki Falun Gong en lögregla gaf sig á tal við hann og afhenti hann henni fánann.

Stefán Eiríksson, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu, var á vettvangi og sagði við Fréttavef mbl.is að fulltrúar Falon Gong hefðu verið sérstaklega beðnir um að vera ekki með uppákomur er forsetinn kæmi að húsinu.

Chiphar sagðist ekki telja framkomu sína á nokkurn hátt hafa verið í ósamræmi við það samkomulag sem gert hefði verið við lögregluna. Einungis hefði verið kveðið á um að liðsmenn Falun Gong héldu sig innan sérstakra svæða sem hann og hefði gert. Ekki hefði verið rætt um að þeir mættu ekki mótmæla með hrópum.

Í framhaldi af atvikinu stækkaði lögreglan öryggissvæðið við Þjóðmenningarhúsið bæði upp eftir Hverfisgötu og niður eftir Ingólfsstræti. Bílalest Jiangs ók niður Hverfisgötuna að húsinu og varð Kínaforseti því ekki var við hóp liðsmanna Falun Gong við hugleiðslu og æfingar á sérstöku svæði á Arnarhóli, enda í hvarfi frá Þjóðmenningarhúsinu.

Heimsókn Kínaforseta - svipmyndir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert