Dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir morð

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Þór Sigurðsson í 16 ára fangelsi fyrir að verða Braga Óskarssyni að bana á Víðimel í Reykjavík í febrúar á síðasta ári. Þór viðurkenndi fyrir dómi að hafa ætlað að brjótast inn í hjólbarðaverkstæði vopnaður kjötexi og slaghamri og sveðju. Hann hitti Braga á leiðinni og í kjölfarið varð hann honum að bana. Dagana á undan hafði Þór verið í mikilli neyslu fíkniefna. Þór var einnig dæmdur til að greiða móður Braga eina og hálfa milljón króna í skaðabætur.

Í dómi héraðsdóms segir, að með skýlausri játningu ákærða, sem studd sé þeim rannsóknargögnum sem liggi fyrir í málinu, sé sannað að hann sé sekur um að hafa veist að Braga Óskarssyni á Víðimel í Reykjavík aðfaranótt 18. febrúar sl. og banað honum með fjölmörgum höggáverkum á höfuð. Notaði hann við það kjötexi og slaghamar.

Þá kemur fram að Þór sé einn til frásagnar og verði að byggja á framburði hans um að hann hafi rekist á Braga heitinn af tilviljun. Virðist æði hafa runnið á Þór og líklegt sé að það hafi stafað af vímuáhrifum þeim sem hann var þá undir. Er Þór því fundinn sekur um manndráp.

Geðlæknir sem rannsakaði Þór taldi hann vera sakhæfan. Fram kemur í dómnum að það sé álit læknisins að Þór eigi ekki við geðsjúkdóma að stríða og ekki væru undirliggjandi neinir persónuleikabrestir. Hann væri ungur maður með ágætar gáfur og marga góða hæfileika, rólegur, en hefði byrjað ungur að drekka áfengi og hafi ánetjast fíkniefnum fyrir um tveimur árum og farið í mikla fíkn.

Verknaðurinn hefði verið framinn undir áhrifum vímunnar. Þór hefði fengið meðferðarmöguleika á Vogi, en ekki þá tekist að ráða við þetta og hafi kannski ekki verið tilbúinn að fara í meðferð. Það væri ef til vill óvanalegt við hans mál að um sé að ræða tiltölulega stutta neyslusögu af alvarlegum fíkniefnum, og einnig það að ekki séu neinir alvarlegir persónuleikabrestir undirliggjandi hjá honum. Hér sé því um að ræða hræðilegar afleiðingar þess sem geti orðið þegar menn séu í mikilli neyslu. Sagði læknirinn ólíklegt að Þór myndi fremja viðlíka glæp væri hann ekki undir áhrifum fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert